Veiðin að glæðast í Fjarðará í Ólafsfirði
Veiði er að glæðast í Fjarðará í Ólafsfirði,í daglegu tali nefnd Ólafsfjarðará.
Samkvæmt veiðibók SVAK veiddust 20 bleikjur s.l mánudag. Formaður SVAK var með eina stöngina og fór út í fjörðinn fagra með hóflegar væntingar eftir rólega byrjun en fór sátt heim eftir að hafa sett í tólf bleikjur og landað sjö sem voru vel haldnar. Steingrímur Sævarr Ólafsson var með tvær stangir fyrrnefndan dag og var sömuleiðis ánægður með daginn. Gefum Sævari orðið;
„Áin er enn köld og það er búið að rigna alltof mikið í sumar í kuldanum,“ sagði bóndi þegar ég var að ganga að Hrúthólshyl í Ólafsfjarðará. „Hann er einfaldlega ekki mættur,“ bætti hann við meðan hann bar sig illa yfir heyfengnum. Hugur veiðimannsins er hins vegar ekki við fóður á landi, heldur hvað bleikjan vill...ef hún er mætt. Með veiðifélagann Kristínu Báru Bryndísardóttur, sem var að fara sinn fyrsta veiðitúr í fluguveiði, voru væntingar mínar því ekki miklar þegar kastað var fyrir hinni yndislegu Ólafsfjarðarárbleikju. En viti menn, Ólan gefur ef menn reyna. Með Pheasant Tail og Stirðu undir gáfu nokkrir staðir silfraðar bleikjur sem höfðu mætt sem undanfarar í ánna til að kanna skilyrði. Andstreymisveiði reynist vel og það var gaman að sjá að bæði efri og neðri svæði héldu fiski, þó hann sé ekki enn mættur í öllu sínu veldi. Ólafsfjarðará gefur þeim sem reyna og fyrir nýliðann sem tók sinn jómfrúarflugufisk og nokkrar til viðbótar, er ekki hægt að biðja um betri vettvang til að hefja fluguveiðiferil. Og til að þakka fyrir okkur, var að sjálfsögðu öllu sleppt“.
Myndin er af Kristínu Báru með sinn fyrsta fluguveiðifisk sem hún fékk í Hólshyl.
Vonum að þetta sér byrjunin á góðu veiðisumri í firðinum fagra. Því miður eru veiðileyfi í ánni orðin að skornum skammti en enn er þó hægt að tryggja sér leyfi í september fyrir þá sem vilja.
Nú geta veiðimenn sannarlega glaðst því nú er sá tími að ganga í garð að sjóbleikjan fari að ganga upp í árnar. Gömlu mennirnir sögðu að það þýddi lítið að renna fyrir sjóbleikjuna fyrr en uppúr 15.júlí og þeir höfðu eflaust rétt fyrir sér. Formaður SVAK var farin að ókyrrast og brá sér því í Hörgá fyrir skemmstu. Hún krækti í eina tæplega 50 sm sem lét vel finna fyrir sér í Helguhylnum og sett í aðra á sama stað sem ákvað þó að yfirgefa partýið og rauk út í strauminn. Hörgáin er vatnsmikil þessa dagana en hefur haldist nokkuð hrein og er því vel veiðanleg.
Við viljum biðja veiðimenn okkar að taka tillit til kvóta í ánum okkar og sleppa ósærðri bleikju yfir 50 sm. Skráning í rafrænu veiðibókina á svak.is er líka hluti af veiðitúrnum. Þessar upplýsingar eru okkur ákaflega mikilvægar. Við vonum að þig eigið góðar stundir á bakkanum kæru veiðimenn og konur. Endilega sendið okkur myndir úr veiðitúrnum á svak@svak.is með smá veiðisögu og við smellum henni á vefinn okkar.
Stöndumst ekki freistinguna þegar veðurfræðingar spá bongó fyrir norðan og skellum síðustu kastæfingu á með stuttum fyrirvara.
Ætlum að hittast vestan megin Leirutjarnar sunnudaginn 29.maí kl 12 og æfa köstin. Vanir kastarar á staðnum sem leiðbeina þeim sem vilja. Þá skyggnumst við líka í fluguboxin og förum yfir hvaða flugur eru fýsilegar við mismunandi aðstæður. Ekki hafa áhyggjur af hádegismatnum, grillaðar pylsur og drykkir með í boði félagsins. Hlökkum til að sjá ykkur 😎
Vorveiðin í Hörgá hefst í dag 1.maí á svæðum 1 og 2. Eingöngu er leyfð fluguveiði á þessum tíma og sleppiskylda er á fiski. Fyrir félagsmenn er hálfur dagur seldur á 3500 kr. Góða skemmtun á bakkanum.
Aðalfundi SVAK er lokið en hann var haldinn í Deiglunni í kvöld.
