Fréttir

29 ágú. 2008

Vikuskammtur Þorsteins: Enn mok í Rangánum og það munar um vætuna

Vikuskammturinn frá Þorsteini á Skálpastöðum er kominn í hús og hann gefur að vanda fínar vísbendingar um það hvernig staðar er og jafnvel við hverju má búast á næstunni í einhverjum tilfellum.

Aftur á móti hljóta að vera einhverjar skekkjur þarna, t.d. kaupum við það ekki að vikuveiðin í Laxá í Dölum hafi verið 4 laxar! En annars, Ytri Rangá heldur áfram á glórulausum spretti sínum og veiði er líka fantagóð í Eystri þó að vikuskammturinn hafi verið hálfdrættingur á við Ytri Rangá. En kíkjum á eitt og annað?.

Vikan í Ytri Rangá gaf 1.259 laxa og er það í annað skiptið í röð sem vikuveiðin þar fer yfir þúsund laxa. Við erum í raun að tala um langt yfir þúsund. Heildarveiðin er komin í 7.250 laxa!!! Í fyrra gaf áin 6.377 laxa alla vertíðina sem var met fyrir hana.

Eystri Rangá gaf 672 laxa samkvæmt Þorsteini og heildarveiðin var þá komin í 5.040 laxa sem er frábær veiði. Eystri var efst í fyrra með metveiði, 7.497 laxa og það er alveg raunhæft að áin rjúfi það met í sumar, því enn er drjúgur veiðitími eftir.

En að “hinum ánum”. Norðurá tók vel við sér við það aðf á góða vætuslettu og vikuskammturinn fór þar í 195 laxa og áin færðist þá upp í 2.848 laxa. Það er ekki hvað síst veiðin á dalnum sem hefur tekið kipp, en í vatnsleysinu var það svæði ansi dapurt.

Þverá/Kjarrá gaf 151 lax yfir vikuna og fór í 2.389 laxa. Þetta eru flottar tölur úr Norðurá og Þverá/Kjarrá og Norðurá er komin með um 1200 löxum meira en allt síðasta tímabil.

Langá hefur rokið uppúr öllu valdi og má þakka bæði regni og maðki. Vikuveiðin var 420 laxar sem er hæsta vikuveiðin utan Rangárþings. Áin var með 2.170 laxa í gærkvöldi, en gaf 1.456 í fyrra. Allur september eftir og fullt af laxi.

Grímsá heldur og sínu striki og þarf ekki maðkaopnun til. Vikan þar gaf 187 laxa og áin hafði þá gefið 1.680 laxa. Allt síðasta sumar veiddust þar 1.110 laxar, en núna stefna men á ríflega 2.000 stykki.

Haffjarðará er í sjöunda sæti, en þar hefur verið ævintýri í prósess. Metveiði úr ánni var um 1.300 laxar þannig að áin er búin að sprengja það fyrir löngu og er veitt talsvert fram eftir September. Áin er komin í 1.605 laxa eftir 160 laxa viku.

Selá í Vopnafirði er í góðum gír og gaf vikan þar 127 laxa og var áin þá komin í 1.540 laxa. Spurnin ghvort hún nær tölu síðasta árs, sem var 2.227 laxar.

Elliðaárnar eru alltaf inni á top tíu listanum og eru þar enn með 1.326 laxa. Þar er þó farið að fjara undan aflabrögðum því vikan gaf aðeins 53 laxa og það er aðeins veitt út mánuðinn. Það er því ekki víst að talan þarna hækki verulega héðan af.

Í tíunda sætinu er Miðfjarðará sem hefur hakldið furðu góðum dampi þrátt fyrir vatnsleysi. Vikan gaf 95 laxa og áin fór þar með í 1.185 laxa sem er um 50 löxum meira en allt síðasta sumar.

Næst á lista Þorsteins er Laxá í Dölum, en við teljum einsýnt að þar hafi einhver skekkja verið sett inn því hann segir ána komna í 1.093 laxa eftir 4 laxa viku? Það stenst varla. Hins vegar má sjá á tölum frá Þorsteini að Laxá í Leirársveit hefur tekið vel við sér og hefur gefið 1.016 laxa eftir 155 laxa viku. Eflaust má þakka vætunni þá veiðihrotu.

Þá eru fáeinar ár sem nefna má til viðbótar. Hítará er t.d. ekki á lista Þorsteins en hún er komin yfir 1.000 laxa sem er stórkostlegt met. Samkvæmt lista Þorsteins þá er Blanda bara stop á 970 löxum og samkvæmt listanum veiddist ekki einn einasti lax þar síðustu vikuna, en telja verður þó líklegt að enn eigi eftir að veiðast nokkuð á efri svæðum árinnar þegar kólnar með haustinu og vatnið hreinast eitthvað.

Þá er drottinging Laxá í Aðaldal enn á góðri siglingu og komin með 958 laxa eftir 102 laxa viku og gaman að sjá líka að Laxá í Kjós hefur mjakað sér nær þúsund laxa markinu og stendur nú í 945 löxum eftir 70 laxa viku. Laxá í Kjós er veiðimönnum nokkur höfuðverkur, því fiskimagnið í henni endurspeglar engan vegin veiðitölurnar, en fiskur hrúgast svo mjög á miðsvæðin að til vandræða er þegar vatn þverr. Þetta ætti þó að breytast á næstu dögum og vikum. Ætli við sjáum ekki Laxá með ca 1.200 laxa í vertíðarlok, en í fyrra veiddust þar aðeins 803 laxar.

Annars, að vanda bendum við lesendum okkar á að sækja sér enn meiri fróðleik á www.angling.is sem hefur að geyma samantektir Þorsteins úr 25 völdum ám um land allt.

Allar myndir teknar af Heimi Óskarssyni.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

 

 

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.