Fréttir

25 apr. 2011

Fjölbreytt páskaveiði í Litluá 2011

Venju samkvæmt fór undirritaður ásamt félögum í vorveiðina í Litluá í Kelduhverfi. Veitt var í þrjá daga frá sumardeginum fyrsta til páskadags og áin tekin frá s.k. Röri efst á svæði 6 og niður í Ós á svæði 1. Fékkst fiskur á báðum þessum stöðum og 60 til viðbótar þar á milli.

Reyndar legg ég til að Rörið sem er útfallið á Skjálftavatni verði nefnt Rassgatið og veiðistaðurinn í beygjunni þar fyrir neðan Niðurgangur. Nei segi bara svona! Annars dreifðist veiðin nokkuð jafnt á milli svæða en var þó sýnu mest á svæðum 2 og 3. Uppistaðan sjóbirtingur á niðurleið. Helstu veiðistaðir voru fyrrnefndur Niðurgangur (svæði 6), Réttarhylur á svæði 5 (gengur líka undir nafninu Stöðvarhylur), Veiturnar og Kílarnir á svæði 4, Mosakíll og Rósahylur á svæði 3 og Tangarhorn og Ytri Botnar á svæði 2. Helstu straumflugur voru kýldur Hommi nr. 8 (heimahnýtt afbrigði), svartur Nobbler (Dávaldurinn) nr. 6 og Grey Ghost (Grámóri) nr 2 allt á sökklínu. Bleikjurnar tóku kýldan Páfugl (Peacock) og Bjarna rauða nr 12. Reyndar tók bleikjan líka Grámóra. Það eftirminnilega úr þessum túr var hins vegar að það veiddust sex afbrigði eða tegundir laxfiska þ.e. staðbundinn og sjógengin afbrigði af bleikju og urriða, niðurgöngulax og síðast en ekki síst regnbogasilungur sem reyndist stærsti fiskurinn í túrnum, 65 sm og um 4 kg! Hann var hiklaust drepinn.  Þetta var kviðmikil hrygna án hrogna en hvaðan hún er ættuð er ekki gott að segja. Jóhann á Víkingavatni sagði mér að fyrir mörgum árum hafi verið stundað regnbogaeldi hjá Árlax við Litluá (við Réttarhylinn). Hann vissi af slysi þar sem mikið magn af regnbogaseiðum hefði sloppið í ána. Einnig var regnbogasilungur ræktaður fyrir mörgum árum síðan í Silfurstjörnunni í Öxarfirði og löngu seinna í útfallinu frá stöðinni, mátti sjá stóra regnbogasilunga ekki ósvipuðum þessum sem veiddist í Litluá.  
 

Í Kílunum á svæði 4
 
Veiðimaðurinn með regnbogann sem veiddist á Tangarhorni á Grámóra.
 
Við Ytri Botna á svæði 2. Nei hann var ekki húkkaður í sporðinn!
 
Algeng stærð á urriðanum var 50-55 sm, en sá stærsti var um 60 sm. Holdafar var mjög breytilegt og talsvert um horaða fiska sem er ekki algengt að sjá í Litluá. Ekki einu sinni á vorin!
ÞS

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.