Fréttir

16 des. 2008

Flugukastnámskeið TILVALIN JÓLAGJÖF

Flugukastnámskeið verða haldin í Íþróttahöllinni vorið 2009.

Byrjendanámskeið
verður haldið laugardagana 8. og 15. mars 2009 kl. 9-11
(2 skipti, samtals 4 tímar).


Framhaldsnámskeið
verður haldið laugardagana 29. mars og 5. apríl 2009 kl. 9-11
(2 skipti, samtals 4 tímar).


Meðal kennara verður hinn frábæri flugukastari Pálmi Gunnarsson.
Stangir fyrir þá sem þurfa.

Nánari upplýsingar veitir Ármann Guðmundsson í síma 894-7552 og 462-7105 eftir kl. 19:00 og í armann@svak.is

Munið Gjafabréfin - tilvalin jólagjöf
Verð: kr. 7.000 en til félagsmanna í SVAK kr. 5.000
Fróðleikur um fluguköst

Pálmi Gunnarsson skrifar:
Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að vera samferða frábærum fluguveiðimönnum innlendum og erlendum sem hafa miðlað mér af kunnáttu sinni og í raun kennt mér allt sem ég kann í dag. Um leið og þessir karlar kenndu mér sitthvað um veiðar með flugu ólu þeir mig einnig upp í góðum siðum hvað varðar umgengni við náttúruna og fengu mig til að hugsa um mikilvægi þess að viðhalda og vernda eitt af því dýrmætasta sem við eigum. Mér er það bæði skylt og ljúft að deila með ykkur nokkru af því sem hef fengið í gjöf frá þessum lærifeðrum mínum.


Ég byrjaði snemma að veiða á bryggjum og síðan vötnum og lækjum með spún og beitu. Fluguveiðiíþróttinni kynntist ég ekki fyrr en Þór Nilsen sá ágæti fluguveiðimaður og hnýtari kom mér á bragðið með fyrirlestri um unaðsemdir fluguveiða og beindi mér á kastnámskeið inní Laugardalshöll. Þá hafði ég tímabundið misst áhuga á veiðiskap eins og gengur og gerist með unga menn þar sem annað hafði þá forgang. Eftir einn eftirmiðdag í Laugardalshöll lá leið mín á Þingvöll þar sem heilu og hálfu dagarnir fóru í að þenja löng köst á Öfugssnáða eða í Vatnsvík. Það tók nokkuð á taugar nýliðans að dvelja við hlið snillinganna sem áttu þetta vatn með húð og hári, þekktu hvern tanga og hverja tá. Oft þurfti ég að bíta í það súra að sjá meistara Þór raða bleikjunum á bakkann en hafa sjálfur uppúr krafsinu endalausar bakfestur og götótt eyru og höfuðleður.

Það hefur margt breyst síðan ég æfði langköst við Þingvallavatn. Á réttu augnabliki varð ég fyrir því láni að lenda í höndunum á kennara sem var nógu heiðarlegur að sýna mér fram á að ég væri næsta ómögulegur kastari. Þegar það gerðist hafði ég um nokkurra ára skeið talið sjálfum mér og öðrum trú um allt annað.

Vinur minn og velunnari, flugukastsnillingurinn Mel Krieger leiðrétti þennan misskilning minn og kenndi mér allt uppá nýtt, allt frá réttu gripi að veltiköstum og speyköstum. Hann hélt fyrirlestur um eðlisþætti stangarinnar og hvernig best er að láta hana vinna fyrir sig en það er jú það sem fluguköst ganga fyrst og fremst útá. Mikið var nú gaman að uppgötva að stöngin var ekki eitthvað bévað prik sem taka átti hraustlega á, heldur snilldarlega hönnuð græja sem gerir allt fyrir mann bara ef maður biður vel. Á sama hátt og stangarstökkvarinn notar stöngina til að þeyta sér yfir rána og bogamaðurinn þenur bogann til að skjóta örinni er það stöngin sem fluguveiðimaðurinn notar til að þeyta línunni í gegnum loftið.

Þegar ég uppgötvaði þetta varð mér ljóst að ég hafði gert flest vitlaust. Og ég fór að læra.
Hugum að nokkrum einföldum atriðum sem hjálpa til við að gera mann að góðum kastara:
Fast grip og fastur úlnliður

Til þess að fá sem mest út úr stönginni notar maður fast grip og fastan úlnlið. Stöngin virkar þá sem bein framlenging handleggsins sem býr til færslu stangarinnar. Með lausum úlnlið verður ferli línunnar ójafnt og köstin vond.

Kasta stutt
Flestir byrjendur telja það aðalatriðið að koma línunni sem lengst frá sér. Þetta er mikill misskilningur og eyðileggur margan góðan efniviðinn ef ekki er gripið inní. Þegar byrjandinn hefur áttað sig á því hvernig stöngin vinnur þá ætti hann að temja sér stutt köst og æfa þau vel og lengi. (án flugu) Þegar við höfum stundað þetta um tíma og erum farin að kasta vel með stuttri línu þá verður eftirleikurinn auðveldur.

Niðurstaðan er nefnilega sú að ef þú kastar vel með stuttri línu þá kastar þú nokkuð örugglega vel með því að lengja svolítið í. Svo má bæta því við að í flestum tilfellum höfum við ekkert með löng köst að gera og alltof margir fluguveiðimenn eru stöðugt að kasta yfir fisk og flengja vatn að ástæðulausu.

