Fréttir

07 ágú. 2008

Þungir fiskar sem er sleppt?

Fyrrum stjórnarmaður í SVAK sendi okkur þessa hugleiðingu um samband lengdar og þyngdar laxa í framhaldi af fréttum af óvenjuvænum löxum sem koma á land og/eða er var sleppt"

Ágætu veiðimenn.
Við lestur frétta á veiði-vefmiðlum, í sumar og af stórveiði um allt land hlýnar manni óneitanlega um hjartaræturnar og eftirvæntingin fyrir veiðitúra sumarsins fer upp úr öllu valdi. Ekki nóg með að allar ár séu að fyllast af fiski heldur eru þeir líka stærri og þyngri heldur en þeir hafa verið undanfarin ár. Frábært!
Nú þegar herjað hefur verið á landann undanfarin misseri með að sleppa öllum stórlaxi og í sumum tilfellum að sleppa öllum laxi, hefur nýtt "auka-vandamál" gert heldur betur vart við sig, sérstaklega nú í sumar þegar stærri fiskar eru að veiðast en undanfarin ár.
Fyrsta vandamálið sem menn reiknuðu með að sjá með auknum sleppingum var það að veiðitölur myndu hækka, þ.e. fleiri fiskar eru skráðir í bækurnar af því þeim er sleppt og fáir eða enginn til vitnis um hvort fiskurinn yfirhöfuð náðist eða ekki. Látum það liggja milli hluta.
Hvað er þá hitt vandamálið?
Jú, það að þyngdarmeta laxa sem hefur verið sleppt, út frá mældri lengd.
Eftir lestur laxa-frétta undanfarnar vikur get ég bara ekki lengur orða bundist vegna frétta af "meintum" 20-pundurum út um allt.
Ég veit það er eðli veiðimanna að "þyngja" fiskana sína þegar um er talað, en því miður fyrir málglaða, ef lengdin er mæld er þyngdin vituð líka með ÖRLITLUM skekkjumörkum.
Þetta vita alveg örugglega fæstir veiðimenn miðað við þær þær þyngdir sem upp eru gefna á slepptum löxum.

Til er aðferð við að reikna út svokallaðann ástandsstuðul fisks út frá lengd og þyngd eða svokallaður "Fulton's condition factor (k)". Á sama hátt er hægt að reikna út þyngd fisks ef ástandsstuðllinn og lengd eru þekktar stærðir. Það vill nú þannig til að "prime example" af villtum Atlantshafs-laxi hefur ástandsstuðulinn 1,0 þannig að dæmið verður ekki mjög flókið fyrir vikið. Jafna Fulton´s er svona k = þyngd (gr) / lengd^3 (cm) x 100.
Eða fyrir villtan íslenskan nýgengin óblóðgaðan lax;
Þyngd (gr) = Lengd^3(cm) /100 , eða lengdin í þriðja veldi deilt með 100.........og málið er dautt.
(Ath. ekki er hægt að yfirfæra þetta beint á silung, hér er eingöngu verið að tala um lax.)

Ég setti saman smá töflu þar sem þyngd er reiknuð út frá lengd m.v. k-factor = 1,0, og svona til að hafa einhver vikmörk reiknaði ég líka fyrir k(min)=0,95 (mjóslegin lax) og k(max)=1,07 (hnöttóttur fiskur).
Ég tók út úr stóru töflunni (sem vonandi verður birt líka) nokkra þekktar "laxa stærðir" bara til að menn í fljótheitum geti áttað sig á málinu.


Eins og sést á þessari litlu töflu er;

* 63 cm langur fiskur að öllum líkindum um 2,5 kg (5 pund).
* 67 cm langur fiskur að öllum líkindum 3,0 kg (6 pund)
* 80 cm langur fiskur rétt rúm 5 kg
* 100 cm langur fiskur er að öllum líkindum 10 kg (20 pund)

Til gamans lét ég fylgja með ensku pundin, en í dag tala ég persónulega um 1 pund = 500 gr, eða 80 cm fiskur, er 10 pund.
Mér finnst t.d. ekki hægt að tala um "20 pundara" (samkvæmt ensku voginni) sem er einungis 9,06 kg .

Ef vefmiðlar birta stóru töfluna mína má sjá útreiknaða þyngd á laxi sentimeter fyrir sentimeter frá 60 cm lengd að 115 cm lengd, auk smá auka upplýsinga.
Einnig má sjá graf sem sýnir á hvaða þyngdarbili X-langur fiskur getur verið.


Það er gaman að skoða það að munurinn á þyngd á t.d. 80 cm löngum fiskum með ástandstuðla annars vega 1,0 og hinsvegar 1,07 er einungis 358 gr.
M.ö.o. það er ekki einu sinni hægt að "ljúga" til um pundið á 80 cm fiski. Hann er bara á bilinu 5.120 - 5.480 gr. í allra mesta lagi. Persónulega hef ég aldrei séð villtan lax sem er með k-stuðul hærri en 1,06. Sá fiskur var úr Þistilfirðinum, stóð full 10 kg og var 98 cm.
Máli mínu til stuðnings veiddi ég geysilega fallegan 82 cm fisk í Blöndu í sumar, hann vó 5,5 kg skv. digital vog, en það er nákvæmlega á pari við ástandsskala Fulton's þar sem k = 1,0. "Blöndungarnir" hafa nú hingað til verið taldir ansi hreint samanreknir og þykkir. Einnig hef ég tölur frá leiðsögumönnum við nokkrar helstu laxveiðiár landsins til að renna stoðum undir þessa kenningu mína. Ástandsstuðull nýgenginna lúsugra laxa fyrir norðan og sunnan í ár er samkvæmt nákvæmum "stikk-prufumælingum" alveg í og við 1,0 og stundum 0,99.Ef bornar eru saman fréttir af stórum löxum undanfarna daga (90 cm +) og sú þyngd sem á þá var skráð við skala Fultons, sést að langflestir þessara laxa eru ofmetnir um heilu kílóin og útreiknaður ástandsstuðull þeirra upp í 1,25.
Ég dreg það stórlega í efa svo ekki sá fastar að orði kveðið. Ef þetta á hinsvegar við rök að styðjast er hér um að ræða alger sértilfelli sem mér vitanlega eiga sér engin fordæmi.
Ef fiskurinn þinn nær ekki 97 cm á lengd (frá trýni aftur í miðjan sporð) þá eru nánast engar líkur á því að þú hafir náð í 20 punda klúbbinn (10 kg), ef þú ert að veiða íslenskan lax.
Svoleiðis fiskar eru meira að segja algerar undantekningar og því bara gott að miða við 100 cm = 10 kg til að vera viss.
Þyngd laxa hrapar hratt þegar í ána er komið og það er alls ekki öruggt að legin 100 cm fiskur sé 10 kg.


Ég óska ykkur öllum góðs veiðisumars með von um að þessar upplýsingar geti aðstoðað veiðimenn í framtíðinni við að þyngdarmeta sína slepptu fiska betur.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur, veiðimaður, fyrrverandi laxeldismaður og félagi í SVFR.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.