Fréttir

20 nóv. 2010

Veiðikortið 2011

Nú styttist í að Veiðikortið 2011 verði tilbúið, en gert er ráð fyrir því að það verði komið í sölu um næstu mánaðarmót þannig að það verður klárlega í mörgum jólapökkum um næstu jól.
Veiðikortið hefur náð samkomulagi um nokkur ný veiðisvæði og má þar nefna:

1.  Þingvallavatn í landi Ölfusvatn, en um er að ræða skika á milli Ölfusvatnsár og Villingavatnsár, með aðgengi að skemmtilegu tjaldstæði og snyrtiaðstöðu.  Svæðið er sunnarlega í vatninu og stutt frá Úlfljótsvatni.  Einnig getur yngsta kynslóðin fengið að veiða í Ölfusvatnsánni á milli þjóðvegar og vatnsins.  Þetta svæði er skemmtileg viðbót þar sem umhverfið er ólíkt þjóðgarðsvæði enda um malarströnd að ræða.

2.  Hraunsfjörður í landi Berserkseyra, fyrir neðan bryggjuna sem staðsett er fyrir neðan aðalsvæðið.  Veiðimenn hafa oft horft hýru auga á þetta svæði þegar þeir fara í Hraunfjörðinn, en um er að ræða veiði í sjó þannig.  Þarna má finna sjóbirting (við neðri brúna), þorsk og ufsa auk þess sem sjóbleikjan ætti að vera líkleg til að taka.  Um er að ræða hálfgert tilraunasvæði, þannig að við óskum gjarnan eftir upplýsingum frá veiðimönnum sem munu prófa þetta svæði í sumar. 

3.  Í Svínadal hefur verið samningur um Þórisstaðavatn, en við höfum náð samkomulagi um að Veiðikortshafa geta einnig veitt í Geitabergsvatni sem og Eyrarvatni að norðan verðu.  Um er að ræða kærkomna viðbót þar sem svæðið er stutt frá höfuðborginni. 

Við hvetjum veiðimenn til að tryggja sér Veiðikortið 2011 og einnig má benda á að um er að ræða skemmtilega jólagjöf sem hefur langan líftíma.  Byrjað er að selja Veiðikortið 2011 á vefnum veidikortid.is, en er væntanlegt á sölustaði um land allt um næstu mánaðarmót.

SVAK verður einnig með veiðikortið til sölu í vetur. - hafa má samband við Sigurpál.

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á nýja Þingvallasvæðinu í landi Ölfusvatns sem teknar voru í haust.

 

Einnig viljum við vekja athygli manna á að hægt er að skrá sig á póstlista Veiðikortsins þar sem við munum senda mönnum annað slagið fréttabréf, sértilboð fyrir Veiðikortshafa sem og aðra tilkynningar.

Með veiðikveðju,

Veiðikortið

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.