Fréttir

06 jan. 2009

Um laxveiðitíma

Eftirfarandi grein kom frá Veiðimálastofnun eftir umræðu undanfarna daga:

"Undanfarna daga hefur verið umræða um veiðitíma á laxi í ám þar sem meginhluti veiðinnar er tilkominn vegna sleppinga gönguseiða. Tilefnið kom vegna fréttar af veiði á laxi á nýársdag. Sú veiði er ekki lögum samkvæmt.

Í lax- og silungsveiðilögunum, sem voru samþykkt árið 2006 (lög nr.61/2006) eftir allsherjarendurskoðun, eru ákvæði um veiðitíma á laxi. Þar segir í 17. grein. „Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils“. Þá segir jafnframt. „Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingum seiða“. Þessi ákvæði voru sett eftir mikla umræðu og umhugsun. Þarna er tekið sérstaklega tillit til þeirra vatna sem veiði er tilkominn með viðvarandi sleppingu gönguseiða en þannig háttar til t.d. í Rangánum.


Ef veiði væri stunduð eftir lok október er líklegt að sá fiskur sem þá veiddist væri eingöngu hrygnandi og hrygndur fiskur. Slíkur fiskur er ekki matvara, enda fer stærsti hluti af orku laxins í hrygninguna, en lax étur ekkert eftir að í ferskvatn er komið. Þá eru engin sérstök skilyrði til veiða á þessum tíma, vegna veðurfars og birtu. Því væru veiðileyfi á þessum tíma lítils virði. Einnig verður að hafa í huga að silungur getur verið í þessum ám og þarf að hlífa hrygningarstofnum hans við veiðum á þessum tíma. Veiðar á þessum árstíma væru einnig til þess fallnar að grafa undan almennu siðferði í veiðum og virðingu fyrir veiðidýrinu. Mikilvægt er að láta lax í friði yfir vetrartímann vegna framantalinna þátta.

Nokkur umræða hefur verið í þessu sambandi um að lax sé nýgenginn ef hann er bjartur. Að öllu jöfnu gengur lax bjartur í ár, en með auknum kynþroska þegar líða tekur að hausti verður hann dekkri eða leginn eins og kallað er. Hins vegar getur lax líka komið „leginn“ úr sjó það er að hann er orðinn dökkur. Þá eru líka til laxar sem eru bjartir langt fram á haust. Sérstaklega á þetta við um smálax. Auk þess halda hrygnur mun lengur bjarta litnum heldur en hængar. Þeir eru samt ekki endilega nýkomnir úr hafi.

Hrygning lax fer fram frá því í október fram í desember í íslenskum ám en það er breytilegt eftir stofnum. Eftir hrygningu deyr stór hluti laxins. Laxinn er að týna tölunni allt frá hrygningu og fram á vor. Hluti laxanna nær að þrauka og fara aftur í göngubúning og verður þá bjartur á ný, og kallast þá hoplax, en er þvengmjór. Þetta hlutfall er mjög mismunandi eftir ám, stofnum og árferði. Ferlið að fara í göngubúning á ný tekur tíma, allt frá hrygningu og fram á vor, þegar hoplaxinn heldur til sjávar, oft í apríl - maí.

Eftir stendur að það eru engin rök hvorki líffræðileg né siðferðileg sem mæla með að laxveiði sé stunduð lengur en lögin kveða á um."

Tekið af agn.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.