Fréttir

02 okt. 2008

Mikið vatn torveldar klakveiðar

Nú er árstími klakveiða í laxveiðiám landsins þar sem vænar hrygnur og boldungs hængar eru veiddir í net og öðlast hlutverk kynbótagripa í fiskeldisstöðvunum. Netaveiðar að undanförnu hafa ekki gengið vel af þeim sökum að árnar eru vatnsmiklar og erfitt að fanga fiskinn.

Þó er vitað að allar laxveiðiár eru fullar af fiski þrátt fyrir að veiðisumarið hafi verið eitt hið besta í sögunni. “Við höfum stundað þennan veiðiskap í nokkur ár til að ná fiski í klak fyrir árnar. Við fengum reyndar ágæta veiði þrátt fyrir erfiðar aðstæður í veiðiskapnum,” sagði Jón Ólafsson einn af leigutökum Þverár og Kjararár í Borgarfirði í samtali við Skessuhorn. Ljósmyndari slóst í hópinn fyrr í vikunni þegar klakveitt var í Þverá og Litlu-Þverá.Hörkutól voru komin frá fiskeldisstöðinni á Laxeyri til að ná í fiskinn og hjálpa til við veiðiskapinn, einnig bændur úr sveitinni. “Við hefjum veiðiskapinn í Þverá en þar er nóg af fiski. Aðstæður eru erfiðar en við fengum þokkalega laxa. Við gerum þetta þannig að við förum á nokkra veiðistaði og söfnum bæði hrygnum og hængum. Hér í Þverá fengum við reyndar talsvert af fallegum sjóbirtingi í netin,” sagði Jón Guðjónsson stöðvarstjóri á Laxeyri. Starfsmenn Laxeyrarstöðvarinnar fara víða til að ná í fisk á hverju ári, líklega í einar 30 veiðiár. “Það hefur gengið erfiðlega að ná fiskinum það sem af er hausti, árnar eru mjög vatnsmiklar og erfitt að eiga við veiðiskapinn, en aðstæður batna um leið og dregur úr úrkomu,” sagði Jón Guðjónsson.

Tekið af visir.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.