Fréttir

12 maí 2008

Rætt við tvo um leigu á urriðasvæði Laxár

Ákveðið var á aðalfundi Veiðifélags Laxár og Krákár á laugardagskvöldið að fara í viðræður við tvo tilboðsgjafa um leigu á urriðasvæði Laxár í Mývatnssveit. Ekki verður rætt við Braga Blumenstein sem átti hæsta tilboðið upp á 285 milljónir króna þar sem lögmaður veiðifélagsins mat tilboðið ekki gilt.Togstreita á aðalfundi

Að sögn Jóns Benediktssonar, formanns Veiðifélags Laxár og Krákár, myndaðist ákveðin togstreita á aðalfundinum þar sem stjórnin áleit það ekki hagkvæmara að leigja svæðið út en að veiðifélagið sæi sjálft um reksturinn líkt og áður. Meirihluti aðalfundargesta var hins vegar á annarri skoðun og felldi tillöguna. Hann segist ekki líta á það sem vantraust á stjórn þar sem tillagan hafi ekki komið frá stjórninni og að sjálfsögðu muni stjórnin fara að vilja aðalfundar.

Jón vill ekki gefa upp við hverja tvo tilboðsgjafa verður rætt þar sem hann hafi ekki tilkynnt þeim um að samþykkt hafi verið að hefja viðræður við þá. Að sögn Jóns eru tilboðin bindandi til 3. júlí eða tveimur mánuðum eftir að þau voru opnuð. Það sé sá tími sem veiðifélagið hefur og tilboðsgjafar til að ganga frá samningi um leigu á svæðinu til fimm ára.

Hæsta tilboð í fimm ára leigu urriðasvæðis Laxár í Mývatnssveit var eins og áður sagði 285 milljónir króna frá Braga Blumenstein. Stangveiðifélag Akureyrar átti að vísu tvö hærri frávikstilboð, en Jón Benediktsson, formaður Veiðifélags Laxár og Krákár segir þau alls ekki sambærileg öðrum.

Tilboð sem bárust fyrir 5 ára leigu á svæðinu voru þessi:

Pétur K. Pétursson - 151.600.000

Pétur K. Pétursson - 234.080.000 - frávikstilboð

"Fyrirtækið" - 200.500.000

Stangveiðifélag Akureyrar 225.000.000

Orri Vigfússon - 250.522.725

Stangveiðifélag Reykjavíkur 253.000.000

H&S Ísland ehf. - 253.120.000

Bragi Blumenstein 285.000.000

Stangveiðifélag Akureyrar 325.000.000 - frávikstilboð A

Stangveiðifélag Akureyrar 330.000.000 - frávikstilboð B

Rekstur urriðasvæðisins var leigður út um tíma í kringum 1970, en Veiðifélag Laxár og Krákár hefur sjálft séð um rekstur svæðisins í þrjá áratugi. Spurður um ástæðu þess hvers vegna ákveðið var að bjóða rekstur svæðisins út á nýjan leik segir Jón Benediktsson, formaður félagsins, að félagsmenn hafi einfaldlega viljað kanna hvað út úr því kæmi.

Formaðurinn segir frávikstilboð Stangveiðifélags Akureyrar, sem voru þau tvö lang hæstu, alls ekki sambærileg öðrum vegna þess að í þeim hafi verið gert ráð fyrir mun fleiri veiðidögum en áður.

Tekið af mbl.is

Á næstunni verður kynnt frávikstilboð SVAK og að hvaða leiti þau voru frábrugðin öðrum tilboðum. 

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.