Fréttir

02 apr. 2008

Stangveiði í Suður Englandi og Wales

Undanfarin þrjú ár hefur Högni Harðarson fiskeldisfræðingur stundað nám við Sparsholt College, Winchester, Englandi. Námið er til B.S.-gráðu og alþjóðlegrar diplomu og tengist aðallega fiskirækt, fiskifræði og veiðistjórnun. 

Hérna er pistill frá Högna þar sem hann segir frá nokkrum ám í Bretlandi.

Skólinn er staðsettur í Suður-Englandi, stutt frá bænum Winchester sem er fyrr- verandi höfuðborg Englands. Þar er margt sem fangar athygli ferðamanna, t.d. hin þekkta dómkirkja, þar sem Arthur konungur og riddarar hringborðsins réðu ríkjum. Miðbærinn iðar oft af mannlífi og skemmtilegum uppákomum og gerir Winchester að vinalegum námsbæ.


Stuttu eftir komu mína til Winchester fór ég að kynna mér þá möguleika sem í boði voru fyrir forfallna stangveiðimenn. Sú staðreynd að áin Itchen rynni í gegnum Winchester og aðeins 20 km væru í hina frægu á Test var eitthvað svo heillandi og spennandi. Ég rauk á pósthúsið til að kaupa mér leyfi; einungis £ 48 fyrir allt árið og hægt að veiða allar tegundir ferskvatns fisks. En fljótlega komst ég að því að þau svæði, í báðum ánum, sem eitthvað er spunnið í eru í fastri leigu manna eins og Erics Clapton, Karls prins, Charles Jardine og meira að segja Rogers Moore. Þar sem kynni mín af þessum höfðingjum eru frekar lítil, var ekki hægt annað en að sætta sig við þau svæði sem opin eru almenningi og miklu ódýrari.
Í Winchester og rétt utan við bæinn eru svæði í ánni Itchen sem maður getur stundað hvenær sem er, án einhvers aukakostnaðar. Þarna er hægt að veiða urriða, harra, geddu, karfa, sjóbirting, aborra og stöku sinnum lax. Ég hef haft mest gaman af því að veiða harra og sjóbirting og nota til þess hina hefðbundnu andstreymisaðferð með kúlupúpum og tökuvara. Það er gaman af því að oftast sér maður harrann taka, en mikla nákvæmni þarf til að fá þá til að hreyfa sig. Þess má geta að félagar mínir í skólanum nota sjaldan tökuvara og hafa litla trú á því fyrirbæri, en ég er þó á góðri leið með að breyta því. Það hefur reynst vel að nota blóðorma og einnig eftirlíkingar af rækju.


Ég hef aðeins tvisvar komið í ánna Test (utan við það skipti sem ég var að prófa flugustangir frá Orvis búðinni í Stockbridge) og varð nú ekkert yfir mig ástfanginn af henni. Þau svæði sem ég fór á voru einfaldlega of hæg og djúp fyrir minn smekk og skemmtilegast þótti mér að veiða litlar kvíslar úr aðalánni. Aflinn var aðallega regnbogasilungur, urriði og harri. Þarna er gert mikið út á regnbogasilunginn, sem var fluttur frá USA á sínum tíma og getur verið gríðarlega vænn.
Þrátt fyrir að hafa “rjómann” af bestu kalkám Bretlands í næsta nágrenni við mig, fannst mér ég þurfa að leita á önnur mið, komast í meiri straum, fjölbreyttari veiðistaði og hugsanlega fá fleiri tökur. Ég fór að skoða aðra möguleika sem voru í boði, en ekki mátti þó vera of langt að sækja í hið hugsanlega veiðisvæði. Ég hafði heyrt af Íslendingum sem höfðu veitt urriða í ánni Usk í Wales og skemmt sér vel. Þangað vildi ég fara og mér tókst að plata þrjá skólafélaga mína með mér, 5. maí 2007 á 3 km svæði sem kallast Fenni Fack. Við vorum allir temmilega spenntir og vel leit út með veður þennan dag. Það var þriggja tíma keyrsla til Usk, við stoppuðum aðeins á ferðamannastaðnum Brecon og komum síðan að ánni í hálfgerði þoku, en í um 20 stiga hita.


