Fréttir

25 ágú. 2008

Ævintýri í Hofsá

Í veftímaritinu Flugufréttum 22. ágúst er greint frá skemmtilegri veiðiferð í Hofsá í Skagafirði sem SVAK er með á leigu. Bleikjan er svo sannarlega mætt á staðinn en hefur bunkað sig á fáum stöðum ofarlega í Runukvísl og þarf talsvert að hafa fyrir henni. Nú þegar kólnar má hins vegar búast við að veiðin glæðist í Hofsá sjálfri þar sem eru að sögn margir afar fallegir veiðistaðir.

Í frásögn Flugufrétta segir meðal annars:

"Við félagarnir voru heppnir með veður þótt hlýindin og sólbráðin á jöklum hafi gert það að verkum að Hofsá væri óveiðandi. Það var lygnt, hér um bil heiðskírt og hitastigið um 16 gráður. Ég fann það smám saman á göngunni upp með Runukvísl hvernig bakpokinn seig meir og meir í, hvernig fæturnir urðu deigari og hvernig svitinn spratt fram á bringunni undir opinni flíspeysunni. Líklega hafði ég gengið í um klukkustund þegar hvít bunan í Runufossi sást álengdar, talsvert upp með ánni. Nú varð ekki aftur snúið.

Þegar upp var komið settist ég á gljúfurbarminn yfir fossinum og virti fyrir mér fegurðina. Hér ríkti algjör kyrrð, fyrir utan stöðugan og þægilegan niðinn í fossinum, og það var líkt og enginn hefði hingað komið um langt árabil. Þetta er hið ósnortna Ísland!

Ég fetaði mig aftur ofurlítið niður með ánni og byrjaði að veiða fallega kvörn og breiðu sem er fyrir neðan hana. Og það var ekki að sökum að spyrja: Myndarleg sjóbleikja, um eitt og hálft pund, tók Krókinn í fyrsta kasti."

Birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra Flugufrétta.

Hlýindin framan af ágústmánuði hafa gert það að verkum að Hofsáin sjálf hefur verið nánast óveiðandi en nú fer að kólna og þá aukast möguleikar veiðimanna á þessum slóðum.

Talsvert er af lausum veiðileyfum í Hofsá í september og er um að gera að tryggja sér daga á meðan þeir liggja enn á lausu. Smellið HÉR til að skoða úrvalið. Á myndinni hér til hægri má sjá prýðilegt veiðihús SVAK við ána og heita pottinn sem fáeinir félagsmenn steyptu í vor sem leið.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.