Fréttir

22 sep. 2008

Veiðisaga úr Hólmafossi í Stóru- Laxá sv. 4

Það var um miðjan ágúst að ég vaknaði á miðvikudegi með veiðisting í maganum. Ég var að fara í tveggja daga túr upp í Stóru Laxá svæði 4. Þetta var í annað skipti um sumarið sem ég fór á svæðið.

Það hafði verið gaman eins og alltaf í fyrra skiptið þó að veiðin hafi nú svo sem ekki verið merkileg. En það vill nú stundum vera þannig þegar maður reynir að egna fyrir laxinn í Stóru.

Við komum í blíðskaparveðri og hittum góðan hóp manna í skálanum og fengum okkur hressingu. Eftir nokkrar hressingar var farið í háttinn og tugir laxa veiddir í svefni eins og alltaf á sumrin.

Við höfðum dregið svæði 3, það er frá Hólmsfossi og niður að Flatabúð. Fínt veiðisvæði og óvenjulega lítið labb miðað við það sem á að venjast þarna uppfrá. Það hentaði okkur vel þar sem við höfðum verið mjög hressir um kvöldið. Við byrjuðum í Hólmsfossi svona til málamynda. Við notum afar sjaldan maðk, en ég vil nú taka það fram að við höfum ekkert á móti honum, við erum bara svo skelfilega lélegir að veiða á hann að við gætum alveg eins beitt blómum, sem við höfum nú reyndar gert en það er nú önnur saga.

Þar sem að ég er eftirbátur veiðifélaga míns sem ég er alltaf með á stöng þá fæ ég vanalega að byrja, sem gerir það náttúrulega ennþá meira óþolandi þegar hann nær í fisk á staðnum sem ég tel mig vera búin að fullreyna, en svona er þetta með veiðina sumir eru einfaldlega veiðnari(heppnari) en aðrir. Ég opnaði fluguboxið og kíkti á gripina. Þar sem maður hefur nú farið ansi oft upp í Stóru-Laxá þá veit maður að tommur og hálftommur eru yfirleitt það sem blífur þarna uppfrá en ég leit í boxið og staldraði við hjá Kröflu, stærð 12, ekki hentugt val í hvítfryssið en ég lét mig hafa það. Kastaði flugunni upp í fossinn til þess að ná að kafsigla henni niður í dýpið. Og hvað haldiði, flugan er gersamlega nelgt. Ég missi næstum stöngina og þvílíkur kraftur. Veiðifélaginn hoppar og skoppar, þetta er rosalegt, stöngin kengbogin og ég segi eins og fagmaður að þessi er örugglega yfir 20pund, ekki það að ég hafi haft nokkra hugmynd um það, enda aldrei fengið slíkan lax, vakandi allavega.

Ég tek fast á honum, eða eins og ég þori og nú fara efasemdirnar að leita upp í hugann, hversu góður var þessi taumur, hversu vel er línan splæst saman, þolir stöngin þetta? Hvað get ég gert ef hann fer af stað? Við félagarnir bjuggum til plan, hvert skyldi hlaupa, hvað skyldi gera ef hann færi af stað. En allt kom fyrir ekki, hann hreyfði sig ekki, bara rétt svamlaði fram og til baka.

Þegar leið á viðureignina rifjaðist upp fyrir mér veiðisaga sem hafði hent einn veiðifélagann fyrir nokkrum árum á nákvæmlega sama stað. Hann henti reyndar rauðum Frances upp í fossinn og flugan var nelgd. Hann var með hann í 1 og hálfan tíma áður en hann tók á rás niður ána og hann sleit úr honum þegar hann þorði ekki að fara undir tré eitt sem er þarna fyrir neðan klaufina. Tré sem margir hafa séð. Ég mat ástandið, horfði á tréið úr fjarska, ég ætlaði nú aldeilis að láta mig vaða undir tréð ef ég myndi lenda í þeim aðstæðum, ég hugsa að ég myndi láta mig vaða í ána ef ég myndi þannig ná að landa 20 punda fiski.Tíminn leið og myndir voru teknar í tugatali. Ég leyfði félaganum að taka í, leyfa honum að finna hvernig væri að vera með svona fisk á, hann dauðöfundaði mig. Rúmur klukkutími var liðinn og fiskurinn hafði ekki hreyft sig neitt að viti. Ég ákvað að núna væri komin tími til að gera eitthvað í málunum, enda var hendin hreinlega að detta af mér. Hugurinn reikaði og fletti í gegnum greinar í Veiðimanninum þar sem menn sögðu hetjusögur af sér og stórfiskum og hvernig þeir báru sig að. Grýta hylinn, það var svarið, þannig myndi ég fá hann á hreyfingu, það hafði ég lesið einhverstaðar. Ég hreinlega skipa félaganum að henda steini í fossinn, byrja smátt og sjá hvað gerðist. Ekkert gerðist, stærri stein takk, og svo stærri steinn, ég tek fastar á laxinum og viti menn hann fer á hreyfingu en upp ána. Hann stefnir á fossinn ég tek fastar á honum, ég hafði aldrei heyrt um að lax stykki upp foss með fluguna fasta á kjaftinum, hvað var að gerast? Þar að auki leist mér ekki á vígstöðu mína ef hann myndi fara upp fossinn því þar er djúpur og hægur pyttur sem endar í þverhníptu bergi sitthvoru megin við ána og ekki nokkur leið að gera neitt nema að synda á eftir honum og þar sem ég er maður þá áleit ég mig ekki eiga neinn möguleika á að vinna laxinn í sundkeppni.

En hvað gat ég gert? Ég tek fastar en áfram stefnir laxinn upp ána og er alveg kominn við fossinn, ég gef þá smá slaka og fiskurinn gefur eftir og fer til baka. Ég tek síðan á honum í seinasta skiptið og fiskurinn fer alveg upp fossinn, þangað til að ég fæ fluguna í andlitið. Þá var blótað og blótað, öskrað og öskrað. Eftir að ég áttaði mig á hlutunum, áttaði ég mig á því að ég hafði verið að glíma við vatnið allan tíman. Fiskurinn var engin fiskur, fiskurinn hafði verið línan sem hafði verið í gríðarmiklum straumi og þar af leiðandi alltaf þegar ég gaf eftir þá fór línan niður ána og þegar ég var ákveðin í að taka almennilega á honum þá endaði það með því að ég tók alla línuna úr áni og flugan losnaði.

Ég get ekki sagt að ég hafi hlegið dátt og ekki veiðifélaginn sem hefur verið að leiðbeina mönnum í Norðurá og sagðist aldrei hafa tekið á öðrum eins laxi. Hugurinn reikaði í átt að myndavélinni og öllum bjánamyndunum sem voru til af mér í glímu við strauminn, skælbrosandi með þumalinn upp. Ég ætlaði nú aldeilis að næla mér í filmuna og týna henni. Nú voru góð ráð dýr, myndi ég segja einhverjum frá þessu? Við ræddum þetta fram og tilbaka og ákváðum loks að af þessu myndi enginn frétta, og aftur reikaði hugurinn, en þá til veiðfélagans sem hafði lent í alveg þessu sama en hann átti að hafa misst hann af því að hann gat ekki farið undir smá hríslu og þessi maður er veiðigráðugur með meiru. Gæti verið möguleiki að hann hafi lent í því nákvæmlega sama en ákveðið að ljúgja því að hann hefði séð laxinn og hann var víst næstum 30 pund? Ég leyfi ykkur að ákveða hvort þið trúið honum eða ekki, ég geri það allavega ekki lengur.

Tekið af agn.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.