Fréttir

07 jan. 2009

Laxá í Trout and salmon

Í janúarhefti hins virta tímarits Trout and Salmon er að finna grein um urriðaveiði breska blaðamannsins Howard Taylor í Laxá í Laxárdal og Mývatnssveit síðastliðið sumar. Howard þessi sem er þekktur breskur þurrfluguveiðimaður var við veiðar í Laxá ofan Brúa í sumar sem leið. Í þessu nýjasta hefti tímaritsins fullyrðir greinarhöfundur að á umræddum veiðisvæðum sé að finna bestu þurrfluguveiði á urriða sem völ er á í heiminum í dag.

 Í greininni sem er vel myndskreitt segir af veiði þessa þekkta veiðimanns í Laxárdal og Mývatnssveit í byrjun ágústmánaðar í fyrra. Það er Bjarni Höskuldsson á Aðalbóli, nýráðinn umsjónarmaður svæðanna, sem fylgir blaðamanninum og sýnir honum inn í ævintýraheim Laxár.

Í skrifum sínum segir Howard að það hafi komið sér á óvart að flestir veiðimenn sem á svæðinu voru væru að nota straumflugur við veiðarnar og fannst honum þær heldur groddalegar og stórar um sig. En viðhorf hans til þess arna breyttist þó nokkuð er hann skoðaði myndir þær sem finna mátti á veggjum veiðihússins.Ef nokkrum setningum er vippað yfir á okkar ylhýra þá segir greinarhöfundur: " Myndirnar á veggjunum sýndu veiðimenn halda á risaurriðum......Á einni þeirra mátti sjá magainnihald stórurriða og þar greindi ég meðal annars þrjá andarunga og eitthvað sem líktist rottu!

Þá skyldi ég hvers vegna þeir fúlsa ekki við straumflugum....!"

 

Nýjasta hefti Trout and Salmon ætti að vera væntanlegt í flestar betri bókabúðir.

Tekið af vef SVFR

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.