Fréttir

31 júl. 2008

Vilja ræða efnistöku úr Eyjafjarðará

Fyrir réttri viku birtist í Vikudegi viðtal við Erlend Steinar, formann SVAK, þar sem hann fer hörðum orðum um malarnám og alla almenna umgengni yfirvalda um Eyjafjarðará. Nú berast fregnir af því að umhverfisnefnd Akureyrarbæjar vilji ræða efnistökuna við sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar.

Í frétt á www.vikudagur.is segir orðrétt:

"Halldór Pétursson sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun mætti á fund umhverfisnefndar Akureyrar fyrir helgi og fór yfir niðurstöður skoðunar sinnar á landbroti á bakka vestustu kvíslar Eyjafjarðarár.

Í bókun umhverfisnefndar kemur fram að ekki virðist vera ástæða til aðgerða nú en fylgst verður vel með framgangi rofsins. Nauðsynlegt er að taka upp viðræður við Eyjafjarðarsveit um efnistöku úr Eyjafjarðará og var forstöðumanni umhverfismála falið að boða sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar á næsta fund nefndarinnar."

Viðtalið við Erlend Steinar sem birtist í Vikudegi 24. júlí er svohljóðandi:

Mokum upp vítateiginn!

Norðlenskum veiðimönnum er mörgum hverjum heitt í hamsi, gramt í geði og þeir ná varla upp í nefið á sér fyrir reiði vegna þess hvernig skipulagsyfirvöld ganga um eina helstu perlu sjóbleikuveiðinnar á Íslandi, sjálfa Eyjafjarðará. Erlendur Steinar Friðriksson, formaður Stangaveiðifélags Akureyrar, segir að nú sé mál að linni: Um leið og lífsgæði sjóbleikjunnar í Eyjafjarðará séu fótum troðin, séu veiðimenn sviptir búsetutengdum lífsgæðum, vanvirtir með glórulausum framkvæmdum, skyndilausnum og náttúruspjöllum.

„Málið er til skammar frá A–Ö. Þetta er til skammar fyrir landeigendur, skipulagsyfirvöld, verktaka, sveitarfélögin og samfélagið eins og það leggur sig. Landsamband veiðifélaga og Landsamband stangaveiðifélaga þegja þunnu hljóði, samtök náttúruverndarsinna horfa í gegnum fingur sér – enginn virðist átta sig á því að þarna er hvað ofan í annað gengið með svívirðilegum hætti um eina fegurstu og bestu sjóbleikjuveiðiá landsins,“ sagði Erlendur Steinar í viðtali við Vikudag í gærkvöldi.

„Það er hlúð að ýmsum áhugamálum manna hér og þar. Það eru lagðir vellir fyrir kylfinga, byggð hús fyrir knattspyrnumenn, allt ætlar um koll að keyra ef heyrist á það minnst að færa íþróttavöll úr miðbænum – en þegar ein albesta sjóbleikjuá landsins, rétt við bæjarmörk Akureyrar, er grafin sundur og saman, hirt úr henni hrygningarmöl í massavís, þá heyrist ekki múkk og menn vilja frekar herða róðurinn en hitt.

Auðvitað er það þjóðþrifamál að lengja flugbrautina á Akureyri en hefði ekki mátt sækja vatnið yfir lækinn? Þurfti endilega að taka alla mölina meira og minna úr farvegi Eyjafjarðarár? Og hvað eru menn að gera uppi á 4. svæði árinnar þar sem búið er að rústa þeim fornfræga veiðistað Nesbreiðu og búa til eitthvert uppistöðulón sem er eins og rennblautt og blóðugt sár í árfarveginum? Hvers vegna má moka upp Mokinu á 5. svæði í skjóli sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar og skipulagsyfirvalda þar? Er mönnum algjörlega sama um hrygningu sjóbleikjunnar í ánni sem stundum hefur trónt á toppnum á lista yfir bestu sjóbleikjuveiðiár Íslands? Okkur er einfaldlega nóg boðið og okkur er stórlega misboðið.

Hvað myndu Þórsarar eða KA–menn segja ef þeir mættu til leiks einn góðan veðurdag og búið væri að moka upp vítateigana beggja vegna vallar? Og hvað myndu hestamenn segja ef það væri búið að fylla nýju reiðhöllina af grús? Ég hugsa að það myndi heyrast hljóð úr horni. Hér eru hundruð eða þúsundir manna sem hafa unun af stangaveiði og kunna að meta búsetutengd lífsgæði, svo vitnað sé til orða sem eru stjórnmálamönnum töm. Kannski ættu einhverjir úr sveitarstjórnum í Eyjafirði að horfa til þeirra atkvæða sem þarna kynnu að liggja á lausu ef gæfin væru skrifleg loforð um bætta umgengni við Eyjafjarðará og aðrar perlur við fjörðinn;“ sagði Erlendur Steinar, formaður Stangaveiðifélags Akureyrar.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.