Fréttir

02 des. 2010

Á allra færi

Út er komin bókin "Á allra færi", sem er handhæg og auðlesin bók um stangveiði. Hún er fyrir alla fjölskylduna og er ætlað að efla áhuga hennar á veiði og útiveru.  Bókin er samvinnuverkefni hjónanna Auðar I. Ottesen og Páls Jökuls Péturssonar og Gunnars Bender. Útgefandi er Sumarhúsið og garðurinn.

Orð ráðherra í inngangi eru lýsandi fyrir bókina en hann segir þar: „Stangaveiðin er uppbyggileg fyrir alla, ekki síst ungt fólk. Með þessa bók í höndum er auðvelt fyrir alla foreldra að kynna börnum sínum fyrstu skrefin í hinni heilbrigðu íþrótt stangaveiðinnar. Íþrótt stangaveiðinnar þjálfar upp margvíslega eiginleika. Hún ýtir undir einbeitni, kennir mönnum varkárni – og að kapp er best með forsjá. Ungur maður eða kona, sem getur séð um sig í tjaldi á heiðum uppi við fiskisæl vötn, verður sjálfbjarga og árvökulli og mun því líka kunna fótum sínum betri forráð í hringiðu lífsins. Sá sem stundar stangaveiði, jafnvel þótt í litlum mæli sé, lærir smám saman á birtu, sólargang, strauma, úrkomu, veður og áttir. Borgarbarnið lærir að lesa í náttúruna. Það skilur hvar fiskur liggur undir steini“.

Bókin hefur verið í smíðum í eitt ár og fjallar um allt sem snertir stangveiði í ám og vötnum. Í bókinni er athyglisverð syrpa þar sem börn segja á einlægan hátt frá þegar þau veitti maríulax sinn en bókin höfðar ekki síður til barna og unglinga en fullorðinna. Fjallað er um ár og fjölskylduvæn veiðivötn, helstu þætti stangveiði, veiðiaðferðir og klæðnað. Í bókinni er einnig fróðleikur um fisktegundir og nokkrar góðar uppskriftir fljóta með. Við vötn og ár er líflegt fuglalíf sem fjallað er um, sem og ætið í ám og vötnum.

Aðalhöfundur bókarinnar er Auður I. Ottesen smiður og garðyrkjufræðingur, en ásamt henni skrifa í bókina Guðni Guðbergsson fiskifræðingur, Gylfi Pálsson kennari, Ragnar Hólm Ragnarsson félagsfræðingur og heimspekingur, Örn Óskarsson líffræðingur og Hrund Winckler innanhússarkitekt. Páll Jökull Pétursson tók flestar myndir í bókinni. Bókin er prentuð hjá Odda.

Frekari upplýsingar veitir Páll Jökull Pétursson sími 578 4800, 824 0059. www.rit.is


Ritstjórar bókarinnar „Á allra færi“ þau Gunnar Bender, Auður I. Ottesen og Páll Jökull Pétursson afhentu Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra fyrsta eintakið af nýútkominni veiðibókinni, en hann skrifar inngang að bókinni. Össur var hinn ánægðasti með bókina og hrósaði henni í bak og fyrir enda hefur hann einna manna bestu þekkingu á stangveiði.  

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.