Fréttir

20 júl. 2008

Tuttugu tuttugu-plús úr tíu ám

Í dag er 20.júlí og við á VoV forum allt í einu að velta fyrir okkur hversu marga 20plús laxa búið væri að landa á þessu óvenjulega stórlaxasumri. Það var einfaldlega erfitt að rifja þá alla upp án þess að fara í fréttasafnið, en okkur telst til að um tuttugu laxa sé að ræða úr alls tíu ám.

Miðað við hversu mikið er eftir af veiðitímanum þá er þessi tala með hreinum ólíkindum miðað við síðustu árin og ekki má gleyma, að mikill fjöldi 16 til 19 punda laxa hefur varla komist í féttirnar. Við ætlum sem snöggvast að rifja upp þessa tuttugu laxa og vonandi að við séum ekki að gleyma neinum.

Laxá í Aðaldal er komin með sex af þessum löxum, þar af hafa fimm veiðst á svæðum Nes og Árnes. Einn á svæði Laxárfélagsins. Hofsá og Breiðdalsá eru með fjóra hvor og er áhugavert í þessu að 96-97 cm laxar hafa verið að ná hinu eftirsótta 20 punda marki og vel það, því einn úr Breiðdalsá var “aðeins” 96 cm en var samt veginn 23,5 pund. Síðan hafa sex ár gefið einn slíkanlax hver. Það eru Vatnsdalsá 24 punda 104 cm, Blanda einn drepinn og veginn rúmlega 21 pund, Fnjóská meterslangan ca 20 punda, Eystri Rangá 103 cm, rúmlega 21 pund, Kjarrá 102 cm og Selá í Vopnafirði 102 cm, áætlaðan eitthvað, kannski 22 pund. Það er laxinn sem myndin er af. Ekki kannski besta myndin, enda tekin á gsm símamyndavél í roki af veiðimanni sjálfum sem þurfti að halda laxinum með annarri og mynda hann með hinni! En það leynir sér ekki á myndinni hvers konar tröll þetta er, nóg að líta á styrtluna.

Ef við erum að gleyma einhverju, þá endilega senda okkur póst á ritstjorn@votnogveidi.is þannig að við getum leiðrétt okkur. Svo er eins víst að það bætist drellar í safnið strax um þessa helgi og þá verður þessi samtíningur úreltur.

Mynd: Risalax Arthurs Bogasonar úr Selá á dögunum. Hann mældi fiskinn 102 cm og náði þessar mynd af honum á gsm-myndavélina sína um það bil sem hann sleppti honum.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.