„Það má alveg deila um hvort hún heiti Ólafsfjarðará eða Fjarðará, en það er ekki hægt að deila um að síðsumars hefur hún gefið vel af sér,“ sagði Steingrímur Sævarr Ólafsson, sem hefur stundað ána um langt skeið og gerði góða ferð í hana um miðjan mánuð ásamt félögum sínum.
„Við renndum þangað þrír í kulda og trekki og hóflega bjartsýnir. Það reyndist algjör óþarfi, því hún var í banastuði og veðrið átti eftir að leika við okkur!
Við áttum efra svæði fyrir hádegi og tveir þeir rétthentu, ég og Golli komum okkur fyrir á vinstri bakkanum í Hólshyl en sá örvhenti, Birkirr (já, 2 r) Björnsson kom sér fyrir á hægri bakkanum. Og til skiptis ginu bleikjurnar hver af annarri við Pheasant Tail, Héraeyra, Squirmy Wormy, Króknum og margvíslegum þurrflugum, svo okkur þótti næstum nóg um. Við vorum hættir að telja fjöldann þegar við ákváðum að nú væri svo sannarlega nóg komið úr þessum gjöfula veiðistað og héldum að Breiðu. Þar var fiskur við fisk og þeir voru ekki spéhræddir við veiðimennina og hver á fætur öðrum ákváðu þeir að smakka á flugunum og leyfa okkur að handleika sig áður en þeim var sleppt í djúpið aftur.
Og það sama átti við um Þjófavaðshyl (Þjóvaðshyl), Syðrihyl, Ingimarshyl og svo mætti áfram telja. Það gerist ekki oft að maður gangi frá veiðistöðum sem enn eru að gefa grimmt, en það átti svo sannarlega við um veiðistaðina í ánni að þessu sinni. Svo var afskaplega gaman að sjá nýja staði sem búið er að skapa í ánni og má þar t.d. nefna góða breiðu ofan við gömlu göngubrúnna en sú hélt tugi fiska og gaf vel. Þá var afskaplega ánægjulegt að sjá hversu vel haldin bleikjan var og meira að segja í stærri kantinum. Góð ferð í Ólafsfjarðará? Ójá – og jafnvel betri í Fjarðará!“
Mynd: Steingrímur Sævar með enn eina á í Hólshyl í Ólafsfjarðará.