Við notum vafrakökur til að greina upplýsingar um notkun vefsíðunnar til að bæta efni og birta markaðsefni. Nánar um vafrakökur LEYFA VAFRAKÖKUR
31.8.2023 - Mánudagur til moks

Úlfar Agnarsson lenti heldur betur í moki í Fjarðará í Ólafsfirði s.l mánudagsmorgun. Fyrir hádegi var hann búinn að landa 22 bleikjum, 4 urriðum, missa vænan lax og einnig góðan sjóbirting sem sleit línuna. Úlli hefur verið veiðivörður í ánni til margra ára og man ekki eftir eins líflegri morgunvakt og þessari. Bleikjurnar voru frá 32-47 sm,margar nýgengnar. Tveir af urriðunum sem náðust á land voru vænir, annar þeirra 65 sm og yfir 3 kg og hinn aðeins minni. Það voru veiðistaðirnir Símastrengur, Þjófavaðshylur og Hrúthólshylur sem gáfu flesta fiskana. Rigning og aðeins skol í ánni hefur líklega ýtt undir þessa góðu veiði. Svo á hann Úlli einhverja leyni straumflugu sem hann hefur hnýtt sjálfur til margra ára sem er víst gjöful í meira lagi og gaf flesta þessa fiska þennan mokmánudag. Veiðimenn sem voru á efra svæðinu þennan morgun veiddu sömuleiðis vel á sínar stangir og skráðu 12 bleikjur og 3 urriða eftir daginn. Mikið hefur sést af bleikju í ánni undanfarið og stökkvandi laxar en alltaf veiðast 1-2 laxar í ánni á hverju sumri. 

Í dag hafa verið skráðar alls tæpar 400 bleikjur í Fjarðará í Ólafsfirði en voru aðeins 121 skráð eftir allt tímabilið í fyrra. Svipuð ásókn hefur verið í ána undanfarið ár. Gengið var frá nýjum leigusamningi milli Veiðifélags Ólafsfjarðar og SVAK í vetur en áður leigðu SVAK og Flugan Fjarðará.

Við vonum svo sannarlega að þessi góða veiði sé merki um batnandi hag sjóbleikjunnar hér í Firðinum og biðlum til veiðimanna að virða kvóta og sleppa allri bleikju sem er yfir 50 sm.

Ólafsfjarðará er opin til og með 20.september.


Til baka

Keyrt á vefkerfi veidileyfi.is © 2024.