Fréttir

28 sep. 2011

Veiðislóð – 4.tbl er komin út

Fjórða tölublað Veiðislóðar, tímarits um allrar handa sportveiði og tengd efni, er komið út. Blaðið hefur komið út mánaðarlega síðan í vor og er frítt tímarit sem aðeins er gefið út á Internetinu. Í blaðinu að þessu sinni kennir margra grasa sem fyrr og með þessu tölublaði kemur skotveiði í fyrsta sinn sterk inn í myndina. Stangaveiði er þó föst fyrir, enda er tímabili stangaveiðinnar ekki lokið enn, örfáar laxveiðiár ennþá opnar og sjóbirtingsveiðitíminn að fara í hönd af krafti.

Meðal athyglisverðs efnis í blaðinu er viðtal við Rick Rosenthal margverðlaunaðan kvimyndagerðarmann, m.a. með fleiri en ein Emmy verðlaun í farteskinu, og Deirdre Brennan forsprakka írska kvikmyndaframleiðandans Castletown Productions, en þau voru hér á landi í sumar vegna vinnslu stórmyndar um Atlantshafslaxinn, Lost at Sea, þar sem tekið er á lífsferli laxins frá því hann skríður úr hrogni og þar til hann gengur aftur í ána að vori/sumri. Sérstök áhersla er á sjávardvöl hans, sem lítið hefur verið vitað um, en þykir vera lykillinn að framtíð þessarar merku skepnu.
Margt annað mætti nefna, fluguþætti, veiðisögur, greinar um matargerð með villibráð, lífríki, veiðistaði og útivist í óbyggðum. Útgefandi er GHJ-útgáfa, en ritstjórn skipa Guðmundur Guðjónsson, Heimir Óskarsson og Jón Eyfjörð Friðriksson.

Hér má lesa blaðið

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.