Fréttir

14 júl. 2009

Gleði og sorg í Breiðdalnum

Það var greinilegt að Þröstur hafði orðið fyrir einhverju áfalli þegar við leituðum frétta hjá honum s.l. föstudagskvöld. Af einhverjum ástæðum vildi hann helst ekki segja okkur hvað hafði komið fyrir en gaf sig svo með því skilyrði að saga birtist með í heilu lagi.
“Það var þannig að ég var staddur í veiðihúsinu við Breiðdalsá þann 8 júlí, ásamt veiðimönnum, með 8 ára dóttur minni Tinnu Sól, vinkonu hennar Heklu og Höllu Karí sem hefur unnið fyrir okkur í mörg ár. Ég ætlaði ekkert að fara veiða - en Halla og Tinna Sól þrábáðu mig að koma með sér,og ég ákvað þá að fara með þær stöllur á breiðuna fyrir neðan Gljúfrahylinn, þar er oft góð bleikjuveiði og þægilegt fyrir börn að veiða við ósa Fagradalsár og mér þótti líklegt að þar myndu þær fá einhverja veiði.

Við vorum bara með spúnastangir enda ætlaði ég sjálfur ekkert veiða en meðan þær voru að dunda sér, langað mig að prufa ofarlega í Gljúfrahylinn að norðanverðu fyrir ofan þar sem alls ekki er auðvelt að komast að. Ég fór upp með klettunum og óð innúr öllu á stað sem við förum almennt aldrei með ókunnuga, enda aðstæður nokkuð hrikalegar, og nánast ómögulegt að veiða með flugu og dýpið ca. 10-15 metrar rétt fyrir framan veiðimann. Ég var því vopnaður spúnastöng með 20gr Toby. Ég kastaði einu sinni og fann strax að þarna tók sennilega nokkuð stór fiskur. Hann þumbaðist í dýpinu og ég áætlaði að hann væri 10-12 pund. Hann tók svo á rás niðrúr og ég elti og nú var ég farinn að halda að þetta væri 12-15 punda fiskur.

Þeir sem þekkja til vita að þarna er erfitt að fara með laxinum niður fyrir en með lagni tókst mér að komast þarna og lempa laxinn þangað sem bíllinn var eftir um 15-20 mínútna baráttu. Ég bað Höllu að koma með háfinn og þegar laxinn kom nær þá sá ég að hann var stærri, svona 15-20 pund og það sem var ennþá merkilegra, að þarna var hrygna á ferð, grálúsug. Um leið og hún kom í háfinn datt spónninn úr svo ekki hefur verið vel fast í henni, en jafnframt ljóst að hún var þar með að öllu ósködduð.

Nú var mikilvægt að klúðra engu, þessi hrygna átti að fá einkasvítu (ker) með rennandi lindarvatni og við hana yrði dekrað fram á haust. Eftir 2 ár færu afkvæmi hennar í stórum hópum til hafs sem myndu svo skila sér fullvaxta eftir 1-3 ár í viðbót, hugsanlega sem 3ja ára laxar 2013.

Ég var alveg óviðbúinn og varð að hringja í leiðsögumann sem var á leiðinni í veiðihús með erlendan veiðimann, og biðja hann að koma með plast til að ferja fiskinn í. Á meðan við biðum í dágóða stund þá var ég með hrygnuna rólega í háfnum og Halla Karí tók myndir. Við settum svo laxinn í plast og brunuðum með hann töluverða leið niður á Skammadalsbreiðu þar sem er kista útí á. Ég setti laxinn í kistuna þar sem hann lagðist strax á hliðina. Ég fór þá að halda honum upp í strauminn og hann virtist jafna sig og var farinn að halda jafnvægi.

