Fréttir

28 sep. 2010

Þetta var hrikalegt!

Ég setti saman mjúku 9” Shimano stöngina mína, #6 en mjúk eins og þristur. Ég fékk góðfúslegt leyfi til að kasta á ánna frá kl.6, vitandi það yrði orðið dimmt fyrir 8.
Eiginlega búið að loka ánni en af því þetta er silungsveiðiá, þá var í lagi að ég tæki nokkur köst. Ég setti í nokkra urriðastubba, svona um pundið og náði tveimur þeirra. Sá tvo góða fiska eða öllu heldur rastirnar eftir þá, þegar ég hrakti þá undan mér ... eftir að hafa kastað yfir þá. Ekkert við því að gera í svona lítilli á. Ég var með lítinn Rektor undir og strippaði hann varlega yfir vænlega staði, þekki ánna nokkuð vel og ætlaði bara að veiða 4-5 staði.
Svo kom ég að stað þar sem ég sá einu sinni 8-10 punda urriða, sem ekki leit við flugunni hjá mér og lét sig sökkva ofan í hylinn. Mér hefur oft orðið hugsað til hans og ímyndað mér hvernig ég myndi nálgast hann án þess hann yrði mín var. Og núna gerði ég einmitt það. Ég óð út í ánna, vel ofan við hylinn og lét fluguna slá fyrir eins og ég hafði ímyndað mér að væri best. BAMM það negldi hana fiskur. Ekki með neinum rosa látum en ég fann hann va.r vænn. Fannst hann vera af gerðinnu um 10 pund. Slíkir fiskar eru meira í þyngdinni en látunum og þannig lét hann.
Svo tók hann strikið niður þennan litla hyl og stökk, svona hálfstökk, með sporðinn ofan í vatninu ... hjartað í mér feilpústaði! Hann var hrikalegur, þetta var lang stærsti fiskur sem ég hef sett í og hef þó fengið marga væna. Ég þreytti hann í 20-25 mínútur og tók frekar varlega á honum með litlu stönginni minni. Það var tekið að draga af honum og ég sá hann nokkuð vel í hálfrökkrinu. Sporðurinn á honum var á stærð við fægiskúffu. Ekkert rosalega feitur, greinilega hængur og ég velti fyrir mér hvort þetta væri stærsta gerð af laxi eða yfirstærð af urriða (lax er mjög sjaldgæfur þarna, þó hann komist). Nú ... ég var að lempa hann til mín í rólegheitum, hann var hættur að taka rokur en hélt svolítið á móti, ég bakkaði upp á land og var að reyna að leiða hann inn á kyrrt vatn þar sem grynnkaði rólega og ætlaði að stranda honum, án þess að velta honum. Sá fyrir mér að ég gæti farið rólega að honum, tekið um styrtluna á honum í vatninu, mælt lengdina á honum, tekið fluguna úr honum og sleppt honum í straumröndinnni. Þar sem ég held við hann, svona 2 metra frá mér, PLING, stöngin brotnaði í þrennt :(
Hann tók ekki kipp eða neitt, þetta gerðist bara undan því að ég hélt í hann. Hann var svo þreyttur að það tók hann nokkrar sekúndur að átta sig á að ekki var lengur haldið í hann. Ég greip í tauminn og ætlaði að halda við hann en þá slitnaði taumurinn (sem var 10p) eins og tvinni ... og þá er sagan öll ... ef frá er talin geðshræringin sem ég var í og leið ekki hjá fyrr en eftir klukkutíma :)
Ég veit ekki hversu stór hann var en ég sporðtók einu sinni 19,5p lax fyrir vin minn og þessi var sko ekki minni. Það er djöfullegt að fá sennilega aldrei að vita það en ef þú veiðir risafisk þarna með lítinn Rektor í kjaftvikinu, þá ber þér siðferðileg skylda til að láta mig vita stærðina á honum.

Veiðimaður - 26.09.2010

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.