Fréttir

17 sep. 2008

Eitt og annað um sleppta laxa og merkta

Menn spá ævinlega og spekúlera í sleppingum á löxum, tilganginn með því, árangurinn og endurveiði osfrv. Hér eru nokkur nýleg sýnishorn af því hvað gerst getur. Og kennir margra grasa.

Fyrst er að nefna, að í sumar veiddist lax í Skjálfandafljóti sem var með merki í bakinu. Merkið var úr Svalbarðsá, en leigutakar þar hafa gert nokkuð af því að merkja laxa til að fyljgast með ferðum þeirra og meta endurveiðihlutfall slepptra laxa. Það átti eftir að skoða merkið nákvæmlega þegar við heyrðum af þessu, en flest benti til að merkið væri síðan í fyrra. Laxinn var sem sagt í Þistilfirði í fyrra en í Skjálfanda í ár.

Þá er saga sögð af því að Lárus Gunnsteinsson var með kvennaholl í Svalbarðsá, leiðsagði og eldaði ofan í fljóðin. A.m.k. ein í hópnum hafði ekki veitt lax áður og einbeitti Lárus sér því sérstaklega að henni í þeirri von að stóra stundin rynni upp. Og það gerði hún. Loks setti hún í lax og á meðan laxinn var þreyttur spannst umræða um hvernig veiðiuggaathöfnin yrði, en konan hafði auðvitað heyrt af því að siður væri að bíta veiðiuggann af og þótti henni ekki við hæfi slíkar aðfarir við lax sem átti að sleppa aftur, en öllum laxi er sleppt í Svalbarðsá. Blessuð, þú bara bítur aðeins í uggann og sleppir svo, sagði Lárus og síðan var laxinum landað. Kom þá í ljós að tannaförn voru á ugganum! Einhver hafði orðið fyrri til að veiða sinn Maríulax, þennan sama lax og einmitt bara bitið í uggann!

Loks er hér saga sem segir nokkuð um líffseiglu laxa. Almennt er talið að lax sem blæðir sé dauðadæmdur og í V-S ám er slíkum löxum iðulega lógað frekar en að láta þá sökkva dauða til botns, engum til gagns. En í Eyrarhyl í Svalbarðsá veiddist í lok júlí vænn lax sem blæddi mjög úr. Töldu veiðimaður og leiðsögumaður hans að hann væri dauðans matur, en þar sem veiðimaðurinn er mjög hlynntur V-S þá lét hann laxinn njóta vafans og synti hann dasaður út í hylinn aftur með blóðrákina á eftir sér. Áður var laxinn merktur, bara til vonar og vara. 1.september veiddist þessi lax aftur og að þessu sinni í Laxahyl, sem er ofarlega í gljúfrum Svalbarðsár og þar með einn efsti veiðistaður árinnar! Var laxinn stáli sleginn og hinn erfiðasti viðureignar. Að sjálfsögðu var honum sleppt á ný og enn er möguleiki á því að hann veiðist, því nokkrir dagar lifa veiðitímans. Þessi saga rifjar upp aðra sögu sem fyrrnefndur Lárus Gunnsteinsson sagði okkur eitt sinn. Hann var í Hölkná í Þistilfirði og setti í og landaði 12 punda hrygnu. Hann þrykkti merki í bakuggann á henni og veiddi hana aftur næsta dag, talsvert ofar í ánni. Síðan fréttist ekkert af hrygnunni fyrr en á lokadegi vertíðarinnar, að hún kokgleypti maðk í efsta hyl árinnar og lauk hennar ævi þar.

Merktri hrygnu sleppt í Laxá í Aðaldal. Mynd Arthúr Bogason.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.