Á þessum tíma sumars erum við ekki farin að taka í klak, þess í stað er stefnan að sleppa öllum 2ja ára fiski, en þegar líður á förum við að setja þá í kistur og þaðan í eldisstöðina. Af þessum ástæðum var ekkert tilbúið fyrir hrygnuna í stöðinni og ekkert annað að gera en að fara og gera ker klárt fyrir hrygnuna. Þetta tók um 2 klukkustundir. Kerið var klárt og nú var bara að klára verkefnið með því að ná í hrygnuna og koma henni í “svítuna”.

Við brunuðum niður á Skammadalsbreiðu þar sem hrygnan var og ég gekk að kistunni. Ég leit ofan í kistuna sá ég mér til skelfingar að hún var dauð. Hrikalegt, ég ætlaði ekki að trúa þessu en þetta var staðreynd. Hrygnan hafði ekki þolað bröltið og hiti var mikill sem og vatnshiti sem hefur líklega orðið henni að fjörtjóni. Ef klakkista hefði verið komin við Gljúfrahyl hefði hún eflaust lifað af miðað við okkar reynslu. Almennt lifa 9 af hverjum 10 löxum sem við tökum í klak og við sérveljum eingöngu stórlaxa í uppbyggingu Breiðdalsár sem er svo sannarlega að virka. Sýnist mér einnig á öllu að þessi stóra hrygna sé úr seiðasleppingum, en hreisturssýni sem tekið var mun endanlega skera úr um það."

Það er erfitt að segja frá þessu, maður er varla búinn að jafna sig. Við fórum með hana í veiðihúsið, mældum hana og vigtuðum. Hún reyndist vera 1 meter á lengd, 53 cm í ummál, á löngum kafla, og 24 pund. Já 24 pund, þetta er stærsti lax sem ég hef veitt á stöng á ævinni, aldrei fyrr veitt stærri en 19 punda. En því miður verð ég að játa að gleðin sem umvafði okkur öll, hvarf eins og dögg fyrir fyrir sólu þegar ég kom að henni dauðri í kistunni. Það sem er svo merkilegt er að myndirnar sem Halla Karí tók virðast jafnvel glataðar, eitthvað sem hefur komið fyrir myndavélina. Minniskortið með myndunum er nú í höndum sérfræðinga og verður sent erlendis ef ekki vill betur.



Til er þessi mynd sem erlendi veiðimaðurinn tók af mér þar sem ég var að koma henni fyrir í plasti fyrir flutninginn. Einnig eru til myndir af mér sem veiðimenn tóku af mér með fiskinn fyrir utan veiðihúsið eftir að við tókum hana heim í hús úr klakkistunni, en mynd af mér með dauða hrygnu er eitthvað sem ég er ekki mjög spenntur á að sýna, allavega ekki til að byrja með. Á reyndar eftir að fá hana senda og ef hinar „klikka“ verður hún birt síðar. Hef einnig ákveðið að hrygnan verður uppstoppuð og sett á vegginn í Veiðihúsinu að Eyjum í Breiðdal.


Já, þetta er ekki eintóm gleði, við þökkum Þresti fyrir að deila sögunni með okkur og vonumst til að það takist að bjarga myndum þar sem hann er með hrygnuna á lífi. Þeir sem þekkja Þröst vita að hann leggur líf sitt og sál í að rækta upp laxastofna til að rækta upp laxveiðiár sem hefur skilað auknum verðmætum til bænda og auknu úrvali til okkar veiðimanna. Undirritaður var eitt sinn í Ytri Rangá og var svo heppinn að veiða 2 ára hrygnu, með aðstoð leiðsögumanna var henni komið í kistu sem var skammt frá veiðistaðnum. Þetta var í kringum árið 2000. Það sem er athyglisvert við þetta er það þakklæti sem ég hef fengið frá Þresti aftur og aftur. Ég skil því vel að hann taki þennan “missi” nærri sér.

Mynd 1: Hluti af "sögusviðinu" Gljúfrahylurinn og breiðan fyrir neðan haustið 2008. Ljósmynd: Heimir




Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.