Fréttir

28 mar. 2008

Skylduslepping á stórlaxi?

Óðinn Sigþórsson sagði Landssamband Veiðifélaga beina því til sinna félagsmanna að setja skyldusleppingar á stórlax. Varla yrði mikið lengur beðið með þær aðgerðir og jafnvel yrði að taka upp samninga á milli veiðiréttareigenda og leigutaka ef þess þyrfti til að skerpa á þessum málum. Sagðist Óðinn þeirrar skoðunar að banna ætti dráp á stórlaxi.

Málþing sem haldið var að frumkvæði Landssambands Stangaveiðifélaga og Veiðimálastofnunar í kjölfar ársfundar þess síðarnefnda á Hótel Loftleiðum í dag fer líklegast í sögubækurnar. Ljóst er að ástand stórlaxastofna hérlendis er orðið svo slæmt að Veiðimálastofnun hefur formlega lagt til við stjórnvöld að stórlax verði friðaður. Þetta kom fram í máli Sigurðar Guðjónssonar forstjóra stofnunarinnar. Segir hann vísbendingar benda til þess að genaþáttur stórlaxa sé enn fyrir hendi en fækkun þeirra hafi neikvæð áhrif á hrygningu.

Á málþinginu tóku til máls Sigurður Guðjónsson frá Veiðimálastofnun, Óðinn Sigþórsson formaður Landssambands Veiðifélaga, Hilmar Hansson stangaveiðimaður og Árni Ísaksson Veiðimálastjóri.

Að sögn Sigurðar var síðasta stórlaxatímabil á árunum 1970 til 1985. Allt síðan þá hafi stórlaxi farið fækkandi og nú er svo komið að hann verði útdauður með öllu árið 2020 ef sama þróun heldur áfram. Skýringar á þessari þróun geta verið margskonar að sögn Sigurðar en meðal annars séu líkur á að stórlax dvelji annarsstaðar í hafi en smálax, dánartala sé breytileg eftir tímabilum, auk þess sem að skýringa geti verið að finna í hitastigi hérlendra laxveiðiáa en seiði hafa farið fyrr út vegna góðs árferðis. Auk þess hafi orðið hrun í lífríki þekktra dvalarstaða stórlaxa við Grænland, en sem dæmi hafi ástand átu og seltu versnað.

Benti Sigurður á það að þrátt fyrir mikla fækkun stórlaxa þá hafi kynjahlutfall á milli stórlaxa og smálaxa enn haldist í sama horfi og því útlit fyrir að erfðaþáttur stórlaxa sé enn fyrir hendi. Vegna þessa vilji stofnunin banna veiði á stórlaxi með öllu og hvetur hún til aðgerða í það minnsta til sex ára.Orri Vigfússon forsvarsmaður NASF rakti sorgarsögu þekktra stórlaxaáa í Noregi öðrum til varnaðar. Benti hann á að hluti stangaveiðimanna og veiðiréttareigenda hérlendis virðist láta núverandi ástand sig litlu máli skipta.

Hilmar Hansson tók í sama streng og benti á gott fyrirkomulag í ám í Rússlandi en þar er bannað að drepa stórlax með öllu. Sagði hann jafnframt hagsmunaaðila á Íslandi vera að brenna inni á tíma og taka yrði til aðgerða strax. Öllu lengri bið væri sama og dauðadómur yfir stórlaxastofnum. Í því sambandi nefndi Hilmar á fyrirkomulag það sem notað er í Vatnsdalsá og víðar þar sem öllum laxi er einfaldlega sleppt. Sagði hann stangaveiðimenn verða að sætta sig við veiðistýringu og bann til að mynda við maðkveiðum.

Óðinn Sigþórsson sagði Landssamband Veiðifélaga beina því til sinna félagsmanna að setja skyldusleppingar á stórlax. Varla yrði mikið lengur beðið með þær aðgerðir og jafnvel yrði að taka upp samninga á milli veiðiréttareigenda og leigutaka ef þess þyrfti til að skerpa á þessum málum. Sagðist Óðinn þeirrar skoðunar að banna ætti dráp á stórlaxi.

Árni Ísaksson Veiðimálastjóri tók einnig til máls og rakti lagaumhverfi sem veiðiréttareigendur og veiðimenn búa við hérlendis. Vakti hann athygli á því að hægt er að beita greinum 17. og 29 í núverandi lax- og silungsveiðilögum og stöðva þannig dráp á stórlaxi með stjórnvaldsaðgerð.

Ljóst er að mikill samhljómur var meðal gesta á þinginu og líklegt verður að teljast að tíðinda sé að vænta hvað þessi mál varðar. Athyglivert verður að sjá hvort fleiri veiðifélög komi til með að taka upp skyldusleppingu á stórlaxi í framhaldinu eða hvort að bann við drápi á stórlaxi komi að endingu frá stjórnvöldum. Öllum ætti þó að vera ljóst að búast má við róttækum aðgerðum ef eitthvað var að marka tóninn í fundarmönnum.

Tekið af vef SVFR.

 

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.