Fréttir

11 des. 2008

Bréf frá Agli Ingibergssyni

Ritstjórn SVAK.IS hefur borist bréf frá Agli Ingibergssyni vegna svara Haraldar Eiríkssonar ritstjóra SVFR.IS við opið bréf Egils sem var birt hér á vefnum í gær.
Sæll Haraldur,

Það skal fúslega viðurkennt að hér skrifar undrandi og svolítið reiður veiðimaður. Reiður yfir því hvernig komið er og undrandi á viðbrögðum við aðstæðum. Ókurteisi og skítkast er mér ekki tamt og hafi ég misboðið þér með skrifum mínum, þá þykir mér fyrir því.
Ég vil taka skýrt fram að ég skrifa ekki fyrir hönd stjórnar SVAK og hef ekkert haft með stefnumótun eða ákvarðanir þar að gera yfir höfuð. Ég var til að mynda afskaplega ósáttur við að félagið skyldi gera tilboð í Laxá en jafn feginn að þeim var hafnað. Ætli megi ekki segja að ég sé óvirkur félagi í SVAK, en þar sem það er eina veiðifélagið sem ég er félagi í, þótti mér nærtækast að birta bréf mitt þar.

Ég vil SVFR ekkert illt og geri mér fulla grein fyrir stöðu félagsins í dag og óska þess heilshugar að félagið standi ósköpin af sér. Þið eruð milli steins og sleggju í málinu. En þið getið þó ekki fríað ykkur ábyrgð, því SVFR valdi fyrir löngu, að taka þátt í því kapphlaupi um veiðiár sem átt hefur sér stað í fjöldamörg ár og hafa valdið miklum verðhækkunum á veiðileyfum. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef ekki átt samleið með ykkur. Nú er komið að skuldardögum, líkt og hjá fjármagnseigendum, stjórnendum landsins og öllum almenningi líka. Ábyrgð stjórnmálamannanna er mikil, því þeir vörðuðu veginn, settu lögin sem gáfu færi á óráðsíunni. Sumir munu falla, aðrir bogna en standa þó.
Eins og ég segi í bréfinu, þá á veiðifélag Laxár ekki minnsta sök á þessu tiltekna máli og setningin um að græðgi ráði för var ætluð gjörningnum í heild sinni og þá ekki síst veiðifélaginu sem valdi áhættusama leið í leit að hámarks gróða
Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa og SVFR kaus að halda. Á því vali berið þið ábyrgð. Máli mínu til skýringar má nefna veiðifélag eins og Ármenn, sem völdu að sleppa.

Ég skil nú ekki alveg hvar þú lest úr mínum skirfum óánægju með að félagsmenn greiði minna en utanfélagsmenn. Ég hef ekkert við það að athuga og finnst það raunar mjög eðlilegt. En við útreikning á hækkunum eiga ekki við sömu tölur fyrir báða.

Auðvitað væri umræðan öðruvísi ef fjármálabólan hefði ekki sprungið. Hún væri líka öðruvísi ef áin hefði ekki farið í útboð eða ef virkjunaráformin á sínum tíma hefðu náð fram að ganga, nú eða ef laxi hefði verið sleppt uppeftir. Þetta eru útúrsnúningar og hafa ekkert með málefnalega umræðu að gera, eins og þú ferð fram á. Staðan er eins og hún er og um hana fjallar umræðan.

Þanka um aukið veiðiálag má gjarna taka almennt og byggist á reynslu minni frá laxveiðum. Í mínum huga liggur þetta ljóst fyrir eða getur þú bent mér á rannsóknir sem hrekja þessa tilgátu? Fram til 2006 eða svo, var veitt á 16 stangir á efra svæðinu. Alltaf var eitt svæði hvílt. Gríðarleg ásókn hefur valdið því að þessi regla hefur illu heilli gefið eftir. Það er vissulega virðingavert að ætla aðeins að selja 14 stangir á svæðið en ef við það er bætt, segjum 30%, þá er í raun veitt á 18 stangir.

Hvað varðar gistingu og fæði, þá tengist sá þanki almennu verðlagi. Ég borgaði nærri 30 þúsund fyrir 3 daga í fyrra og finnst ekki óvarlegt að áætla að þar verði óumflýjanleg hækkun sökum almennra verðhækkana á mat og aðföngum. Upphæðin er auðvitað ágiskun.

Hvað varðar ábendingu um málefnalega umræðu á spjallvef SVFR, þá renndi ég yfir skrifin og fann þar eitt eða fleiri dæmi um flesta þætti bréfs míns. Undanskildir eru þankar um veiðiálag og verð á fæði og gistingu. Nægir þar að nefna opið bréf fyrrverandi formanns ykkar sem dæmi. Varlegar orðað en innihaldið ekki ósvipað.Eins og ég hóf mál mitt á, þá er ætlunin ekki að rægja SVFR, né aðra sem að málinu koma. Það má með segja að áralöng óánægja með verðhækkanir veiðileyfa almennt hafi flætt á pappírinn og valdið því að ég var óþarflega hvassyrtur. En að halda því fram að ég sé ómálefnalegur í málflutningi og haldi fram rangfærslum þykir mér vega að mínum eigin heiðri. Frjáls umræða og tjáning skoðana hlýtur á endanum að leiða til betri niðurstöðu mála.

Með vinsemd og virðingu,
Egill Ingibergsson

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.