Nýja stjórn skipa:
Guðrún Una Jónsdóttir formaður
Jón Bragi Gunnarsson
Anna Kristveig Arnardóttir
Stefàn Gunnarsson
Valgerður Jónsdóttir
Varamenn;
Guðmundur Ármann Sigurjónsson
Benjamín Þorri Bergsson
Formanninn dreymir um að fá fleiri veiðisvæði fyrir félagsmenn SVAK og saknar þess að veiðisvæði fari ekki í útboð. Hún vill sjá fleira ungt fólk ánetjast stangveiðinni og stefnir á að stofna kvennaklúbb til að fá fleiri konur í sportið. Baráttan við sjókvíaeldi á laxi heldur áfram og að vekja athygli á hnignun sjóbleikjunnar sem hefur farið fækkandi undanfarin ár og vill hertari aðgerðir á netaveiði í sjó og aukna kvóta í ánum. SVAK stefnir á öflugt félagslíf nú loksins þegar covidpestin er á undanhaldi og hefur þegar haldið 3 kastæfingar á síðustu vikum. Fyrsti fundur með nýrri stjórn verður haldinn fljótlega og línurnar lagðar fyrir veiðisumari 2022.
Gleðilegt sumar kæru stangveiðiunnendur !
Minnum á kastæfinguna við Leirutjörn í dag milli kl 11 og 13. Endilega kíkið á okkur í góða veðrinu, æfið ykkur að kasta eða bara skiptist á nokkrum góðum veiðisögum og njótið veðurblíðunnar. Kakó að hætti Kiddu ásamt meðlæti til að dýfa í.
Mikil eftirspurn hefur verið eftir kastkennslu í vor. Við héldum tvær kastæfingar í Íþróttahúsinu á Hrafnagili sem voru vel sóttar. Nú færum við okkur út í vorblíðuna og ætlum að hittast við Leirutjörn á Sumardaginn fyrsta kl 11 og liðka okkur ennfrekar í fluguköstum. Endilega komið með stangirnar ykkar og æfið ykkur. Leiðbeinendur á staðnum. Veðurspáin lofar góðu, tveir metrar á sekúndu,12 gráður í plús og heiðskýrt. Boðið verður uppá hressingu á milli kasta.
Bleikjan – Styðjum stofninn eru nýstofnuð félagasamtök sem hafa það að markmiði að gæta hagsmuna sjóbleikju og meta aðgerðir til að styrkja stofninn.
Í samstarfi við Stangaveiðifélag Akureyrar (SVAK), Veiðifélögin í Eyjafirði og Fiskirannsóknir ehf verður haldin opinn fundur um málefnið.
Staðsetning er Deiglan í Gilinu á Akureyri og hefst fundurinn kl 20.
Þar verður stiklað á stóru um þá þætti sem teljast vera orsakavaldar hnignunarinnar og hvað er til ráða.
Fundarstjóri er Sigmundur Ófeigsson en mælandur verða Högni Harðarson hjá Fiskirannsóknum ehf og Stefán Einar Sigmundsson verkfræðingur hjá Höldi
Boðið verður upp á kaffiveitingar
Aðalfundur Stangveiðifélags Akureyrar verður haldinn þriðjudaginn 26.apríl kl 20 í Deiglunni við Kaupvangsstræti.
Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Formaður flytur skýrslu stjórnar
3. Farið yfir ársreikning félagsins og hann lagður fram til samþykktar
4. Umræður um ofangreint
5. Fundarhlé, veitingar
6. Kosningar í stjórn og varastjórn ásamt skoðunarmönnum reikninga.
7. Önnur mál
Hörgá fer í forsölu til félagsmanna SVAK 12.apríl kl 20 og stendur tl 19.apríl.
Hörgá er skemmtileg og fjölbreytt á með 7 veiðisvæðum þar sem er veitt á 2 stangir á hverju svæði. Nánar má lesa um Hörgá hér https://svak.is/info/horga
Veiðitímabilið hefst 1.maí á svæðum 1 og 2 og er eingöngu leyfð fluguveiði á þeim svæðum til 20 júní og skal öllum fiski sleppt fram að því.
Önnur svæði árinnar opna 20.júní. Svæði 4b, 5a og 5b loka 10. september en neðri svæði (1, 2, 3 og 4a) eru opin út september.
Veiða má að hámarki 3 bleikjur á stöng á vakt á svæðum 1,2,3,4a,4b og 5 a. Þessar takmarkanir eiga ekki við urriða, sjóbirting eða lax. Á þessum svæðum má nota allt löglegt agn, að undanskilinni vorveiði þar sem eingöngu má nota flugu eins og kemur fram hér að ofan. Á svæði 5b verður áfram eingöngu leyfð fluguveiði en nú skal allri bleikju sleppt á því svæði.
Veiðileyfasala SVAK fram á heimasíðu félagsins. Ef þú hefur ekki keypt leyfi hjá okkur áður þarftu að fara inn í nýskráning til þess að skrá þig inní kerfið.
Gleðilegar stundir á bakkanum
Eftir langar og strangar samkomutakmarkanir er nú loksins komið að því að hittast á opnu húsi.
Bleikjan – Styðjum stofninn eru nýstofnuð félagssamtök sem hafa það að markmiði að gæta hagsmuna sjóbleikju og meta aðgerðir til að styrkja stofninn.
