Fréttir

07 sep. 2011

Afmælistúr í Hörgá

Fengum skeyti frá veiðimanni úr Hörgá:
"Góðan daginn.
Ég dreif tengdapabba (Jóhannes Sigurjónsson) með mér á 3ja svæði Hörgár í morgun en sá gamli fyltti 72. árin í gær. Veðurguðirnir voru ekkert að hlífa okkur og jusu á okkur góðum slatta af rigningu, kári blés að norðri og hitagráðustokkurinn fyllti einar fjórar gráður.

Bjartsýnin var því ekkert að fara með okkur þegar við lögðum af stað í býtið og einhverjir hefðu valið að kúra lengur undir sæng sinni. En eins og máltækið segir: Þeir fiska sem róa. Vaktin var þó róleg til að byrja með. Við náðum samt að slíta upp 4 bleikjur í Krossastaðakrúsunum auk þess sem við misstum sína hvora. Síðasti klukkutímanum var síðan eytt á Þelamerkurbreiðunni sem hefur verið frekar dauft yfir í sumar. En það var nú annað uppá teningnum í dag og haustbleikjan í tökustuði. Sá gamli náði fimm á land þar auk þess sem hann missti einar sjö, kannski eins gott annars hefði hann þurrkað bleikjustofninn út endanlega. Alls endaði morguninn í 9 bleikjum lönduðum og einum 10 misstum. Svo þegar upp var staðið var dagurinn hinn besti þrátt fyrir kulda, vosbúð og heilmikið af naglakuli. "ofangreind mynd var tekin fyrr í sumar af afmælisbarninu við veiði á 4.svæði."

Bestu kveðjur
Guðrún Una Jónsdóttir

 Fínar bleikjur úr Hörgá af svæði 3

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.