Fréttir

09 jún. 2011

Ágæt veiði í Litlá.

Ágæt veiði hefur verið í Litlá undanfarið þrátt fyrir frekar kalt veður og ekki bestu skilyrði. Fiskur vel haldin og nokkuð góð stærð á fiskinum. Stærsti fiskurinn í vor sem undirritaður hefur heyrt af er ca 80 sm urriði sem Sveinn Þór hnýtingarmeistari landaði. En það eru alltaf stærstu fiskarnir sem sleppa eins og eftirfarandi frásögn ber með sér.


Af Staurhylströllinu. 


Kuldaskíturinn beit í fingurna þegar við settum saman fyrir utan sumarhúsin við Keldunes. Ég og veiðifélagi minn Pálmi Gunnarsson létum það ekki á okkur fá enda vanir ýmsum veðrum við Litluá í Kelduhverfi. Þetta var stutt veiðiferð hjá okkur, áttum kvöldið og morguninn eftir. Við veiddum vel þrátt fyrir kalsann og fiskurinn var vel haldinn og sprækur. Daginn eftir ákváðum við að kíkja niður á neðsta svæði árinnar. Á leiðinni sagði Pálmi mér sögur af stórfiskaveiði í ósnum þar sem þær mætast Litlaá og Jökulsá.

 Við svokallaðan Staurstreng þar sem ekki er komist lengra á bíl var ákveðið að kasta áður en vaðið yrði yfir ána til að komast í ósinn og vatnaskilin. Strengurinn leit vel út þar sem hann féll ofan af malareyri í djúpri rennu með sandkanti öðru megi. Þú verður kominn með fisk á eftir nokkur köst, Pálmi hvatti mig til dáða. Ég veiddi strenginn samviskusamlega og hætti ekki fyrr en komið var niðrá rólegt vatn án þess að fá viðbragð. Pálmi fór næstu umferð og allt við það sama. Pálmi sagðist ekki trúa því að strengurinn væri fisklaus, líklega þyrfti að fara aðeins niður með fluguna.

Þar með upphófst atburðarás sem gleymist seint. Pálmi sem veiðir yfirleitt ofarlega í vatninu kastaði langt kast beint uppí straum. Ég horfði á fluguna hanga um stund á sandeyri þangað til straumurinn reif hana af stað niður með sandkantinum og á bólakaf í strauminn. Þetta ætti að duga það er ef þeir .. Pálmi náði ekki að klára setninguna því flugulínan kom hvítfryssandi uppúr strengnum. Það er greinilegt að það er eitthvað stórt sem hefur tekið fluguna. Fiskurinn leggur af stað niður strenginn og síðan er stefnan tekinn þvert yfir ósinn. Þetta er eitthvað stórt segir Pálmi – ég er með þunga bremsu á hjólinu og hann tekur línuna út eins og það sé enginn fyrirstaða. Pálmi er með tvíhendu og hjól með fullt af undirlínu. Það eru einungis nokkrir metrar eftir af línunni þegar fiskurinn strandar uppá sandeyri. Þar lemur hann frá sér þannig að freyðir undan honum. Við sjáum að fiskurinn er siflurgljáandi og það fer ekki á milli mála að hann er stór. Ég verð trúlega að vaða yfir segir Pálmi, það er ef við ætlum að kíkja eitthvað frekar á þennan drjóla, en ég ætla samt að freista þess að ná honum með lagni ofan af sandinum. Næstu mínúturnar togast þeir á popparinn og Staurhylströllið og á endanum hefur Pálmi betur og fiskurinn er kominn í straum á ný. En þar með með lýkur þessari viðureign því fiskurinn hefur vafið línunni um sig miðjann og liggur nú þvert á straum. Pálmi ákveður að vaða yfir en á sama augnabliki lemur fiskurinn vatnið þannig að boðarnir ganga í allar áttir og slítur sig af. Ég skal alveg viðurkenna að ég bölvaði hátt og í hljóði því gaman hefði verið að fá þennan fisk í nærmynd en Pálmi þakkar fyrir sig hæstánægður.


 

Tröllið með alla línu úti...

 

ÞB.


Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.