Fréttir

28 maí 2009

Veiðibann!

Tilkynning frá stjórn veiðifélags Eyjafjarðarár:
"Stjórn veiðifélags Eyjafjarðarár vill koma á framfæri, að samkvæmt 15 gr. laga nr. 61 2006 um lax- og silungsveiði eru veiðar á göngusilungi í sjó bannaðar. Við bendum jafnframt á að tjörn austan Eyjafjarðarbrúar tilheyrir ósasvæði Eyjafjarðarár og er veiði þar óheimil. Við viljum hvetja fólk að virða þessi lög. Veiðimenn í Eyjafjarðará hafa mátt sæta miklum takmörkunum á afla. Árið 2008 bar mönnum að sleppa öllum veiddum bleikjum aftur í ánna og 2009 mega menn hirða eina bleikju á hverri vakt. Það er því sárt að sjá að bleikjur séu veiddar og drepnar á Pollinum og á ósasvæði Eyjafjarðarár þegar stofninn hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarin ár og verið er að leita allra leiða til að byggja hann upp aftur.
Umfangsmiklar rannsóknir á lífríki Eyjafjarðarár undir stjórn Bjarna Jónssonar umdæmisstjóra veiðimálastofnunar á Norðurlandi, halda áfram í sumar.  Rannsóknin felst m.a. í að merkja umtalsvert magn af bleikju, til að meta far bleikjunnar, mögulegan veiðistofn, veiðiálag, ofl. 

Stjórn veiðifélags Eyjafjarðarár"

Pollurinn við Akureyri, algengt er að smábátaeigendur dóli um Pollinn og veiði bleikju.  Öll veiði á göngusilung í sjó er ólögleg og nú á að taka því.

Þegar rýnt er í lögin sem stjórn veiðifélagsins vísar til þá má sjá að viðurlög við svona brotum geta verið nokkuð hörð:

"

VIII. KAFLI
Refsi- og réttarfarsákvæði.
50. gr.
Um refsingar.
     Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef miklar sakir eru, ef:
a.
hann veiðir án leyfis í vatni annars manns,
b.
hann er staðinn að því að vera með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, nema sannað sé að hann hafi átt þar lögmæt erindi,
c.
hann veiðir á tíma þegar veiði er bönnuð eða á stöðum þar sem veiði er bönnuð,
d.
hann notar veiðitæki eða veiðiaðferðir sem bannað er að nota eða fylgir ekki settum reglum um tilhögun veiðitækja eða um veiðiaðferð,
e.
hann veiðir fisk sem er minni en leyft er að veiða eða sleppir ekki veiddum fiski er sleppa skal,
f.
hann brýtur ákvæði 1. eða 3. mgr. 27. gr., 28. gr., 1. mgr. 29. gr., 1. eða 2. mgr. 30. gr.,
g.
hann spillir fiskvegi eða tálmar á ólögmætan hátt fiskför um vatn,
h.
hann notar sprengiefni, skotvopn, rafmagn, eitruð efni eða deyfandi eða veitir vatni af fiski við veiði,
i.
hann hlítir ekki settum reglum um veiðifélög eða samþykktum þeirra.

51. gr.
Um fullframningarstig brota.
     Brot þau er getur í c-, d- og h-liðum 50. gr. teljast fullframin jafnskjótt og veiðarfæri er komið að veiðistað, nema sannað sé að það hafi verið flutt þangað í lögmætum tilgangi.

52. gr.
Um skaðabótarétt brotaþola.
     Nú veiðir maður án leyfis í vatni annars manns, og skal sá er misgert var við fá allt veiðifang eða andvirði þess auk bóta fyrir annað tjón sem hann kann að hafa orðið fyrir.

53. gr.
Um upptöku veiðitækja og ólöglegs afla.
     Ólögleg veiðitæki og veiðitæki, sem notuð eru með ólöglegum hætti, skulu gerð upptæk. Eins fer um ólöglegt veiðifang, sbr. þó 52. gr.

54. gr.
Um ráðstöfun sektarfjár.
     Sektir samkvæmt lögum þessum og andvirði upptækra veiðitækja renna í ríkissjóð.

55. gr.
Stjórnvaldssektir.
     Lögregla og Landhelgisgæsla Íslands geta lagt stjórnvaldssekt að fjárhæð 50.000 kr. á skipstjóra eða hvern þann sem veitt hefur lax í sjó og af ásetningi eða gáleysi ekki sleppt honum strax aftur. Ef brot er stórfellt má leggja á hinn brotlega 200.000 kr. stjórnvaldssekt. Sektir samkvæmt þessari grein renna í Landhelgissjóð Íslands.


Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.