Fréttir

21 apr. 2008

Hagur bleikjunnar á Hofsárkvöldi

,,Látið bleikjuna njóta vafans" eru heilræði sem Bjarni Jónsson fiskifræðingur lagði sig fram um að koma á framfæri við þá tæplega 30 gesti sem mættu á fyrirlestur hans á vegum SVAK fimmtudagskvöldið 17. apríl. Bjarni fjallaði ekki bara um Hofsá heldur líka um Ólafsfjarðará og Eyjafjarðará og þá með sérstaka áherslu á sjóbleikjuna eins og búast mátti við.


Bjarni kom víða við. Hann hvatti SVAK-félaga til að ganga varlega um gleðinnar dyr í veiðiskapnum í Hofsá enda væri svo margt óljóst um þá ágætu á. Fram kom í máli hans að Hofsá legði til um 25% af allri bleikju í Héraðsvatnakerfinu. Áin gefur meira af sér af fiski en venja er. Það eru því miklir hagsmunir í húfi að vel takist til með að nýta hana skynsamlega. Spurt var um hlutfall af laxi í ánni og svaraði Bjarni því til að búast mætti við að það væri um 10%. Tegundirnar keppa ekki grimmt um búsetusvæði í ánni enda sækir bleikjan meira í möl og lygnt vatn en laxinn. Þó væri um einhverja skörun á að ræða, þ.e.a.s. báðar tegundirnar velja í einhverjum mæli svipaðar slóðir til að hrygna á.Bjarni fjallaði eins og fyrr segir líka um Ólafsfjarðará og hélt því fast fram að áin væri stórlega vanmetin. Margt þyrfti þó að gera til að bæta lífsskilyrði bleikjunnar, t.d. að huga vel að sprænum og hliðakvíslum sem eru ávallt mjög mikilvægar uppeldisstöðvar ungviðis. Þessi búsetusvæði má þess vegna ekki stífla eða lama á annan hátt en því miður eru einhver dæmi um að slíkt hafi verið gert. Þetta má þó leiðrétta með góðum vilja, jafnvel með lítilli fyrirhöfn eins og að brúka handskóflu til opna fyrir rennsli á vissum stöðum. (Verðugt verkefni fyrir röska árnefnd). Bjarni ræddi líka um malarnám í Ólafsfjarðará sem hefur að klárlega valdið usla eins og víða annars staðar. Netaveiðar voru líka ræddar sem og fiskistiginn góði við fossana, brúarmál, netalagnir og fleira sem hefur áhrif á fiskigegnd og veiði í þessari nettu á.

Bjarni eyddi talsverðu púðri í Eyjafjarðará enda af ýmsu að taka í þeirri frægu á. Hið stórkarlalega malarnám sem hefur farið fram víðs vegar á vatnasvæði árinnar hefur að hans mati án efa haft áhrif á minnkandi veiði en fleira þarf þó líka að skoða. Má þar nefna ræsagerð, veiðar í Pollinum, netaveiðar og veiðálag. Vissulega væru þó ekki til staðar einhlítar skýringar á hið mikla hrun í veiðinni sem menn hafa þurft að horfa upp á undanfarin sumur, þó sérstaklega s.l. sumar. N.k. sumar mun hann ásamt Högna Harðarsyni fiskeldisfræðingi taka þátt í að rannsaka ána. Vonandi finnast þá betri skýringar á þessum ósköpum og um leið markvissari ráð til að snúa þessari óheillaþróun við.Bjarni sýndi mörg sláandi dæmi um hugsanaleysi sem einkennir oft margvíslegar framkvæmdir við ýmsar veiðiár vítt og breitt um landið. Stundum hefur hlotist af skaði sem erfitt eða ómögulegt reynist að leiðrétta. Í öðrum tilvikum hefur tekist að bjarga málum á síðustu stundu. Þetta eru langar og leiðinlegar syndaregistrur og sérlega sorglegar margar hverjar. Hér má nefna mengun við sundlaugar, malartekju, þurrkun lands til að auðvelda aðgengi að góðum veiðistöðum, heimskuleg ræsagerð (sbr. lokaðir hólkar sem tefja fyrir eða hindra með öllu fiskigengd) og fleira og fleira. Ekki eru menn nærri því alltaf að spara neina fjármuni með öllu klúðrinu. Teikn eru þó á lofti um að menn séu að taka sig á í þessum efnum enda fleygir þekkingu fram og hugarfar manna er að breytast. Veiðimenn hafa þar líka ærlegt verk að vinna.


Róbert F. Sigurðsson.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.