Fréttir

07 des. 2008

Sigurður Pálsson

Hvaða veiðimaður kannast ekki við svefnlausar nætur þegar líður að veiðiferð í uppáhaldsána eða í fyrsta gæsaveiðitúr haustsins. Og hver kannast ekki við aflið í félagahópnum sem hittist regluglega til að tala um veiðiferðir sem verið er að undirbúa eða farnar hafa verið, rýna í myndaalbúm með myndum af veiðimönnum,veiðidýrum, umhverfi og aðstæðum.

Við þessa innri ólgu sem er svo mögnuð, búa allir sannir veiðimenn með frá fyrstu tíð. Ég man alltaf eftir því þegar Sigurður Pálsson fluguhnýtari hringdi í mig um miðjan vetur þungur eins og sandpoki. Svo niðurdreginn var Siggi Páls að ég óttaðist hið versta. Eftir langan formála kom ástæðan fyrir þessari innri baráttu vinar míns. Hann var haldinn þessum „ógurlega aðgerðarkvíða“ vegna komandi veiðiferðar í Grenlæk eftir sjö mánuði. Aðgerðarkvíða sem rændi hann miskunnarlaust svefni og tímabundið hluta af vitinu. Ég veit að þetta hafði ekkert með kvíða að gera, því Sigurður Pálsson hlakkar til hverrar veiðiferðar, hlakkar til að hitta félagana, að segja sögur og heyra sögur, reyna nýjar flugur í veiðiám sem eru honum kærar eða þá kanna nýjar og spennandi veiðislóðir.

Sigurður Pálssson málari er heimsfrægur maður í það minnsta meðal vina og vandamanna. Lengi hefur stangaveiði verið honum hugleikin með þeim afleiðingum fyrir okkur hin að baneitraðar flugur hafa orðið til. Flæðarmúsin er er gott dæmi um slíka flugu, en hún var hönnuð upphaflega fyrir skolað sjóbirtingsvatn en hefur sýnt og sannað að henni má beita við allar aðstæður. Oft er talað um að stangaveiðimaðurinn verði að hugsa eins og fiskur til að eitthvert vit sé í og þannig held ég að það sé með Sigga Páls enda á hann gjarnan rólegheita spjall við silungana sem þvælast á flugurnar hans, áður en hann flytur þá á annað tilverustig. Svo langt hef ég ekki náð, en næ þangað vonandi að endingu. Ef ég gef mér að við fæðumst aftur og aftur uppá Hindísku þá er það á kristaltæru að vinur minn og lærimeistari sem setur stundum upp hvíta hanska í veiðiferðum til heiðurs veiðiguðinum, hefur verið sjóbirtingshængur í fyrra lífi.. Hann hefur átt óðöl í Vestur - Skaftafellssýslu fyrir einhverjum öldum og líklegast komið undir í Geirlandsá. Vegna eðlislægrar forvitni hefur hann farið á héraðsflakk og fundið sér kellu - í Brúará og lagt til erfðaefni í marga vel gerða sjóbirtinga. Og hann hefur orðið elstur og vitrastur allra sjóbirtinga, svona 25-35 pund. En að öllu gamni slepptu, Sigurður Pálsson er einn af merkustu fluguhönnuðum landsins. Hann hefur fært okkur nokkrar af mögnuðustu flugum sem hnýttar hafa verið og nú birtast þær í gullfallegri bók sem hann ætlar að kynna fyrir okkur. Að lokum læt ég til gamans fylgja lýsingu Sigurðar á tveimur af þekktustu flugunum hans Flæðarmús og Varða.


Pálmi Gunnarsson
Flæðarmús höfundur: Sigurður Pálsson

Flæðarmús - veiðir alla fiska sem eru hér hjá okkur í fersku vatni og er öllu óhætt með hana. Menn þurfa að gæta þess að eiga margar stærðir 2 -10. og nota þær af skynsemi – þær stærri í miklu eða skoluðu vatni og síðan þær minni í litlu og tæru. Svona meginreglur eru góðar svo langt sem þær ná en verum ekki of bíblíufastir, breytum útaf stundum. Flæðarmúsina þarf að hnýta á straumflugöngul allt upp í 6. XL.
Uppskriftin er í bókinni hans Jóns Inga Veiðiflugur Íslands. Þar er hún rauð og svört. Svo er hún líka góð í Magenta lit eins og við reyndum í Fljótshverfinu forðum. Þetta er stundum ævintýrafluga það höfum við báðir reynt. Í sumar verða 16 ár síðan ég hnýtti þá fyrstu. Síðasti alvörufiskurinn sem tók hana hjá mér var upp á 8 svæði í Grenlæk í haust. Þú manst eftir stóra pyttinum neðan við hólmann. Ég kastaði á rennuna fyrir ofan pyttinn. Þarna tók ágætur fiskur en fór ekki nógu gætilega heldur stökk upp í loftið og missti fluguna útúr sér. Þar lauk því. Ég var þarna með Óskari þórarinssyni vini okkar frá Vestmnannaeyjum. Hann sá þetta.
Varði – blár/rauður höfundur: Sigurður Pálsson

Varði blár – var fyrst notaður norður á Ströndum ´92 eða ´93. Það voru tóm leiðindi – alltof mikið af sjóbleikju. Síðan hefur svipað gerst alloft en ekki alltaf. Laxinn tekur hana líka vel, nr. 14 og 16 eru eitraðar. Sjóbirting hef ég ekki veitt á hana en Stefán Jón hefur gert það. Það liggur í augum uppi að við gerum það líka fyrr en varir og þá tæplega nokkra smátitti a.m.k. ekki ég.
Ég trúi að rauða útgáfan af Varða sé ekkert síðri en sú bláa. Páll Stefánsson vinur minn og veiðifélagi byrjaði með þessa útgáfu. Þór Heiðarsson sem er líka vinur og veiðifélagi tók tólf punda lax á númer 14 í Steinbogafljóti í Haukadalsá og var léttstígur á eyrinni. Ég sá ekki nokkurt spor eftir hann á dálitlum sandbletti sem þarna var. Þór sagði mér í gær að laxinn hafi nú reyndar verið 10 pund en ég get ekki bakkað í þessu máli og þarf þess heldur ekki því ég hef siðferðilegan stuðning frá Sigmari Ingassyni sem lengi hefur verið vinur minn og veiðifélagi. Hann mæltist til þess að ég færi fremur sparlega með sannleikann í þessu skrifi.
Að endingu verð ég að geta um býsna stóran vanda sem getur fylgt notkun þessarar flugu. Það er aðgerðarkvíði sem getur legið þungt á manni í nokkra daga fyrir veiðiferð. Að þegja yfir þessu væri bara ekki heiðarlegt.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.