Fréttir

20 ágú. 2011

Frá Ketubjörgum til Klaustra

Nú verður sagt frá því þegar magisterinn var vélaður af þeim bræðrum prestinum og málafærslumanninum langleiðina fram að Klaustrum í Vesturdal. Ferðin var skipulögð af prestinum, undir því yfirskyni að rannsaka fiskigengd í Hofsá og Runukvísl.


Lagt var á stað úr Varmahlíð í rauðabítið sl. sunnudagsmorgunn. Farið var á vagni magistersins, og haldið fram fjörð. Örskot framan við Mælifell leist lögfræðingnum ekki lengur á veginn og sagði: „Við skulum bara ganga þetta héðan, þetta er örstutt!“ Ekki samsinnti presturinn því, enda orðinn nokkuð við aldur og mæðinn. „Við skulum aka lengra og fara harðara, í Drottins nafni“, tónaði prestur og hlýddi magisterinn því. Óku þeir nú sem leið liggur fram í Vesturdal, og fóru hart. Við Gilji hætti málaflutningsmanninum alveg að lítast á blikuna, en presturinn hvatti magisterinn óspart til að auka enn ferðina, sem hann og gerði. Stöðvaðist vagn magistersins ekki fyrr en við Lambavað á Runukvísl, og mátti heita stórfurðulegt að þangað kæmist vagninn óbrotinn eftir þá fleygiferð. Presturinn vill að farið sé óvarlega í slarkferðum, enda er honum sama um hvaða afleiðingar það getur haft. Eftir því sem presturinn eldist verður hann nefnilega sífellt ónæmari fyrir umhverfi sínu, og skeytingarlaus um menn og verðmæti. Múrarinn grét alla leið frá Þorljótsstöðum og fram í Runu.

Þegar vagninn hafði verið stöðvaður kom í ljós til hvers magisterinn hafði í raun og veru verið hafður með í ferðalag þetta. Honum var sum sé uppálagt að bera trúss þeirra bræðra. Hlóðu þeir nú á magisterinn klyfjum sem hæglega hefðu sligað meðalmann, og hefur malsekkur magistersins sennilega vegið hátt í fimmhundruð pund þegar hann var fullur. Mest var fyrirferðin í nesti þeirra bæðra. Þar voru smurðir brauðhleifar með fiski og kjöti, auk mikilla drykkjarfanga. Presturinn hafði með sér kynstrin öll af suðrænum aldinum, sem hann hefir vanist á þar ytra.

Var svo ferðinni haldið áfram fótgangandi upp með Runukvísl. „Allir þessir hyljir eru fullir af fiski“ fullyrtu þeir bræður á leiðinni uppettir. Ekki tók magisterinn undir það. Þegar leiðangurinn var kominn langleiðina upp að Klaustrum sagði presturinn að þetta væri orðið gott, hann orkaði ekki meir. Byrjaði þá veiðiskapurinn, eftir að þeir bræður höfðu étið nokkuð af nesti sínu. „Hér er allt vaðandi í fiski“ sögðu þeir, en árangurinn lét á sér standa. Að vísu setti múrarinn í fisk, en presturinn mælti svo fyrir að sá skyldi lifa. Presturinn er nefnilega vinur lífsins, á sinn hátt. Síðan óðu þeir bræður niður alla á, án þess að verða varir. Á meðan skyggndi magisterinn fé í hlíðum og glöggvaði sig á jarðsögu svæðisins og virkjanamöguleikum. Eina haldreipi þeirra bræðra undir lokin var að fiskurinn lægi við ármótin. Það brást, eins og annað.

Þeir komu því heim með öngulinn í rassinum; bugaðir menn. Magisterinn kom hins vegar ánægður heim. Honum er alltaf svolítil fró í því að vita, að til eru skrýtnari menn en hann sjálfur.

Mynd: Presturinn setur saman veiðistöng sína við Runufoss. Athugið að hér hefur hann valið að setja stöngina saman á þann hátt, að stangarendinn er fast við skeptið. Þetta ku vera í móð hjá þeim í ytra. Múrarinn situr hjá, reiður. Presturinn er á dönskum skóm, sem hann keypti í kaupfélaginu. 

------------------------------------------------------------------------------------

Þessa stílfærðu frásögn af veiðiferð í Hofsá er að finna á bloggsíðu Bindindisfélags Blöndhlíðinga.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.