Fréttir

19 maí 2008

130 urriðar á tveimur dögum!

Það voru glaðbeittir veiðimenn sem héldu til veiða í Arnarvatnsá síðastliðin föstudag. Þetta er lítil og nett á sem kvíslast úr Laxá í Mývatnssveit rétt neðan við Fótarhólmann og rennur síðan í sveig fram hjá Arnarvatnsbæjunum, suður í gegnum túnin og sveigir svo til vestur.

Við Arnarvatn sameinast hún afrennsli vatnsins, rennnur til norðurs og nefnist eftir það Helluvatnsá. Áin sameinast svo Laxá að nýju rétt neðan við Helluvaðsbæina. Þessi litla á er oft svo stútfull af urriða að vandræði er að lenda ekki í fiski. En auðvitað er ekki alltaf svo og einnig eru aðstæður ekki alltaf með manni.

Það var mikið vatn í ánni og glaðasólskin þegar við mættum með stangirnar á bakkan. Ekki bestu aðstæður en eftir nokkur köst var greinilegt að nóg var af fiski, þó var ekki brjáluð taka en nóg samt, þegar leið á daginn dró fyrir sólu og þá byrjaði fjörið. Reyndum við fyrir ofan þjóðveg upp að stíflu og síðan fyrir neðan veg, þetta eru bestu staðirnir svona snemma og er oft ævintýranlega mikið af fiski í sumum hyljunum. Er vandleitað að á sem er eins góð að kenna fluguveiði, mikið af fiski og áin er nett og þægileg en gæta þarf þó þess að fara afar varlega að bökkum. Þarna er geysigaman að veiða með litlum púpu og þurrflugum, núna kom nánast allt saman á litla kúluhausa nr 14. Í fyrra á svipuðum tíma veiddum við miklu meira með þurrflugum en þá voru aðstæður betri til þess, núna var mikið vatn í ánni og hún köld og skoluð. Ekki var neitt teljandi klak og sáum við aðeins eina uppítöku. En þegar líður á sumarið og allt lífríkið er komið á fulla ferð, er frábært að læðast með bökkunum og veiða á þurrflugu.

Arnarvatnsá er tiltölulega auðlesin en gætið þó að öllum smástöðum sem láta kannski ekki mikið yfir sér, þar sem hún rennur flöt safnar hún sér við bakkana og liggur þá urriðin alveg uppvið landið. Einnig er mikið af fiski í hraða vatninu fyrir ofan veg og getur legið við hvern stein. En einn staður er ævinlega smekkfullur af fiski. Fyrir ofan veg kemur vatn undan hrauninu og þarna eru greinilega kjöraðstæður fyrir fiskinn, hef ég tekið eftir því að allstaðar þar sem þessar aðstæður eru liggja einnig oft stærstu fiskarnir.

Misstum við tvo stóra fiska inn í rennslið og réðum ekkert við neitt, slitu tauma á hrauni langt inn í undirgöngunum. Virtust þeir vita hvernig ætti að fara að þessu því þeir ruku inn í hraunið strax eftir tökuna og sörguðu línuna í sundur á hraunnibbu. Þetta voru stærstu fiskarnir sem við settum í.

En þetta var frábær skemmtun og enda eru ótrúlegar aflatölur eftir tvo fyrstu dagana, tæplega 130 urriðar skráðir!!

Hér má sjá myndband af kraumandi urriðapotti og annað af ÞB með fisk á

ÞB

 

Þess má geta að SVAK er með til sölu daga í Arnarvatnsá, sjá umjöllun um ánna hér og lausa daga hér

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.