Fréttir

14 mar. 2009

Ekki orginal –

Með fyrstu sólargeislum morgunsólar rölti ég mig niður með ánni. Dagurinn er rétt kominn framúr, einstaka fugl syngur ljósinu og ylnum dýrð, flugur svífa í þéttum sverm við vatnsflötinn, fiskur veltir sér letilega í yfirborðinu. Ekkert er nær því að vera fullkomið en sumarmorgun við íslenskt veiðivatn. Aftur veltir hann sér í straumnum, haus, bak, sporður. Ég þekki þennan stað, gjörþekki hann. Veit hvar fiskar liggja, þekki bestu tökustaðina og veit hvar stærstu fiskarnir halda sig. Farið í grasbakkanum eftir norðurendann á mér er orðið hluti af umhverfinu.
Silfurskotta með gáruhnút gerir ofurfínt strik í strauminn og fiskurinn veltir sér rólega á fluguna. Ég ólst upp við ána og þekki orginalana, þykka, stutta og kröftuga, mótaða af ánni og umhverfinu, baráttunni fyrir lífsbjörginni, ættlið eftir ættlið. Þessi er ekki af þeirri tegund Hann er kominn að bakka eftir örskamma stund. Það vantar allt í þennan fisk, þegar betur er að gáð sé ég að hann er uggaklipptur. Illu heilli er búið að sleppa miklu af gönguseiðum í ána mína á liðnum árum. Í byrjun var uppruni þeirra ekki alveg á hreinu en nú er víst ræktað undan stofni árinnar.

Eins og það breyti einhverju!


Erfðamengun ógnar villtum laxastofnum
Ein mesta hætta sem að villtum laxastofnum steðjar er blöndun eldisfiska við villtu stofnana. Hrikalegur fjöldi laxa hafa um árabil sloppið úr kvíum vítt og breytt um heiminn. Fyrir nokkrum árum töldu vísindamenn að allt að 90% af laxi sem veiddist í sumum ám í Skotlandi, Noregi, Írlandi og Kanada væri upprunninn úr eldiskvíum. Á Íslandi fengu menn sinn skammt af þessum ófögnuði en sjóeldið gekk illa þannig að trúlega hefur það bjargað einhverju. Hinsvegar verður ekki horft framhjá brjálæðislegum sleppingum gönguseiða í hafbeitarárnar svokölluðu. Því má helst líkja við rússneska rúllettu. Náttúruhryðjuverk hef ég kallað það og ætla að halda mig við þá útlistun.

Nýjar rannsóknir benda til þess að eldislax sem sleppur úr kvíum geti haft mjög alvarleg áhrif og veikt viðnámsþrótt villtra laxastofna.  Komið hefur í ljós að stórlega dregur úr lífslíkum seiða villtra laxa blandist hann eldislaxi. Um 40% eldislaxa í Bretlandi og Írlandi eru ættaðir frá Noregi og erfðaefni þeirra ólikt breskum og írskum laxastofnum. Írskir vísindamenn sem rannsakað hafa kynblendinga villtra laxa og eldislaxa síðustu tíu árin hafa komist að því að eldislaxinn dragi út samkeppnishæfni villtra laxa.  Þetta kemur fram í annarri kynslóða blendinga þannig að allt að 70% seiða blandaðra laxa drepst á fyrstu vikunum vegna erfðafræðilega vankanta.  Vísindamenn segja að ef fram haldi sem horfi geti þetta leitt til þess að laxastofnar sem hafi lifað í árþúsundir í sömu ánum deyi nú út.

Á okkar fagra landi, Shangri-la Atlantshafslaxins eins og sumir kalla það, hefur laxarækt viðgengist nær óheft um áratuga skeið og með stigvaxandi þunga eftir að hafbeitarævintýrið hófst í Rangánum. Á hverju ári er millljónum gönguseiða sleppt úti vatnakerfin og þaðan ganga þau í sjó. Villuprósenta eldisfiskanna sem er afar há gerir það að verkum að nú veiðast laxar úr hafbeitarám á Suðurlandi um alla Vestur-Skaftafellsýslu. Því miður er það svo að það er sjálfvirkur sleppibúnaður á afgreiðslu leyfa til þeirra sem vilja rækta lax og í mörgum tilfellum engu skeytt um lög og reglur sem eiga að vernda villta stofna lax-og silunga.

Pálmi Gunnarsson

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.