Fréttir

30 apr. 2008

Merkingar í Eyjafjarðará

Ákveðið hefur verið að einungis verði veitt & sleppt í Eyjafjarðará næsta sumar og viðamiklar rannsóknir verði gerðar á sjóbleikjustofni árinnar sem virðist hafa minnkað mjög. Merkingar á fiski eru hafnar og var gerður góður skurkur í þeim sumardaginn fyrsta. Þá lögðu félagar úr SVAK gjörva hönd á plóg og unnu að merkingunum undir stjórn Högna Harðarsonar.

Bleikjan virtist ekki vera komin niður í mjög miklum mæli, enn gæti verið um hálfur mánuður þar til allur fjöldinn hellist niður og til sjávar. Hins vegar ber á það að líta að líklega veiddust ekki fleiri en um 450 bleikjur í ánni síðasta sumar, heildaraflinn var ríflega 600 fiskar og mikið af því sjóbirtingur, og því er ef til vill ekki von á miklum gusum á niðurgöngu, stofninn er líklega orðinn miklu smærri en menn höfðu gert sér vonir um.

Eftir sumardaginn fyrsta höfðu samtals verið merktir 45 fiskar í Eyjafjarðará og þótt það sé ekki há tala þá er hún býsna góð ef við horfum til þess, sem áður hefur komið fram, að í fyrra veiddust um 450 bleikjur í ánni. Það gera um 10% þess afla.

 

Það voru 10 vaskir veiðimenn úr Stangaveiðifélagi Akureyrar sem aðstoðuðu Högna Harðarson við merkingarnar sumardaginn fyrsta. Menn höfðu af því nokkrar áhyggjur að umferðaröngþveiti yrði á Leiruveginum við Akureyri þegar sæist til hóps fluguveiðimanna að athafna sig þar sunnan vegar en öll veiði þar hefur verið stranglega bönnuð í áratugi, enda stöðvuðu margir bílstjórar á veginum og spurðu hvað þarna væri um að vera. Úr þessu varð þó engin veruleg umferðarteppa, líkt og vörubílstjórar standa gjarnan fyrir nú til dags, enda engu verið að mótmæla nema þá helst hnignun bleikjunnar.

 

Haldið verður áfram að merkja bleikjur úr Eyjafjarðará næstu vikur og síðan er bara að bíða og sjá hvað merkingarnar og aðrir þættir rannsóknarinnar leiða í ljós. Mest er um vert að menn virði þær friðunaraðgerðir sem hafa verið settar í gang og geri allt til þess að bleikjustofninn í Eyjafjarðará nái að rétta úr kútnum.

Byggt á grein úr Flugufréttum.

- rhr

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.