Fréttir

24 ágú. 2009

Laxá í Aðaldal: Er drottningin kannski vöknuð af dvalanum?

Veiðitala úr Laxá í Aðaldal þann 19.ágúst sl , eða síðast liðið miðvikudagskvöld var 717 laxar þannig að talan er ugglaust nálægt 800 núna. Þetta er annað en menn áttu að venjast frá Laxá fyrr á árum, en það er eitt og annað sem þarf að taka með í reikninginn.
Sem sagt, talan síðan á miðvikudagskvöldið var 717 laxar og að sögn Orra Vigfússonar formanns Laxárfélagsins þá er það heldur betri tala en á sama tíma og í fyrra. Þannig séð er möguleiki á því að áin fari yfir tölu sína frá 2008, en þá veiddust 1.226 laxar í ánni. Áin fór fyrir nokkrum árum í djúpa lægð, en hefur verið að koma hægt og bítandi til baka. Síðustu sumur hafa verið hvert öðru betra en samt er batinn hægur.


Hér er skóflublaðið og afturbúkurinn af 106 cm risanum sem veiddist á Dýjaveitum á svæðum Laxárfélagsins þegar VoV var á ferðinni fyrir skemmstu.

En hversu hægur? Kannski er hann ekki svo hægur þrátt fyrir allt, því nú til dags er aðeins veitt á flugu í Laxá og þeir dagar því liðnir að menn gætu náð löxunum með maðki og spún sem þeir voru ekki að ná til í óhagstæðu vindáttunum. Laxá er erfið, stórt og mikið fljót og geti menn aðeins notast við fluguna eru ýmis vopn horfin úr vopnabúrinu. Maðkveiði með háum kvótum neðan við Æðarfossa er liðin tíð og margir stórveiðistaðir þar beinlínis ómögulegir til fluguveiða. Allt hefur þetta verið gert í verndarskyni, ekki aðeins fyrir stórlaxinn í ánni, heldur laxastofn hennar í heild.


Bubbi hefur verið drjúgur að setja í þá stóru á Nesveiðunum og hér er hann með þann nýjasta í safnið, 94 cm hæng af Höfðabreiðu. Myndina tók Steingrímur í Straumnesi.

Það má því samkvæmt þessu beinlínis fullyrða að aldrei aftur muni menn sjá aflatölur úr Laxá sem sáust fyrrum. Það er beinlínis útilokað að ná svoleiðis afla úr ánni nema með blönduðu agni. Menn geta bent á að flugan sé svo og svo skætt agn og að t.d. metveiðin hrikalega í Þverá/Kjarrá 2005 hafi verið tekin eingöngu með flugu. En það er ósambærilegt, því Þverá/Kjarrá er viðráðanleg veiðiá. Þar er ekkert mál að sippa sér yfir ána ef vindur er í fangið. Og áin öll er meira og minna hönnuð fyrir fluguveiði.


Marc Adrien Marcellier að landa fallegum smálaxi á Eskeyjarflúð með aðstoð Ármanns leiðsögumanns fyrir skemmstu. Mynd gg.

VoV eyddi tveimur dögum við Laxá í Aðaldal, á svæðum Laxárfélagsins, á dögunum og þó að við félagarnir hefðum verið íheppnir með skiptingar og eiginlega satt að segja fengið einkum þau svæði sem höfðu verið lökust, þá blandaðist engum hugur að lax er þarna víða þó að veiðin væri frekar í rólegri kantinum. Það virðist vera smálaxaskortur í ánni í sumar og því er meðalþyngd á veiddum laxi með allra hæsta móti.


Jón Eyfjörð með veltiköst á Brúarflúð. Mynd gg.

Heila daginn sem við dvöldum við ána veiddust t.d. á Laxárfélagssvæðunum 16, 19 og ca 24 punda laxar. Laxar sem að menns ettu í og töpuðu voru yfirleitt í það minnsta tveggja ára laxar og einn risi sleit sig lausan í Brúarhyl eftir langa og stranga viðureign. Laxá heldur því sess sínum sem stórlaxadrottning. Hátt í tugur 20 punda-plús laxa hefur veiðst á Nessvæðunum og mun fleiri en það á Laxárfélagssvæðunum, enda er hlutfallslega mun meiri veiði á þeim svæðum, þegar talan í ánni var um 700 voru 500 af þeim af Laxárfélagssvæðunum og um 200 af Nesveiðunum. Í allri ánni er auk þess mikið af laxi sem er frá 12 pundum og upp undir 20 pund. Hefðu verið hressilegar smálaxagöngur hefðum við kannski séð lang besta töluna úr Laxá í áraraðir.

Tekið af Vötn og Veiði

BHATil baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.