Fréttir

25 feb. 2011

Af norskri skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á lax.

Norska Náttúruvísindastofnunin (NINA) sendi í nóvember frá sér skýrslu um afkomu laxaseiða í ferskvatni við hækkandi hitastig í náttúrunni. Niðurstöðurnar sýna að áhrifin eru margvísleg og alls ekki öll neikvæð.
Við hærra hitastig og aukið vetrarvatnsrennsli færist hrygning lengra inn á veturinn og klakið fyrr á vorin. Seiðin hafa meira pláss í ánnum og þéttleiki minnkar við það. Hins vegar vaxa þau hraðar, eru stærri og við það eykst samkeppni. Þau dvelja þó skemur í ánnum, sem vegur á móti. Fæðuframboð eykst einnig. Við hærra hitastig eykst orkuþörf fiska yfir veturinn, sem er neikvætt og meiri orka fer í hrygningu. Rannsóknin tekur hins vegar ekki til áhrifa loftslagshlýnunnar á skilyrði í sjónum. Þar telja menn þó líklegra að áhrifin verði neikvæð. Vorflóð verða fyrr í ánnum og seiðin ganga því fyrr til sjávar. Þar er alls óvíst að skilyrðin þar séu þeim hagstæðari. Sníkjudýr og bakteríur þrífast betur í hlýrri sjó og eru talin geta haft neikvæð áhrif, fæðuframboð og samkeppni breytist og einnig er óljóst hvernig áhrif mengunar frá manninum breytast við hærra hitastig í sjónum. Skýrsluhöfundar telja líklegt að laxastofnum eigi eftir að hraka í syðri hluta landsins en hugsanlega dafna betur nyrst. Lokaorð skýrslunnar eru sérlega athyglisverð: „Sé samhengið milli skilyrða í sjó og kynþroska skoðað, mátti víða sjá lækkandi kynþroskaaldur í upphafi loftslagsbreytinganna, milli 1980 og 2000. Þetta hélst í hendur við minnkandi vöxt í sjó. En samfara enn minnkandi vexti í sjó eftir árþúsundaskiptin, virðist þetta hafa breyst. Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að kynþroskaaldurinn hækki. Líklega má kenna lélegum fæðuskilyrðum um að smálaxinn hefur ekki náð að byggja upp næga orku til að hrygna eftir eins árs dvöl í sjó og margir verða því að bíða eitt ár enn áður en þeir ná kynþroska. Fyrir 2000 jukust afföll stöðugt í hafi. Þessi þróun mun líkast til halda áfram ef næringsskilyrðin batna ekki.“ Það er ekki óskynsamlegt að velta fyrir sér hvort svipað ferli sé í gangi hér við land, þó e.t.v. sé það einhverjum árum á eftir miðað við Noreg. Stórlaxi fækkaði hér mjög, jafnt og þétt yfir langt tímabil. Á síðasta ári varð hins vegar mikil uppsveifla í stórlaxagengd. Sé eitthvað til í þessu hjá mér, má búast við sterkum stórlaxagöngum á næstu árum en mun minna af smálaxi. Nú eru þetta auðvitað bara þankar leikmanns og fróðlegt væri að heyra frá íslenskum fiskifræðingum hver líkleg áhrif hérlendis eru, til lengri tíma litið.

Eigum við einhverjar sambærilegar rannsóknir að styðjast við?
Þetta er afskaplega takmörkuð skoðun á skýrslunni en hana má lesa í heild sinni hér: http://www.nina.no/archive/nina/PppBasePdf/rapport/2010/646.pdf

Egill Ingibergsson

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.