Fréttir

10 des. 2008

Opið bréf frá félagsmanni.

Fæ ekki orða bundist.
Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig sala á veiðileyfum í Laxá í Mývatnssveit fyrir næsta sumar muni ganga. Verðið hefur meira en tvöfaldast við aðkomu SVFR. Svo sem sjá má hér að neðan er júlí dýrastur og kostar 28.900kr. Eins og það sé ekki næg svívirða, bætast 20% ofan á fyrir menn eins og mig, sem ekki eru í félaginu, svo verðið fer í 34.680kr. Verð í forsölu í júlí í fyrra var 16.200kr. svo hækkunin er um 115%. (Júní var 17.000, verður 26.900+20%= 32.280kr. eða 90% hækkun.) Þetta þýðir að veiðileyfið eitt og sér kostar 104.040kr. í júlí. Miðað við þær hækkanir sem í gangi eru á mat og fleiru, auk útboðs á þeim þætti, má búast við að fæði og gisting fyrir 3 daga fari í 40, ef ekki 50 þúsund. Ef við er bætt bensíni frá Reykjavík og til baka, smá nesti og öðru tilfallandi, fer ferðin að nálgast 200.000kr.
Opinberlega er því haldið fram að verðið hækki um 60% (sbr. t.d. textavarp RUV 6.des. sl.) Hér má auðvitað leika sér með tölur að vild en fyrir mig hækkar það mun meira, eins og ofangreindur útreikningur sýnir og ekki hækka launin, þó gengið falli. Þá má vitna í bréf Friðriks Þ. Stefánssonar á umræðuvef SVFR frá 20. nóv. sl. þar sem m.a. segir „ ... sem er tæpl. 54 - rúml.200% hækkun. Það er ljóst að félagsmenn munu eiga fullt í fangi með að ráða við boðaðar hækkanir og ég óttast að fáir dyggir aðdáendur Laxár sem ekki eru í SVFR, kaupi veiðilefin á þessum verðum eða sjái sér hag í að ganga í félagið til að sækja um.“

Svo litið sé til alls réttlætis, skal ekki allri sök skellt á SVFR, því veiðfélagið ber stærstu ábyrgðina á þessum gjörningi. Hitt er svo annað að ég hef aldrei haft áhuga á að vera meðlimur í SVFR og læt ekki kúga mig til þess. Ég hef í mörg ár sniðgengið laxveiði í „betri“ ám. Ekki af því ég hafi ekki efni á að borga þau fáránlegu verð sem þar hafa verið í gangi, heldur vegna þess að mér finnst þau engan vegin virði þess sem falast er eftir. Mér hefur einnig þótt hækkanir undanfarinna ára í Laxá fara úr hófi fram og hef keypt leyfi með ygglibrún, einfaldlega af því ég vil hvergi frekar vera við veiðar og þykir áin stórkostleg, sem og fólkið sem ég hef kynnst þar, bæði veiði- og starfsmönnum. En nú er mér nóg boðið.
Ekki verða það bankar og fjármálafyrirtæki sem leyfin kaupa. Kannski þeim sem keypt hafa laxveiði á uppsprengdu verði undanfarin ár fundist verðið ekki of hátt kaupi, en þá verður salan á laxveiðileyfunum væntanlega lítil. Ætli SVFR endi ekki bara í útrásinni og hvar er þá hagsmunagæsla íslenskra veiðimanna niðurkomin?
Hér ræður græðgi för, líkt og lengi hefur verið í laxveiðinni.

Setjum nú svo að veiðimenn kaupi leyfin á þessum verðum, sem vel má vera. Þá er deginum ljósara að tveir verði um flestar stangir, líkt og tíðkast í mjög í laxveiðinni. Við það aukast tekjur af gistingu og fæði um helming, sem út af fyrir sig er ekki út á setjandi. Hitt er mun alvarlegra að veiðiálagið eykst líka til muna. Kannski ekki tvöfalt en til muna. Um leið og veiðimaður hættir að veiða, til að skipta um flugu, horfa aðeins á ánna, spá í næstu skrefum, fá sér hænublund eða hvað sem er annað, þá tekur hinn við. Mér þætti ekki óvarlegt að áætla að veiðiálagið aukist um 30 til 40% við þetta!

Þegar rætt er um nauðsyn hækkana vegna vísitölubreytinga, er eins og fólk átti sig ekki á því að hér er ekki um að ræða nauðsynjavöru. Hvar byrja flestir á að skera niður á krepputímum? Lítið í kringum ykkur og svarið er auðljóst. Bíllinn minn getur hæglega dugað í 10 ár, ég þarf ekki að fara til útlanda árlega eða oftar, húsnæðið sem ég bý í dugar mér ágætlega, ég þarf ekki ný jakkaföt mánaðarlega, ég þarf bara eina sjónvarpsstöð, fjórar veiðistangir duga mér lengi o.s.frv. Veiðileyfi lenda óhjákvæmilega ofarlega á þessum lista. Það greinir þarna klárlega á milli. Og ef ég er búinn að missa vinnuna, þá fækkar nauðsynjum ískyggilega hratt. Það er útilokað annað en að veiðileyfi lækki til muna á næstunni og því er öll þessi umræða með öllu óskiljanleg og verður best líkt við algera blindni á núverandi aðstæður.

Þessu óskylt ... og þó ekki! Mér finnst afar sorglegt til þess að vita að menn hugsi um það í alvöru að leggja veg frá Mývatni niður í Laxárdal! Sjá menn ekki þá algeru sérstöðu sem dalurinn hefur? Hvergi á láglendi finnst óbyggður dalur sem kemst í nálægð þessa hvað fegurð snertir. Það ætti snarlega að gera dalinn að þjóðgarði og banna allar vega- og línulagnir, sem og byggingaframkvæmdir og jarðrask af öllu tagi. Sumarbústaðirnir nýbyggðu í Brettingsstaðalandinu eru eins og opin sár í landinu. Nær hefði verið að endurbyggja torfbæinn í sinni upprunanlegu mynd að utan, þó innviðir hefðu mátt vera nútímalegri. Drulluslóðinn sem búið er að troða neðan úr dal og alla leið upp í Hrafnsstaðavik er ótrúlegt skemmdarverk. Það fylgja því engir hagsmunir að leggja slíka vegi, bara gönguleti og blinda á fegurð umhverfisins. Að ganga frá Hamarsbrúnni niður að Varastaðahólma er ótrúlegt ævintýri, eða var það öllu heldur. Fyrir mér verða veiðistaðir meira spennandi ef erfitt er að komast að þeim. Þeir verða áskorun sem mikil gleði fylgir að takast á við.

Ég er farinn að hlakka mikið til næsta veiðisumars, hnýtingasettið uppi á borði og hugurinn á flugi. Laxá er og verður mín drottning, þó ég heimsæki hana líkast til ekki næsta sumar með veiðistöng í hönd.

Egill Ingibergsson
félagi í SVAK (ekki númer neitt sérstakt)

Á vefsíðu SVFR má finna eftirfarandi:

Verðskrá
Meðfylgjandi verðskrá gildir fyrir bæði svæðin. Verðið er félagsverð.


Félagsverð á stöng á dag
1/6 - 1/7 26.900
1/7 - 1/8 28.900
1/8 - 16/8 23.600
16/8 - 31/8 21.800

...

10. Verð veiðileyfa til utanfélagsmanna er að venju 20% hærra en til félagsmanna.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.