Fréttir

30 júl. 2009

Bubbi o/co eru upp fyrir haus í stórlöxum

Þótt talsvert sé af smálaxi neðan við Æðarfossa í Laxá í Aðaldal þá bólar lítið á honum ofar í ánni og á Nesveiðunum eru menn að sjá ævintýralega meðalþyngd. Bubbi Morthens og fylgdarlið er þar núna að safna efni í sjónvarpsmynd, DVD-disk og bók, hvorki meira né minna.

Bubbi með glæsilega tveggja ára hrygnu. Mynd Einar Falur.
„Þetta er lyginni líkast. Stórkostlegt. Við erum búin að filma löndun á mörgum stórlöxum, m.a. tveimur tuttugu punda. Það er fiskur í hverjum stað og sumir þessara stórlaxa eru grálúsugir. Ég missti einn 20 plús í Grundarhyljum í gærkvöldi og Bjarni Júlíusson er hérna og hann landaði sínum stærsta laxi, 100 cmstórkostlegum hæng. Til að kóróna það, þá var hún Lilla Rudd, 84 ára gömul, sem hefur veitt hér í mörg ár, að setja í 20 punda lax sem hún landaði á Kirkjuhólmabroti og við náðum öllu á filmu. Meðalþunginn er stórkostlegur, næstum 17 pund, sjálfur er ég búinn að landa 14 og 16 punda löxum,“ sagði Bubbi Morthens í samtali við VoV í dag. Hann bætti við að útgáfuverkefnið gengi mjög vel og búið væri að tryggja stórkostlegt myndefni, bæði hreyfimynda og ljósmyndir. Starfandi með honum eru Ragnheiður Thorsteinsson pródúsent og tökulið hennar annars vegar og Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari hins vegar.

Bjarni Júlíusson með tuttugu pundarann sinn. Mynd Einar Falur.

Einar Falur komst í smáveiði í morgun og sagðist nánast þurfa að ganga með veggjum því hann hefði sett í og landað tveimur smálöxum, en slíkir fiskar hefðu ekki sést á svæðinu fyrr en í morgun er hann landaði umræddum fiskum og Bjarni Júlíusson einum til. „Þeir eru mikið fyrir neðan fossa núna, en ég vil ekki sjá þá hingað,“ sagði Bubbi, „ég hristi þá af ef ég set í þá,“ bætti hann við og tók bakföllin.

„Jú, ég er kominn í 100 cm klúbbinn. Ég var í morgun á Kirkjuhólmabrotinu með Sigurjóni syni mínum. Ég var með tommulanga brúna týpu af Sunray með keilu og setti í þennan svakalega dreka. Hann var 100 cm, stórglæsilegur, og samkvæmt kvarðanum 20 pund. Hann var þumbari, var sterkur, en barðist ekki af neinni dramatík, en það var mikil dramatík að horfa á hann, handleika hann og kyssa bless á kollinn,“ sagði Bjarni Júlíusson. Bjarni var með móral að hafa eyðilagt meðalvigtina, því fyrst eftir að hann landaði 20 punda laxinum, landaði Sigurjón sonur hans 16 og 14 punda fiskum áður en Bjarni tók upp á því að landa 4 punda stubb. „Þeir eru til hérna líka, en mjög fáir samt ,“ bætti Bjarni við.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.