Fréttir

04 jan. 2009

Laxveiði ólögleg á þessum árstíma

„Ég get ekki betur séð en það sé kolólöglegt að veiða á þessum tíma og til þess fallið að grafa undan þessu almenna siðferði sem maður vill sjá í veiðum, að menn virði bráð sína og láti hana í friði þegar hún er að hrygna eða er nýhrygnd," segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar.
„Á þessum tíma er laxinn að komast í göngubúning og þá á að láta hann í friði. Og það er í anda laganna."

Sigurður talar hér um frétt sem birtist í blaðinu í gær, þar sem Kristján Þ. Davíðsson, veiðimaður og framkvæmdastjóri gamla Glitnis, sagði frá feng sínum í Ytri-Rangá, en ekki í Eystri-Rangá, eins og stóð ranglega í blaðinu. Hann fór til veiða á nýársdag og fékk þrjá laxa með félaga sínum.
Kristján sagðist hafa fengið leyfi veiðivarðar og í fréttinni sagði að veiði í hafbeitarám, ám þar sem fiskur er ræktaður af mönnum, væri leyfileg á þessum tíma. Þær upplýsingar fengust hjá starfsmanni Lax-ár, sem leigir út veiðileyfi við árnar.

Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir engan vafa á að laxveiði sé bönnuð eftir 30. september, en í hafbeitarám sé hún leyfileg allt til 31. október. Þetta sé því skýlaust brot á lögum: „Þetta athæfi, að vera að veiða lax á þessum tíma, er hlutur sem við viljum ekki sjá. Lögunum er náttúrulega beitt gegn slíkri veiði," segir Óðinn. Undantekningar veiti Fiskistofa.

Sumarliði Óskarsson sérfræðingur hjá lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu segir mennina ekki hafa haft leyfi. „Þeir eru þarna greinilega ekki að veiða samkvæmt lögum," segir hann.

Matthías Þorsteinsson, veiðivörður í Ytri-Rangá, segist heldur ekki hafa veitt mönnunum leyfi til veiðanna: „Þeir töluðu aldrei nokkurn tíma við mig, enda er ekki leyfilegt að veiða núna."

Kristján sjálfur segir þá félaga hafa fengið leyfið frá „manni sem taldi sig hafa leyfi til að leyfa okkur að veiða þarna". Hann vilji hvorki gefa upp nafn hans né félaga síns til að forða þeim frá klandri. „Við töldum okkur ekki vera að brjóta lög en ef við vorum að því þá eru það úrelt lög, sem ekki taka á því að í hafbeitarám, þar sem ekki er náttúruleg hrygning, er þessi fiskur engum til gagns eða gleði, hann bara drepst," segir hann. Að auki hafi þeir fengið leyfi hjá landeiganda við ána, bónda sem átti leið hjá. klemens@frettabladid.is

Tekið af visir.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.