Fréttir

03 ágú. 2009

Ólafsfjarðará

Jæja það var heldur betur stuð hjá okkur í gær. Reyndar var mjög rólegt hjá okkur til að byrja með en við urðum þó varir við fisk á flestum neðstu stöðunum en fiskurinn var ansi smár. Það var svo 12:30 sem við hittum á það en það var á veiðistað 6. þá lönduðum við sex í beit og fórum ansi sáttir í pásuna. Þetta voru fínir fiskar, legnir og nýgengnir í bland. Okkur fannst þó einkennandi í gær að stærri fiskurinn var leginn en þeir minni voru alveg silfraðir.
 

Við töluðum við þá sem voru á efra svæðinu fyrir hádegi og þeir lentu í góðri veiði, lönduðu eitthvað yfir 10 fiskum og nánast allt nýgengið. Við vorum því ansi spenntir fyrir því að byrja seinni vaktina en þó svona hæfilega bjartsýnir því reynslan hefur nú kennt manni að það er erfitt að veiða fiska sem eru komnir í pokan hjá öðrum. Seinni vaktin byrjaði með því að við lönduðum fallegum fiski á efsta stað og svo þremur í viðbót á staðnum fyrir neðan gömlu brú, það var sem sagt komið bingó! Veislan hélt svo bara áfram nánast alla leið niður eftir en við náðum þó ekki að klára alveg niðurúr enda nóg að gera á flestum stöðum. Við lönduðum um 20 fiskum yfir daginn en af því voru 6 puttar og 3 sem kannski rétt náði pundinu. Restin var svo mjög fallegur fiskur frá 1,5 p og upp í á að giska rúm 2,5 p. Við misstum alls 11 fiska sem verður að teljast frekar mikið en opinbera afsökunin er sú að annar veiðimaðurinn var ný kominn úr gifsi á vinstri og því hálf handlama og auk þess með nýja stöng. Hið sanna er auðvita að þetta var ekkert annað en klaufaskapur ;) Fiskarnir veiddust allir á kúluhausa og lang flestir á flugu sem kallast Gula Hættan sem er lang fengsælasta fluga veiðifélagsins Skógarefils en veiðimennirnir eru einmitt meðlimir í því stórbrotna félagi. Flugan er eftirlíking af vorflugupúpu en fiskarnir voru einmitt úttroðnir af henni. Blóðormurinn gaf okkur þó nokkra líka.

 

 Óðinn Ásgeirsson

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.