Við notum vafrakökur til að greina upplýsingar um notkun vefsíðunnar til að bæta efni og birta markaðsefni. Nánar um vafrakökur LEYFA VAFRAKÖKUR
27.7.2022 - Veiði að glæðast í Ólafsfjarðará

Veiðin að glæðast í Fjarðará í Ólafsfirði

 

Veiði er að glæðast í Fjarðará í Ólafsfirði,í daglegu tali nefnd Ólafsfjarðará.

Samkvæmt veiðibók SVAK veiddust 20 bleikjur s.l mánudag. Formaður SVAK var með eina stöngina og fór út í fjörðinn fagra með hóflegar væntingar eftir rólega byrjun en fór sátt heim eftir að hafa sett í tólf bleikjur og landað sjö sem voru vel haldnar. Steingrímur Sævarr Ólafsson var með tvær stangir fyrrnefndan dag og var sömuleiðis ánægður með daginn. Gefum Sævari orðið; 

„Áin er enn köld og það er búið að rigna alltof mikið í sumar í kuldanum,“ sagði bóndi þegar ég var að ganga að Hrúthólshyl í Ólafsfjarðará.  „Hann er einfaldlega ekki mættur,“ bætti hann við meðan hann bar sig illa yfir heyfengnum. Hugur veiðimannsins er hins vegar ekki við fóður á landi, heldur hvað bleikjan vill...ef hún er mætt.  Með veiðifélagann Kristínu Báru Bryndísardóttur, sem var að fara sinn fyrsta veiðitúr í fluguveiði, voru væntingar mínar því ekki miklar þegar kastað var fyrir hinni yndislegu Ólafsfjarðarárbleikju. En viti menn, Ólan gefur ef menn reyna.  Með Pheasant Tail og Stirðu undir gáfu nokkrir staðir silfraðar bleikjur sem höfðu mætt sem undanfarar í ánna til að kanna skilyrði. Andstreymisveiði reynist vel og það var gaman að sjá að bæði efri og neðri svæði héldu fiski, þó hann sé ekki enn mættur í öllu sínu veldi. Ólafsfjarðará gefur þeim sem reyna og fyrir nýliðann sem tók sinn jómfrúarflugufisk og nokkrar til viðbótar, er ekki hægt að biðja um betri vettvang til að hefja fluguveiðiferil.  Og til að þakka fyrir okkur, var að sjálfsögðu öllu sleppt“.

Myndin er af Kristínu Báru með sinn fyrsta fluguveiðifisk sem hún fékk í Hólshyl.

 

Vonum að þetta sér byrjunin á góðu veiðisumri í firðinum fagra. Því miður eru veiðileyfi í ánni orðin að skornum skammti en enn er þó hægt að tryggja sér leyfi í september fyrir þá sem vilja.

Til baka

Keyrt á vefkerfi veidileyfi.is © 2022.