Fréttir

30 jún. 2009

Héðan og þaðan

Magnús Árni Skúlason, einn forsvarsmanna In defence hópsins var á meðal þeirra sem voru við veiðar í Laugardalsánni síðustu tvo daga.  Gerðu þeir fína veiði í veiðióveðrinu um helgina en aðstæður voru erfiðar, sól, hiti og lítill vindur. Þrátt fyrir það áttu þeir félagar góða daga, lönduðu tveimur fallegum löxum og á annað hundrað silunga. Uppistaða aflansa var smár urriði 1-1,5 pund en sá stærsti vóg 5 pund.
Í gær voru því komnir átta laxar úr ánni þetta sumarið og sást lax nokkuð víða, m.a. í Affalli, Blámýrarfljóti og í gljúfrunum. Veiðimenn sem nú eru við veiðar í ánni eru þaulvanir og þekkja þar hvern hyl. Síðast þegar þeir voru við veiðar í Laugardalsá hífðu þeir veiðitöluna upp um einhverja fimmtíu laxa og má því eiga von á að eitthvað bætist við heildartöluna.

Ég hef óstaðfestar fregnir af því að ógurleg skepna hafi veiðst neðan Hestfjalls í Hvítá um helgina. Segir sagan að um 24 punda lax hafi verið að ræða. Væri gaman að fá þetta staðfest ef einhver veit meira um málið.

Ytri Rangá er ekki enn komin í gírinn en fjórtán laxar eru nú komnir á land. Menn bíða spenntir eftir fyrstu stóru göngunum en og vonandi að þær fari að hellast í ánna á allra næstu dögum. Nokkuð hefur borið á vænum silung meðal aflans, bæði sjóbirting og bleikju en í gær veiddist t.a.m. 5 punda bleikja auk þriggja laxa.

Víðidalsáin opnaði alveg hreint frábærlega en fyrsta hollið fékk 32 laxa. Uppistaða aflans var vænn 2ja ára fiskur á bilinu 8-15 pund. Það er vonandi að þetta sé vísbending um það sem koma skal í Víðidalnum í sumar.

Tungufljótið hefur farið rólega af stað en þar eru nú komnir sex laxar á land. Að sögn Snorra veiðivarðar er vatnið enn mjög kalt og telur hann það hafa áhrif á aflabrögð. Tveir rígvænir hængar glöddu þó veiðimenn í fyrradag en þá kom einn 17 punda hængur og annar 12 punda á land.

Þórólfur Sveinsson var við veiðar í Langadalsánni ásamt og lauk þar veiðum á hádegi á laugardag. Lönduðu þeir einum sex punda laxi úr Kvíslarfljóti og svakalegri 4,5 punda bleikju úr Brekkubug. Sagði hann vana menn hafa séð lax í Hesteyrarfljóti auk þess að í það minnsta einn lax til viðbótar hefði verið á ferðinni í Kvíslarfljótinu. Líflaust var á neðsta svæðinu og virðist því svo vera að fyrstu laxarnir hafi straujað beint upp á efri svæðin. Sagði Þórólfur aðbúnað vera í hæsta klassa en veðrið út í hött, 20°C og sól. Af Hvannadalsá er það að frétta að hollið sem var við veiðar í gærdag var komið með tvo laxa.

Tekið af agn.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.