Upp og niður aðferðin
Það er afar algengt að sjá kastara dansandi stríðsdans á bakkanum, vindandi uppá búkinn, snúandi sér til hægri og vinstri í köstunum, oft með handlegginn teygðan beint út frá öxlinni. Í öllum tilfellum eyðileggur þessi hamagangur ferlið á línunni og er ávísun á slæmt eða ónýtt kast. Þessum hamagangi fylgir gjarnan runa af falsköstum sem eiga að lengja köstin en í bestu tilfellum eru menn að ná sér í nokkra metra með látunum.

Í stað alls þessa ástæðulausa erfiðis mæli ég með að menn taki sig saman í andlitinu og æfi frá grunni “upp og niður” kastaðferðina. Hún felst í því að nota einungis framhandlegginn með föstum úlnlið í kastið. Upphandleggurinn á að liggja fast með líkamanum og meðan æft er, er gott ráð að halda bók eða einhverju álíka á milli líkamans og upphandleggsins. Með einni “upp og niður” hreyfingu framhandleggs flytur vanur kastari línuna áreynslulaust þangað sem hann vill koma henni. Við réttar aðstæður kastar vanur kastari mestallri flugulínunni að hjóli með einu kasti. Ef menn vilja falskasta til að ná lengri köstum nægir í flestöllum tilfellum að falskasta einu sinni og láta síðan vaða. Ég segi að falsköst séu best til fallin að þurrka þurrflugur en áreiðanlega eru margir mér ósammála. Það sem ég tel falsköstum til foráttu er eftirfarandi: Þau styggja fisk; flugulína sem er látin þjóta yfir vatni eða streng 5-10 sinnum róar allavega ekki lónbúann. Falsköst þreyta menn í öxlum og geta ásamt veltandi úlnlið valdið tennisolnboga og sinaskeiðabólgu.

Þegar við æfum köst þá er mikilvægt að skoða ferlið á línunni. Þegar línan er tekin upp og henni skotið aftur er mikilvægt að bíða með framkastið þangað til réttst hefur úr línunni og hún náð að þenja stöngina. Ef kastarinn byrjar framkast of snemma er kastið undantekingalaust ónýtt. Það reynir enginn að skjóta ör úr boga sem ekki hefur verið þaninn og það sama á við um flugulínuna. Algeng sjón er að sjá fluguveiðimenn klára framkast með því að leggja stangarendann niður að vatnsborði og jafnvel fylgja eftir með því að teygja fram handlegg og öxl. Þetta er ávísun á vesen. Flugulínan leggst illa og slíkum aðförum fylgja gjarnan læti sem í versta tilfelli hræða allan fisk frá ef hann er þá ekki löngu farinn.
Oft er klukkan notuð til að mæla fram og afturkast: Framkast kl. 10.30 og afturkastið kl. 13.30 og er það ágætis viðmiðun. Í góðu framkasti skal stangartoppurinn stöðvaður ákveðið við 10:30 en með því leggst línan ákveðið og fallega á vatnsflötinn.

Svo má nefna að ein algengasta orsök hnúta á taumum er rangt afturkast þ.e. kast sem byrjar of snemma.

Gott er að temja sér að ákvarða rétta lengd línu áður en kastað er. Ef of löng lína er tekin uppúr vatninu er kastið ónýtt þar sem stöngin ræður ekki við nema takmarkaðan línuþunga. Það er afar algengt hjá flugukösturum að rífa upp of langa línu með afli og ég þekki marga guðhrædda fluguveiðimenn sem aldrei blóta nema í veiðiferðum og við þessar aðstæður. Að fá flugulínu í andlitið og yfir sig allan eða missa hana niður fyrir aftan sig er einfaldlega dálítið klaufalegt. Æfingin skapar meistarann meðan stuttu köstin eru æfð og á endanum verður það manni eðlilegt að taka rétta lengd af línu upp úr vatni. Fyrir þá sem eiga erfitt með að tileinka sér þetta eru Signature línur góðar. Þær hafa litaskiptingu sem gefur til kynna rétta línulengd fyrir kast.

Gott er að temja sér frá byrjun meðhöndlun lausrar línu. Algengt er að menn láti línuna falla lausa í jörð eða vatn og hefur þetta allskonar leiðindi í för með sér. Í straumvatni fer línan frá manni sem veldur óþægindum í næsta kasti eða og flækist í leiðinda vöndul. Sé línan látin fara í flæðarmál eða á malareyri er hætta á að hún merjist ef stigið er á hana. Slík lína er ónýt í flestöllum tilfellum og það eru óþarfa útlát. Best er að vefja línuna upp á hendina um leið og dregið er inn og láta hana svo lausa þegar næsta kast er framkvæmt. Sama á hér við og með köstin sjálf, æfingin skapar meistarann.
Ég læt þessu lokið í bili en fyrir ykkur sem viljið byrja að tileinka ykkur fast grip, fastan úlnlið og “upp og niður aðferðina” bendi ég á að gott skrúfjárn eða sporjárn með tréhaldi er ágætlega nothæft til að æfa innandyra við skrifborðið í vinnunni eða fyrir framan sjónvarpið heima á kvöldin ;-).

Með kveðju
Pálmi Gunnarsson
©2003 Pálmi Gunnarsson - Allur réttur áskilinn

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.