Fréttir

08 ágú. 2009

Sjóbleikjunni vegnar vel í Vatnsdalsá

Það fer ýmsum sögum af ástandi sjóbleikjustofna víðs vegar um landið og megin skoðunin er sú að þeim hafi hrakað. Veiðitölur víðast hvar styðja það, en þó eru undantekningar. Við vorum t.d. með fína frétt frá Norðufjarðará nýverið og nú síðast var okkur að berast mögnuð lýsing á sjóbleikju í Vatnsdalsá í Húnaþingi.
Einar Allsstaðar Falur var þar fyrir skemmstu og veiddi nokkrar vaktir. Lenti hann í laxaævintýrum eins og að setja í átta hits-laxa á Skriðuvaði og missa sex þeirra er hann óð leiðina löngu til lands. En hann landaði tveimur, þar af einni 83 cm grálúsugri hrygnu. Á sama tíma voru að veiðast þó nokkrar hrygnur af sama meiði víða í ánni, allar lúsugar. En Einar var mest spenntur fyrir að segja okkur frá sjóbleikjunni?

“Pétur og leiðsögumennirnir vilja meina að það sé meira af sjóbleikju á laxasvæðunum heldur en síðustu árin og að hún sé stærri. Það er nokkuð mikið sagt því sjóbleikja hefur verið mjög drjúgur meðafli á laxasvæðum árinnar síðustu árin. En sem dæmi þá átti ég vakt á miðsvæðinu fyrir ofan Flóð. Rúnar Marvinsson kokkur hafði verið á svæðinu á undan mér og lýsti fyrir mér veiðistað þar sem hann hafði fundið torfur af bleikju og veitt vel. Það kom heim og saman, á einum stað var áin frekar lygn og einhvers konar síki gekk inn í hana. Bæði úti í ánni og inni í síkismunanum voru stórir svartir flekkir af bleikju, svona líkt og maður sér á myndum frá Grænlandi. Það skipti engum togum að það var fiskur á um leið og ég kastaði. Það var hvasst og þær uggðu ekki að sér. Ég var með appelsínugula Kröflu og það var hver takan af annarri. Ég taldi það, þetta voru 17 köst með Kröflunni og 13 bleikjur á land, fiskar frá 1,5 og upp í 3 pund. Ég sleppti held ég þremur sem voru um pundið. Svo fór ég í aðra hylji og fékk fleiri bleikjur og tvo 4 punda sjóbirtinga að auki. Ég hirti alls tíu bleikjur en sleppti restinni. Þetta var hrikalegt fjör,” sagði Einar Falur.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.