Fréttir

11 júl. 2008

Veiðifréttir af Norðurlandi

Veiði virðist á ágætu róli á Norðurlandinu um þessar mundir. Tíðindamaður SVAK fór á stúfana eftir veiðifréttum nú í morgun og varð ýmsu vísari.  Hörður kokkur í veiðiheimilinu Hofi í Mývatnssveit tjáði undirrituðum að um 1800 urriðar hefðu verið færðir til bókar í Mývatnssveitinni og sá stærsti sem kominn væri á land er 4,5 kílóa drellir úr "Elliheimilinu" í Geirastaðaskurði.

Talsvert færri fiskar hafa verið skráðir í veiðibók í Laxárdal eða u.þ.b. 575 stykki og er sá stærsti 2,8 kíló að sögn Jónínu í Veiðiheimilinu Rauðhólum. Lítil sem engin fluga er á sveimi í Laxárdal og hefur lítið sést af henni í sumar sem er áhyggjuefni þó margur veiðimaðurinn sé eflaust hálffeginn að losna við bitvarginn.

Fnjóská er á ágætu róli og hafa 50 laxar verið færðir til bókar og 116 bleikjur. Stærsti laxinn sem komið hefur upp úr ánni var 8,1 kílóa flykki sem veiddist á smáa Rauða Frances túbu á svæði IV. Stærsta bleikja sem komin er á land í sumar var 3.1 kíló og veiddist hún á svæði III á kúluhaus.

Aðeins 27 silungar hafa verið skráðir í veiðibók Víðidalsár en 123 laxar eru komnir á land og vó sá stærsti 7,5 kíló. Sá stóri gein við flugunni Haugur að sögn "managersins" í Veiðiheimili Víðidalsár.

Enginn bleikja hefur verið færð til bókar í Eyjafjarðará enn sem komið er en þremur veiðikortum hefur verið skilað inn til starfsmanna Ellingsen en sökum anna hefur þeim ekki gefist tími til að opna umslögin að sögn Árna í Ellingssen. Það má því gera á því skónna að afar fáir fiskar séu komnir á land úr Eyjafjarðará það sem af er sumri og nokkuð ljóst að það hefur enginn bleikja veiðst í sumar á borð við þá sem Haraldur Ólafsson Uppstoppari heldur á á myndinni sem fylgir þessari frétt en hún vó 4,6 kíló og veiddist á svæði V árið 2001 af undirrrituðum á klassískann vínilryb kúluhaus á Jökulbreiðu.

Veiðitöluhnappurinn í dálknum til vinstri hefur verið uppfærður og mun verða leitast við að uppfæra hann á hverjum föstudegi í sumar.

Með veiðikveðjum,

Jón Gunnar Benjamínsson
-JGB-

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.