Fréttir

08 maí 2009

Ein sú vitlausasta sem við höfum heyrt lengi, en sönn saga samt!

Við heyrðum nýverið eina þá fáránlegustu sönnu veiðisögu sem við höfum lengi heyrt. Svona á ekki að geta átt sér stað, en gerði það engu að síður. Tíðindamaður okkar er okkur hjá VoV að góðu kunnur, enda er hann einn okkar, Jón Eyfjörð tæknistjóri VoV. Hann rifjaði atburðinn upp á dögunum og það var ekki hægt annað en að skrásetja hann.

Jón var að veiða í svokölluðum Grenlæk 2 sem er neðan við Flóðið. Þar er oft lítið af fiski, en stundum hitta menn á göngurnar, annað hvort á leiðinni upp, uppúr miðju sumri, eða á leiðinni niður að vori. Þá getur verið handagangur í öskjunni, en nú til dags er þetta svæði mjög lítið stundað. Þarna geta menn rambað um lengi og leitað að fiski og veiðistöðum. Jón kom auga á hólma í ánni eftir talsvert labb og óð út í hann. Þar sem kvíslarnar komu aftur saman neðan við hólmann reyndist vera álitlegur veiðistaður og aðstaða til að standa og kasta afar góð. Innan skamms setti Jón í birting á númer 8 Black Ghost straumflugu. Ekkert stórmerkilegt þar á ferð, bara skemmtan að hafa fundið og sett í fisk. Innan tíðar landaði Jón birtingnum, sem var um það bil 4 punda fiskur.

Ekki var meiningin að drepa fiskinn og fór Jón strax í að losa fluguna. Hún sat föst í vinstri skolti. En hvað var nú þetta? Í hægri skolti sat önnur Black Ghost, einnig númer 8. Jæja, hugsaði Jón, hann hefur slitið hjá einhverjum fyrr í vor. Gaman að því. Og sama flugan og allt!


Ca 4 punda birtingur. Líkur þeim sem sagan segir frá. Mynd ARF

En nei. Þetta var annað og meira. Þegar Jón tók í aukafluguna til að losa hana sá hann að það lá taumur frá henni, og frá taumnum lína....sem lá rakleitt út í ána. Þar sem urriðinn slengdist spriklandi um bakkann, gleymdi Jón honum um stund og fór að toga til sín línuna. Hún varð alltaf lengri og lengri og loks kom að sjálfsögðu flugustöngin og hjólið í ljós. Þessi fiskur hafði gert annað og meira en að slíta. Hann hafði rifið stöngina með sér útí á. Jón fékk hroll þegar honum varð hugsað til þess að vonandi lægi veiðimaðurinn sjálfur ekki þarna einhvers staðar úti í hylnum.

Jón mundi nú eftir birtingnum og náði að koma hojnum aftur í ána áður en hann geispaði golunni. Fór síðan að huga betur að stönginni. Hún reyndist vera merkt „Ingólfi bakara“. Jón þekkti ekki Ingólf bakara, en gat sér til um hver hann myndi vera og gerði sér far um að hafa uppi á honum þegar hann kom í bæinn. Ingólfi varð orðafátt þegar hann sá græjurnar sínar aftur, en þegar hann fékk málið aftur, sagði hann Jóni sinn hluta veiðisögunnar.

Aðeins tveimur dögum áður en að Jón setti í fiskinn hafði Ingólfur verið á ferðinni á þessum sama stað. Séð hólmann og vaðið út í hann. Fundið sama fína blettinn til að kasta á straumskilin neðan hólmans. Aðstaðan þarna var svo góð að það var hægt að tyllla sér og leggja stöngina frá sér og leyfa flugunni að synda um hylinn á meðan kaffisopi væri sóttur í bakpokann. Það var einmitt það sem Ingólfur gerði. Hann kastaði flugunni út á hylinn, lagði hana frá sér og sótti kaffið. En þegar hann var búinn að hella í bollann var stöngin horfinn. Ingólfi varð hverft við og leitað um allt. Stöngin var ekki í hólmanum og ekki sjánleg í ánni heldur. Vissulega hvarflaði það að honum að fiskur hefði tekið fluguna og rifið stöngina með út í á, en það voru engin ummerki um það. Stöngin var bara horfin.

En Jón lagði ekki fram ummerki, heldur grjóthörð sönnunargögn. Þessi kröftugi sjóbirtingur hafði neglt fluguna og hrifsað stöngina með út í á, í einu vetfangi og án þess að veiðimaður yrði þess var. Og togað hana nógu langt út til að hann kom hvergi auga á hana. Og ekki nóg með það, séð sig knúinn til að grípa aðra, nákvæmlega eins flugu, tveimur dögum seinna.

Forsíðumynd: Grenlækur 2. Mynd Jakob Hrafnsson.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

 

 

 

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.