Fréttir

20 júl. 2008

Ágæt bleikjuveiði í Eyjafjarðará

Ágæt bleikjuveiði hefur verið á efri svæðum Eyjafjarðarár að undanförnu.  Nóg af bleikju virðist vera á svæðum III og IV en lítið hefur verið veitt á svæðum I og II og má þar eflaust kenna um maðk og spónveiðibanni sem sett var á fyrir þetta sumar.  Hætt er við að margir fastakúnnar sem stunduðu maðk og spónveiðar í Eyjafjarðará hafi ákveðið að leita á önnur mið frekar en að laga sig að breyttum reglum og berast því litlar eða engar fréttir af þessum svæðum í dag.  Svæði I og II henta vel til allra veiðiaðferða en það má segja að auðveldara sé að leita að fiski með "buffinu og brotajárninu" þar sem áin er mjög víðfem og á tíðum djúp á þessum slóðum.  

 


Margir góðir staðir eru á þessum svæðum og má þar nefna Munkaþverárbreiðuna á svæði I sem hefur verið gríðarsterkur staður í sjóbirtingsveiði á haustin en einnig hefur veiðst vel þar af geldbleikju þegar líða tekur á sumarið. Einnig má nefna staði á borð við Þverárhyl, Kristnesbreiðu, Teigshyl og Sökkuskurð en í öllum þessum stöðum veiðist bæði bleikja og staðbundinn urriði. Á svæði II hefur Arnarhólshylur reynst happadrjúgur en það er margslunginn veiðistaður, geysi djúpur og á sumum stöðum straumþungur mjög. Stóra Hamarsbreiða er frábær veiðistaður sem hefur gefið vel af sjóbirtingi og einnig veiðist þar lax nánast á hverju einasta ári. Byssusteinsbreiða fyrir neðan bæinn Bringu er fallegur veiðistaður og einnig er falleg renna fyrir neðan bæinn Torfur. Veiðimenn eru hvattir til að spurja bændur til vegar niður að veiðistöðum þar sem við á þar sem bændur veita fúslega leyfi og gefa góð ráð en geta orðið hvumpnir ef ekið er yfir óslegin tún og akra sem von er.

Er undirritaður var á ferðinni upp með Eyjafjarðará á dögunum hitti hann fyrir veiðimennina Gunnar Gunnarsson og Edward Farmer sem voru við veiðar á svæði III. Þeir höfðu fyrr um morguninn veitt þó nokkurar bleikjur og eins hafði Edward sett í þennan 5-6 punda urriðahæng í óþekktum veiðistað fyrir ofan bogabrúnna á svæðamörkum III og IV. Urriðinn tók ónefnda tvíkrækju sem undirrituðum fannst einna helst líkjast Collie Dog. Allri bleikju var sleppt eins og lög gera ráð fyrir og því eru engar myndir af þeim feng. Veiðimennirnir voru hinir hressustu þrátt fyrir norðanhvassviðrið og ánægðir með veiði dagsins.
Ekki eru allir staðirnir í ánni jafn fallegir og sumir enn minna en aðrir.  Þetta ljóta lón á myndinni hér til vinstri myndaðist við gríðarlegt malarnám fyrir neðan hina rómuðu Nesbreiðu á svæði IV sem nú má teljast ónýt.  Ef vel er að gáð má sjá 2 veiðimenn út í miðju lóni en þar voru þeir Skjöldur Ármannson og Eiríkur Jónsson á ferð og veiddu þeir afar vel á svæði IV.  Undirritaður var svo við veiðar á þessu svæði síðastliðinn föstudag og fengust 14 bleikjur á bilinu 1-3 pund og allar á kúluhausa.  3 af þessum 14 bleikjum voru nýgengnar en hinar mismunandi legnar.  Bleikjurnar fengust á öllu svæðinu í hinum og þessum lænum en mikið líf var í "Ljótalóni" og eins í Arnarfellshyl.  Nóg af bleikju er á svæðinu og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu og eins opnun á hinu gríðarfallega svæði V sem mun verða opið fyrir hádegi út ágúst.

-JGB-

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.