Fréttir

25 apr. 2011

Nýtingaráætlun fyrir Pollinn?

Pollurinn á Akureyri er samkvæmt mati hluti af Eyjafjarðará. Þetta þýðir að veiðifélag árinnar þarf að gera nýtingaráætlun um Pollinn og jafnvel takmarka veiðiálag. Ekkert eftirlit er með veiðum þar og engin skráning á afla.


Bleikjustofnar við Eyjafjarðará og innanverðan Eyjafjörð hafa verið áhyggjuefni sérfræðinga undanfarin ár. Árni Ísaksson, forstöðumaður lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu segir ýmsar ástæður geta legið að baki minnkandi bleikjustofnum, til að mynda veðurfar og ágangur minka.


„Eins ef að veiðiálagið er stjórnlaust og ekki hægt að hafa hemil á því þá getur það gengið nærri stofnunum, sérstaklega nærri þéttbýli þar sem eru margar stangir í gangi,“ segir Árni.


Í matsgerð sem var sett saman árið 2000 kom fram að ósar Eyjafjarðarár ná út undir Hallandanes. Þetta þýðir að þegar fiskað er í Pollinum við Akureyri, hvort sem er í bát eða við land, telst það samkvæmt íslenskum lögum yfirráðasvæði veiðifélags Eyjafjarðarár.


Sunnan Leiruvegar, í Eyjafjarðará, eru veiðileyfi seld og veiðin skráð. Norðan vegarins, í Pollinum, er engin veiði skráð. Árni segir nauðsynlegt að vita hvað veiðin á þessu svæði er mikil. „Maður hefur heyrt um það að þarna sé verið að fara út á bátum. Það þarf að fylgjast vel með því og skrá aflann sem kemur úr slíkum bátum. Það er engin spurnign um að veiðifélag Eyjafjarðarár hefur áhrif á þetta og þarf því að gera nýtingaráætlun samkvæmt lögum um það svæði líka,“ segir hann.


Það gæti þó reynst erfitt að banna beinlínis veiðar í Pollinum. „Það verður sjálfsagt ekki vel séð af því fólki sem hefur stundað veiðar hérna. Það ríkir hérna ákveðin menning og hefð fyrir því að börn og unglingar og fólk af öllum aldri veiði fisk úr Pollinum,“ segir Erlendur Steinar Friðriksson, stangveiðimaður.


Veiðifélag Eyjafjarðarár íhugar að grípa til aðgerða. Hermann Brynjarsson, stjórnarmaður í Veiðifélagi Eyjafjarðarár segir að falast hafi verið eftir fundi með þeim sem málið varðar. „Við viljum koma einhverju svona skipulagi á veiðarnar þannig að það verði einhver takmörkun þar því við viljum ná bleikjustofninum upp. Það er okkar megin markmið,“ segir hann.

 

Tekið af ruv.is
Smellið hér til að horfa á fréttina

frettir@ruv.is

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.