Fréttir

25 jún. 2008

Víðidalsá og Miðfjarðará: Góð byrjun og talsvert af laxi

Miðfjarðará og Víðidalsá voru opnaðar á síðdegisvaktinni í gær og seint í gærkvöldi slógum við á þráðinn til að afla frétta.

 

Í ljós kom að þær frænkur opnuðu alveg í stíl við flestar aðrar ár nú í byrjun sumars, þ.e.a.s. víða var lax og líf og menn ánægðir með gang mála. 9 komu úr Miðfjarðará og 3 úr Víðidalsá. Gamli nestorinn Rafn Hafnfjörð veiddi þann fyrsta í Víðidalsá, 15-16 punda hæng í Dalsárósi og var búinn að setja í hann innan fimm mínútna.

„Þetta var magnað, hann var varla byrjaður og þá var þessi flotti lax kominn í fluguna. Hann var með smátt undir, Haug númer 14. Þetta var hörkuviðureign enda laxinn stór og sprækur. Þetta reyndist vera 93 cm hængur, 15 til 16 punda bolti. Honum var að sjálfsögðu sleppt aftur. Við sáum síðan líf í hylnum og tylltum í fleiri, en meira var það ekki. Síðan veiddist lax í Ullarkvörn í Fitjá og þar sáust laxar sem og í Hestfljóti. Líkt og laxar sem hafa verið á Kersvæðinu að undanförnu hafi verið gengnir upp. Það voru fáir fiskar þar. Þriðji laxinn veiddist í Ármótunum. Þetta voru 10-12 punda fiskar. Síðan sáu menn fiska víða, en það var glampandi sól og erfið skilyrði,“ sagði Jóhann Hafnfjörð í samtali við VoV.

„Diddi gæd“ varð fyrir svörum í Laxahvammi við Miðfjarðará. Sagði hann menn hæst ánæga, enda hefðu veiðst níu laxar á fyrstu vaktinni. „Þetta voru allt fallegir 2 ára laxar utan einn smálax. Það hafa sést mjög vænir fiskar, en ekki veiðst enn sem komið er. Miðfjarðaráin og Vesturáin voru sterkastar, sérstaklega Hornpollur í Miðfjarðará, annars voru fiskar víða og talsvert af laxi. Þetta lofar sannarlega góðu,“ sagði Diddi.

Frá Kerinu í Fitjá. Mynd Stefán Sigurðsson.

Frétt tekin af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.