Í samstarfi við Stangaveiðifélag Akureyrar (SVAK), Veiðifélögin í Eyjafirði og Fiskirannsóknir ehf verður haldin opinn fundur um málefnið 19. apríl næstkomandi.
Staðsetning er Deiglan í Gilinu á Akureyri og hefst fundurinn kl. 20:00.
Þar verður stiklað á stóru um þá þætti sem teljast vera orsakavaldar hnignunarinnar og hvað er til ráða. Fundarstjóri er Sigmundur Ófeigsson en mælendur verða Högni Harðarson hjá Fiskirannsóknum ehf og Stefán Sigmundsson.
Vonumst til að sjá sem flesta.
Veitingar í boði.
Minnum á kastæfinguna í dag laugardagí íþróttahúsinu Hrafnagili milli kl 12 og 14.
Sjáumst
Kveðja
Stjórnin
Ágætu félagsmenn SVAK
Hraunssvæðin í Laxá í Aðaldal fara í forsölu til félagsmanna SVAK fimmtudaginn 31.mars kl 20 og stendur forsalan til 7.apríl.
Hraun er mjög skemmtilegt fjölskyldusvæði með mikilli náttúrufegurð og frábært þurrflugusvæði.
Veiðitími er frá 1. júní – 31. ágúst. Svæðið er selt í hálfum dögum.
Veitt frá kl 7-13 og 16-22 en eftir 5. ágúst frá kl 7-13 og 15-21.
Veitt er á 2 stangir á Efra-Hrauni og 2 stangir á Neðra-Hrauni.
Eingöngu er leyfð fluguveiði
Kvótinn er 2 fiskar á dag á stöng og skylt er að sleppa öllu yfir 40 cm.
Öllum laxi skal sleppt aftur án undantekninga. Særist lax svo honum verði ekki hugað líf ber að koma honum til landeiganda.
Vor og veiðikveðjur
Stjórn SVAK
Ágætu félagar SVAK og aðrir unnendur stangveiðinnar.
Þá erum við að fara í gang með okkar sívinsælu kastæfingar eftir langt hlé ! Styttist óðum í vorveiðina og líklega einhverjir sem vilja að taka nokkur æfingaköst innandyra við bestu aðstæður. Æfingarnar eru ætlaðar fullorðnum sem og börnum, vönum sem óvönum og er þátttakendum að kostnaðarlaus. Bara mæta með stöngina. Leiðbeinendur verða á staðnum. Æskilegt er að þeir sem ætla að mæta skrái þátttöku með því að senda póst á svak@svak.is svo við höfum smá hugmynd um hve margir mæta.
Æfingarnar verða sem hér segir:
Laugardagur 19.mars kl 12-14 í Íþróttahúsinu Hrafnagili
Laugardagur 2.apríl kl 12-14 í Íþróttahúsinu Hrafnagili
Frítt í sund á eftir fyrir þá sem vilja.
Sjáumst hress
Stjórn SVAK
Fjarðará í Ólafsfirði oftast nefnd Ólafsfjarðará fer í forsölu til félagsmanna SVAK þriðjudaginn 1.mars kl 20 og stendur til 8.mars.
SVAK er leigutaki árinnar ásamt Veiðifélaginu Flugunni og skipta félögin jafnt með sér dögum,hvort félag með eina viku í senn.
Veitt er frá 15.júlí til 20 september.
Ólafsfjarðará er fjögurra stanga á þar sem veitt er á tvær stangir á efra svæði fyrri vaktina og á neðra svæði seinni vaktina og öfugt. Svæðaskipti eru á vaktaskiptum.
Veitt er á flugu og maðk. Í ánni veiðist aðallega sjóbleikja, en alltaf eitthvað af urriða og einn og einn lax.
Í verndunarskyni hefur SVAK sett bleikjukvóta í ánni niður í 5 bleikjur á stöng per vakt. Eftir að kvóta hefur verið náð skal sleppa allri bleikju.
Stjórn SVAK beinir einnig þeim tilmælum til veiðimanna sinna og sleppa allri bleikju sem er 50 sm eða stærri.
Í rafræna veiðibók SVAK voru skráðar 431 bleikja síðast liðið sumar sem er umtalsverð auking frá fyrri sumrum.
Sem fyrr fá félagsmenn SVAK 20 % afslátt af veiðileyfum í Ólafsfjarðará.
Með von um ánægjulegar stundir á bakkanum.
Stjórnin
Ágætu félagar.
Það fer óðum að styttast í forsölu Ólafsfjarðarár. Covid verið að stríða okkur þar eins og annarsstaðar. Við munum að sjálfsögðu auglýsa hana með nokkurra daga fyrirvara og senda póst á félagsmenn sem og að setja upplýsingar á heimasíðu og Fjésbókarsíðu SVAK.
Ólafsfjarðará stóð sig með mikilli prýði s.l sumar ef tekið er mið að árunum á undan með 431 skráðri bleikju í veiðibók SVAK.