Fréttir

30 ágú. 2011

Stærri í Runukvísl

Blaðamaður hélt til veiða í Runukvísl og Hofsá í Vesturdal í Skagafirði 18. og 19. ágúst og væri synd að segja að bjartsýnin hafi ráðið för. Aðeins einn fiskur hafði þá verið bókaður af svæðinu á heimasíðu SVAK og sá hafði veiðst í Runufossi en þangað er um klukkustundar gangur - svæðið stóð hins vegar vel undir væntingum.

Kom á óvart

Er skemmst frá því að segja að Runukvísl kom mjög á óvart að þessu sinni og sömuleiðis Hofsá sem var orðin vel veiðanleg en venjulega er hún moruð og óveiðandi langt fram eftir hausti. Í jökulánni eru nokkrir mjög fallegir staðir sem alltaf geyma fisk.

Undanfarin þrjú sumur höfum við félagarnir veitt þarna á svipuðum tíma sumars, eftir miðjan ágúst og alltaf fengið góðan afla. Þ.e.a.s. mörgum fiskum hefur verið landað vítt og breitt um Runukvísl en aldrei hafa þeir verið stærri en u.þ.b. 1,5 pund.

Að þessu sinni voru að vísu ekki bókaðir ýkja margir fiskar eða aðeins 14 á tveimur dögum með hóflegri ástundun en það var stærðin sem kom verulega á óvart. Í Runukvísl fékkst m.a. 3,5 punda bleikja og í Hofsá sjálfri tvær mjög vænar eða 4 og 5 punda.

Þeir róast sem fiska

Sagt er að þeir fiski sem rói og það fékkst staðfest í Runukvísl fyrir réttri viku því áin hefur að því er virðist ekki verið sótt stíft í sumar og þar er til nóg af lausum leyfum. Gárungarnir hafa einnig snúið orðatiltækinu að framan á haus og þá er sagt að þeir róist sem fiski og það má til sanns vegar færa því á fáum stöðum er notalegra að una en í gljúfrunum við Runukvísl.

Í bæði Runukvísl og Hofsá beittum við félagarnir andstreymisveiði með tökuvara og um 9 feta taumi. Flugurnar sem gáfu best voru Krókurinn eftir Gylfa heitinn Kristjánsson og Hrafna eftir Valdemar Friðgeirsson, ekki ósvipaðar flugur, báðar svartar og rauðar og það virtist eiga upp á pallborðið hjá bleikjunni í Lýtingsstaðahreppi.

Veiðileyfi í Hofsá/Runukvísl fást HÉR.

Á myndinni er Ragnar Hólm með á að giska 3,5 punda hrygningarbleikju úr Runufossi sem var sleppt aftur að viðureign lokinni. Grein úr Vikudegi 25/08/11.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.