Fréttir

16 apr. 2008

Hofsá og fiskifræði veiðimannsins

Kvöldvaka hjá Stangaveiðifélagi Akureyrar

Bjarni Jónsson deildarstjóri Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar verður með áhugaverðan fyrirlestur þann 17. apríl í Lionssalnum, Skipagötu 14 og hefst hann kl. 20.00 Allir eru velkomnir og léttar veitingar verða í boði.

Fyrirlesturinn hefur yfirskriftina "Hofsá og fiskifræði veiðimannsins." Mun hann fjalla um vatnalíffræði, vatnalífverur, fæðu og tímgun laxfiska, stofnstærðir, veiðilálag, og farvegsbreytingar af mannavöldum og mun hann tvinna þetta saman við umfjöllun um bæði Hofsá í Vesturdal og Ólafsfjarðará.
Er þetta hvalreki fyrir veiðimenn þegar við stöndum frammi fyrir síauknu álagi á veiðiár, veiðimönnum fjölgar stöðugt og tækni þeirra eykst að auki. Ábyrgð veiðimanna er mikil og er nauðsynlegt að vera meðvitaður um samhengi hlutanna.

Bjarni Jónsson
er fiskifræðingur, deildarstjóri Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og hefur hann rannsakað Hofsá og Ólafsfarðará allmikið. Hann gefur Hofsá þá umsögn að þar sé um eina almerkilegust sjólbleikjuá landsins að ræða. Afhverju hann segir það fáum við að vita á fyrirlestrinum hans.

SVAK hefur nýlega tekið Hofsá í Vesturdal í Skagafirði á leigu og menn eru því mjög áfjáðir að fræðast um allt sem snertir þessa nettu sjóbleikjuá. SVAK hefur einnig ítök í ólafsfjarðará og ættu menn ekki síður að vera fróðleiksþyrstir um hana.

Um Hofsá:
Í sumar verður aðeins leyfð fluguveiði í Hofsá í Vesturdal, ekki síst vegna ráðlegginga Bjarna Jónssyni deildarstjóra Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunnar en hann hvatti stjórn til þess að hlífa hrygningarfiski. Verður tekin upp sú stefna í sumar að skylt verður að sleppa öllum silungi yfir 45 sm,. Kvóti verður 3 silungar á dagstöngina og að auki verður leyft að hirða einn lax á stöng. Þetta var einnig ákveðið í samráði við Bjarna og er í samræmi við stefnu stjórnar að láta fiskifræðina stýra álagi á veiðiár félagsins. Eftir 31. ágúst verður eingöngu veitt og sleppt fram til 20. september en þá verður öllum veiðum hætt.
En stjórn ákvað einnig að leyfa kaststangir með flugu, er það hugsað fyrir þá veiðimenn sem ekki hafa náð fullum tökum á fluguveiði og kannski ekki síst fyrir veiðimenn af yngstu kynslóðinni. Mjög auðvelt er að veiða með flotholt og flugu og er það í raun mun einfaldara enn að veiða með maðk. En það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga og verður fjallað um það sérstaklega. Verður þá farið í gegnum hvernig best er að útbúa tauma, hvaða flugur henti vel og fleira. Þetta er ekki síst vegna fjöldskyldustefnu félagsins og þá stefnu stjórnar að gera veiði á svæðum SVAK aðgengilega fyrir sem flesta félagsmenn.
Þessar ákvarðanir eru ekki síst teknar vegna þess að lítið er vitað um veiðiálag síðustu ára, skráningar eru litlar og svæðið er í raun svolítið spurningarmerki. Er félagið í samvinnu við fiskifræðing um seiðamælingar næsta sumar og merkingar. Þótti stjórn mikilvægt að fara varlega í sakirnar í sumar þar sem víða í kringum okkur eru bleikjustofnar í mikilli niðursveiflu og leyfa náttúrunni að njóta vafans. En sagnir eru mikla bleikjuveiði fyrrum í Hofsá og samkvæmt áliti fiskifræðinga er þetta ein merkilegsta bleikjuá á norðurlandi.. Er því mikil eftirvænting meðal félagsmanna með Hofsá og er það eindreginn vilji stjórnar að ganga vel um þessa perlu fyrir vestan.
Er öllu verðlagi stillt í hóf og er mikið pláss fyrir veiðimenn, eru fáar ár sem bjóða uppá 8-9 km á hverja stöng! Aðstaða er góð fyrir veiðimenn , notalegt hús og nokkuð gott aðgengi að ánni víða. En einnig eru svæði sem ættu að höfða til veiðimanna sem vilja ganga mikið og hafa vel fyrir hlutunum. Efri hluti svæðisins er hreinn ævintýraheimur og verður spennandi að kanna það.

Um SVAK:
Stangaveiðifélag Akureyrar (SVAK) vex og dafnar þessi misserin. Starfsemin er blómleg sem sést best á því að veiðileyfaframboð hefur aukist til muna, félögum hefur fjölgað gífurlega, félagið heldur úti öflugri vefsíðu og rekur fjölbreytta félagsstarfsemi. Má þar nefna vinsæl fræðslukvöld þar sem álitleg veiðisvæði eru kynnt af fólki sem þekkir vel til. Iðulega er sá háttur hafður á að framsögumaður gerir ítarlega grein fyrir uppáhalds veiðisvæði sínu og tekur þá fyrir bestu veiðistaðina og flugurnar sem reynst hafa honum best í slagnum við laxfiskana. Að því búnu leggja fundarmenn gott til málana með tilheyrandi spurningum og reynslusögum (sem eru auðvitað ávallt dagsannar eins og vera ber). Fræðimenn hafa líka sótt áhugasama SVAK-menn heim til að fjalla um lífríkið á veiðislóðum, æti og hegðun fiska og annað sem heillar metnaðargjarna veiðimenn.
Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.