Fréttir

15 apr. 2008

“Vor” við Brunná

      Það er skemmtilegra en orð fá lýst þegar dagatalið dettur í 1 apríl. Því það eru ekki bara veiðimenn sem fara þá frjálslega með staðreyndir heldur velflestir landsmenn. Það sem er enn ánægjulegra fyrir okkur veiðimenn að upp frá þessum degi verður til nýr og frjórri efniviður í enn magnaðri og ótrúlegri frásagnir af viðureignum okkar við þann “stóra”.

Það var því mikil tilhlökkun og óþreyja eftir langþráðum stundum við bakka Brunnár sem fyllti brjóst okkar á leiðinni norður í þessa miklu paradís veiðimanna sem Öxarfjörðurinn er. Þó svo að vor fyllti brjóst okkar eldmóði þá voru það miklar ýkjur að segja slíkt hið um þær aðstæður sem náttúrúöflin buðu okkur síðastliðna helgi. Frostrósir á gluggum, hitamælirinn sýndi -6°C á Tjörnesinu og snævi þakktir tindar sem og snjóbreiður á láglendi hvert sem litið var.

     Enn það voru enn sterkari öfl sem höfðu verið vakin af dvala nokkrum dögum áður er nú knúðu fast að dyrum. Við vorum strax farnir að ræða mögulegt fluguval, línur og líklega tökustaði við þessa áskorun sem náttúra Öxarfjarðar bauð okkur nú uppá. Að endingu varð valið hefðbundið, sökk lína með stuttum taum og hin magnaða flæðamús var sett undir. Fyrsta kastið var hálf vandræðalegt, eitthvað hafði veiðimaðurinn komið illa undan vetri. Reynt var aftur og nú kastað aðeins meira upp í strauminn. Minnugur þessa mikla ævintýris sem við lentum í á svipuðum tíma í ánni fyrir tveimur árum sendu heita strauma út í kalda og dofna fingurna sem börðust fyrir lífi sínu í éljagangi og -4 °C frosti. Alveg er ég þess fullviss að sú hamingja er um mig streymdi við þessar ljúfu hugrenningar varð til þess valdandi að um leið og ég byrjaði að strippa þetta ótrúlega veiðitæki hægt inn að harkalega og fast var togað á hinum enda línunnar. Glíma Grettis og Glúms um ábreiðuna hér forðum daga hefur örugglega bliknað í samanburði við þau átök er nú hófust. Sem betur fer fyrir veiðimanninn þá endaði þessi rimma á annan veg og fyrr en varði hafði fyrsti silungur vorsins í vetrarlíki þurft að lúta í snjó. Það var undursamleg tilfinning að sjá þennan silfraða höfðingja sigla mjúklega úr höndum mínum aftur út í kalda straumiðuna. Það skilja fáir nema sem reynt hafa í hverju hugljómunin felst þegar maður þarf að afþýða fingur, brjóta ís úr hverri lykkju á nokkurra mínútna fresti með bros á vör og vor í hjarta. Fyrsti veiðitúrinn var orðin staðreynd, hamingjudísirnar flögruðu allt í kringum okkur og áður en yfir lauk tókst okkur að galdra sjö fallega silunga að landi við magnaðar aðstæður. Við kvöddum hið ægifagra umhverfi Brunnár og Öxarfjörð í blíðskaparveðri með trega, en þó léttari við tilhugsunina um endurfund á því ævintýra tímabili sem nú fer í hönd hjá veiðimönnum öllum.

-Björn R Lúðvíksson-

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.