Heimsmet var sett í að setja saman stangirnar og gera sig kláran og síðan skiptum við liði. Ég og Cameron skyldum veiða neðri hlutann af svæðinu, en Dan og Nick efri hlutann. Við vorum allir klárir með litlar kúlupúpur, Héra-eyra eða blóðorm, og notuðum Clink Hammer þurrflugur sem tökuvara.
Ég og Cameron ákváðum að byrja neðst á svæðinu, en þegar við vorum búnir að ganga dágóðan spotta var kominn of mikill hugur í Cameron og hann fann góðan stað til að byrja á. Ég hélt áfram nokkuð niður með áni og taldi mig vera kominn á neðstu veiðistaðina, þegar ég sá fisk taka flugu í yfirborðinu nálægt bakkanum. Svo skemmtilega vildi til að þessi fiskur tók Clink Hammerinn minn eftir aðeins nokkur köst og ég veinaði af ánægju þegar hann rauk af stað og stökk. Eitt núll fyrir mig og ég hélt af stað upp ánna. Ég kom fljótlega að fallegum stað, og sá tvo fiska neðst í strengnum. Þeir harðneituðu að taka og ég fór að einbeita mér að koma flugunni ofar í hylinn. Þar var ég fljótt var við fisk en komst að því að ég þurfti að koma agninu dýpra og ákvað að skipta í tökuvara í stað þurrflugunnar. Þetta gekk upp og ég náði að setja í fallegan urriða sem toppaði þann fyrsta í stærð og baráttugleði.
Nú létti á þokunni og sólin fór að stríða mér, erfiðara var að eiga við fiskinn og hann virtist missa áhugann. Ég mætti Cameron og hann hafði fljótlega fengið þrjá urriða á sama stað og alla á lítla kúlupúpu, en síðan bara ekki neitt. Við ákváðum að halda af stað upp ána og veiða nálægt hvor öðrum. Það er skemmst frá því að segja að lítið sem ekkert gerðist, en mér tókst þó að setja í og ná einum smá stubb á litla kúlupúpu og með tökuvara.


Þegar við hittum Dan og Nick var þungt í þeim hljóðið. Þeir höfðu ekki fengið neinn fisk og ekki séð marga. Eftir góðan málsverð héldum við Cameron af stað upp ána, en Dan og Nick niður hana. Það kom okkur Cameron fljótlega á óvart hversu mikið af fiski við sáum á þessu hluta svæðisins og margir voru bara býsna vænir. En þeim var vart haggað og aðeins tveir fiskar sýndu áhuga en festu sig ekki. Við gáfumst fljótlega upp og ákváðum að koma okkur úr vöðlunum og öðrum veiðiklæðnaði og gera lokatilraun nálægt þeim stað þar sem við höfðum lagt bílnum. En þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir, gekk þetta ekki. Dan og Nick skiluðu sér stuttu seinna, fisklausir eftir daginn, en voru þó í betra skapi og mjög hrifnir af ánni. Eftir gott spjall um skemmtileg tilþrif og veiðiaðferðir var haldið á nærliggjandi Fish & Chips stað og síðan héldu umræðurnar áfram alla leiðina til Winchester.
Persónulega var ég heillaður af þessu rómaða svæði í ánni Usk og vildi gjarnan geta farið þarna aftur, eða þá á annað svipað svæði í ánni. Leyfið kostaði £ 17.5 á mann, enginn fastur veiðitími var og hirða mátti 4 fiska á stöng.

Fallegur hylur, þar sem fiskur númer 2 var dreginn
á land.

Til baka

Veiðileyfi

Hörgá
Ekkert laust eins og er.

Laxá í Aðaldal, Hraun
Ekkert laust eins og er.

Ólafsfjarðará
Ekkert laust eins og er.

Svarfaðardalsá
Ekkert laust eins og er.